Samfélagsmiðlar

Upp á Eyrarfjall með kláfi

Vinna við umhverfismat er hafin við fyrirhugaðan kláf upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar. Vonast er til að innan fimm ára geti fólk skotist í kláfi upp á Eyrarfjall og notið þaðan útsýnisins yfir Skutulsfjörð. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er 3,5 milljarðar króna.

Horft yfir Ísafjörð frá fyrirhugaðri leið kláfsins - MYND: Eyrarkláfur

Hugmyndir um kláf á Ísafirði hafa lengi legið í loftinu, frá því fyrir aldamót. Árið 2006 setti Úlfar Ágústsson, verslunarmaður, fram hugmyndir um kláf á ný og í framhaldinu var stofnað félagið Eyrarkláfur en ekkert varð úr þeim áætlunum. En fyrir nokkrum árum fór verkefnið aftur á skrið og í forsvari fyrir félaginu nú eru þeir Gissur Skarphéðinsson og Úlfur Úlfarsson. 

Úlfur Úlfarsson og Úlfar Ágústsson á Eyrarfjalli – MYND: Eyrarkláfur

Framkvæmdin þarf í umhverfismat

Sumarið 2021 úrskurðaði Skipulagsstofnun að framkvæmdin væri háð umhverfismati. Forsvarsmenn Eyrarkláfs kærðu ákvörðunina til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og vildu fá hana fellda úr gildi en því var hafnað. Nú hefur félagið Eyrarkláfur fengið tveggja milljóna króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að hefja umhverfismatsvinnu og sér félagið Rorum ehf. um umhverfismatið. Eftir að umhverfismat liggur fyrir þarf að fara í aðal- og deiliskipulagsvinnu. 

Gissur Skarphéðinsson – MYND: Eyrarkláfur

Kláfur, veitingahús og gisting

Ætlunin er að reisa kláf og með honum tvö stöðvarhús, byrjunarstöð í þéttbýlinu á Ísafirði ofan Hlíðarvegar á Ísafirði – og endastöð uppi á fjallinu.  Þá er ætlunin að byggja veitingastað á toppi Eyrarfjalls og gistieiningar eða hótel. „Markmiðið með kláfnum er að veita upplifun sem er ekki algeng á Vestfjörðum: Að einstaklingar fái nýja sýn á þetta svæði með því að eiga kost á að fara upp á Eyrarfjall á auðveldan hátt um leið og félagið býður viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu með miklu öryggi,“ segir Gissur, og nefnir sem dæmi að kláfarnir fari inn í hús þegar upp er komið. 

Frá væntanlegum upphafsstað kláfsins – MYND: Eyrarkláfur

Gæti flutt allt að 5400 manns á dag

„Kláfurinn sem núna er verið að skoða er stærri og öflugri en sá sem var skoðaður 2006,” segir Gissur. Kláfurinn sem áætlað er að setja upp er af gerðinni 3S Gondola Lift sem Gissur segir að sé hagkvæmur kostur og þoli vel vind. „Hann verður  með tveimur „vögnum“ á tveimur línum. Þegar annar er í efstu stöðu þá er hinn í neðstu stöðu. Hvor vagn tekur allt að 45 manns í hverri ferð.“ 

Eitt mastur kemur á milli neðri stöðvar og efri stöðvar til að lyfta kláfnum yfir Gleiðarhjalla. Hvor vagn getur farið þrjár til fimm ferðir upp á klukkustund, samtals sex til tíu ferðir. Miðað við hundrað prósent nýtingu á báðum vögnum er afkastageta kláfsins 270 til 450 manns á klukkustund eða 2700 til 5400 á dag en gert er ráð fyrir að kláfurinn sé um 6–7 mínútur upp á topp Eyrafjalls, segir Gissur. Hann bendir á að víða megi finna kláfa sem þennan til að mynda í Loen í Noregi.

Endastöð kláfsins í Loen – MYND: Eyrarkláfur

Farþegar skemmtiferðaskipa meginmarkhópurinn

Meginmarkhópur kláfsins er farþegar skemmtiferðaskipa „Í sumar komu um 200 þúsund farþegar með þeim,“ segir Gissur og tilkoma kláfsins komi svo til með að styrkja enn frekar Vestfjarðaleiðina og að fleiri komi þá landleiðina. Kláfurinn er nú þegar orðinn hluti af áfangastaðaáætlun Vestfjarða.  

Áætlaður kostnaður 3,5 milljarðar

Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins eru 3,5 milljarðar króna. Gissur segir að fjármögnun sé ekki farin af stað og að það verði ekki farið af stað með hana fyrr en umhverfismat og skipulagsvinnu sé lokið. Hann áætlar að umhverfismatsvinna taki um eitt til eitt og hálft ár og að skipulagsvinna, framkvæmdir við stöðvarhús, veitingahús og uppsetning kláfsins taki um þrjú ár.  Samkvæmt upplýsingum frá Eyrarkláfi kemur fram að framkvæmdin komi til með að skapa 25-30 varanleg störf auk afleiddra starfa. Þá skapist atvinna við uppsetningu kláfsins. 

Kláfur og veitingastaður í Loen í Noregi – MYND: Eyrarkláfur

7.500 krónur fyrir farið

Ætlunin er að hafa kláfinn opinn allt árið ef veður leyfir og þá aðallega um helgar yfir veturinn. Fyrsta áætlun gerir ráð fyrir að far upp og niður kosti 7.500 krónur fyrir fullorðinn einstakling. 

Stefnt er að því að kynna verkefnið fyrir íbúum á Ísafirði á vormánuðum. Þá verður kynnt framvinda verkefnisins sem og tekið við ábendingum og athugasemdum um hvað betur megi fara. 

Horft yfir Skutulsfjörð frá væntanlegri endastöð kláfsins á Eyrarfjalli – MYND: Eyrarkláfur

Nýtt efni

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …