Samfélagsmiðlar

Lítil umferð gerir Vestfirði að fýsilegum kosti fyrir hjólreiðafólk

Vestfirðir eru komnir á kort hjólreiðamanna. Halla Ólafsdóttir á Ísafirði ræðir við Tyler Wacker hjá fyrirtækinu Cycling Westfjords, sem veitir hjólreiðafólki þjónustu og stendur fyrir hjólreiðakeppni. Tyler hefur áhyggjur af því að á Íslandi virðist hjól og hjólreiðafólk ekki vera hluti af framtíðarsýninni í vegakerfinu. 

Hjólað um Óshlíð - MYND: Ágúst Atlason

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En svo eru gamlir vegir sem hjólreiðafólk getur farið og verið algjörlega eitt í heiminum. Og það er kostur við Vestfirði að þessir vegir eru enn til. Rólegar, fallegar leiðir um vegi sem eru ekki í alfaraleið.“

Tyler Wacker – MYND: Josh Weinberg

Flutti frá austurströnd Bandaríkjanna til Ísafjarðar 

Tyler flutti til Ísafjarðar til að stunda nám í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða. Hann er verkfræðingur og áður en hann flutti til Íslands hafði hann unnið við að skoða langtímaáætlanir fyrir vegi í kringum San Fransisco flóa með tilliti til hjólreiða. Þegar hann sá að verið væri að þróa ferðamannaleið um Vestfirði, Vestfjarðaleiðina, spurði hann sig hvað væri verið að gera fyrir hjólreiðafólk. Hann fékk styrk frá nýsköpunarsjóði námsmanna til að kanna innviði fyrir hjólreiðafólk á Vestfjörðum og sumarið 2021 hjólaði hann Vestfjarðaleiðina í þeim tilgangi. 

Umferð hjólandi ekki hluti af framtíðarsýn

„Í Bandaríkjunum eru ýmsar stefnur sem miða að því að tryggja að samhliða nýjum vegum sé gert ráð fyrir hjólreiðafólki,“ segir Tyler. „Hins vegar sá ég að þegar var til dæmis verið að gera Dýrafjarðargöng þá var nóg pláss fyrir hjólaleið í göngunum en hún samt ekki gerð. Þetta var rautt flagg hvað varðar framtíðarsýn í vegauppbyggingu. Þetta eru risauppbyggingarverkefni sem munu ekki breytast næstu 100 árin.“ Á Íslandi virðast hjól og hjólreiðafólk ekki vera hluti af framtíðarsýninni í vegakerfinu. 

Það er ekki bara hjólað á vegum. Hér í Svalvogum – MYND: Ágúst Atlason

Stofnaði fyrirtæki til að efla þjónustu við hjólreiðafólk

Sumarið 2021, sama sumar og Tyler hjólaði Vestfjarðaleiðina, stofnaði hann fyrirtæki ásamt Halldóru Björk Norðdahl til að efla Vestfirði sem áfangastað fyrir hjólreiðafólk. Halldóra Björk vann þá að lokaverkefni í ferðamálafræði um upplifun hjólreiðafólks á Vestfjörðum og fannst vanta einhvers konar umgjörð fyrir þetta ferðafólk. Tyler hafði jafnframt komist að því í sínu verkefni að það vantaði innviði og þjónustu fyrir hjólreiðafólk, fólk gæti vissulega leitað á bílaverkstæði kæmi eitthvað uppá, en sérhæfð þjónusta var sjaldan í boði.  

Fengu ofurhjólreiðakeppni í fangið 

Þetta sama sumar, 2021, fékk Vestfjarðastofa ofurhugann og ljósmyndarann Chris Burkard, og fleiri sterka hjólreiðamenn, til að hjóla Vestfjarðaleiðina. Chris Burkard og félagar fóru þessa 960 kílómetra á átta dögum og fjölluðu um ferðina á samfélagsmiðlum og í hjólatímariti. Verkefnið vakti mikla athygli og hugmynd kviknaði um að gera keppni sem væri þessi sama leið, Vestfjarðaleiðin. Chris Burkard er ýmsilegt en ekki endilega skipuleggjandi hjólreiðakeppni svo að Halldóra og Tyler fengu hugmyndina í fangið. Sumarið 2022 boðuðu þau í fyrsta sinn til þessarar 960 kílómetra hjólreiðakeppni sem skyldi farin á fjórum dögum. Keppnin telst til svo kallaðra úthaldshjólreiðakeppna (ultra endurance) sem eru vinsælar í hjólreiðaheiminum í dag. 

Hjólað við Dynjanda – MYND: Ágúst Atlason

Áskorun að halda keppninni á kortinu

Keppnin vakti mikla athygli enda hafði Chris Burkard komið leiðinni á kortið. Tyler segir að langflestir þeirra sem komi til að hjóla á Vestfjörðum þekki til hjólaferðar Chris Burkard og það seldist fljótt upp í karlaflokki í keppninni fyrsta árið. Sextíu manns hófu keppni í blíðskaparveðri í lok júní 2022. Fyrsta dagleiðin er frá Ísafirði um Ísafjarðardjúp í Bjarnafjörð, 254 km, önnur dagleiðin úr Bjarnafirði suður Strandirnar, yfir Laxárdalsheiði og á Fellsströnd, 243 km og þriðja dagleiðin er af Fellsströnd á Patreksfjörð, 246 km.  Síðasta dagleiðin er frá Patreksfirði um fimm fjallvegi, Mikladal, Hálfdán, Dynjandisheiði, Gemlufallsheiði og Botnsheiði en einnig um torfæra Svalvoga alla leið á Ísafjörð, 211 km, og náðu 38 manns að klára keppnina. 

Vilja að fólk kynnist menningu Vestfjarða í leiðinni

Á leiðinni eru nokkur svokölluð menningarstopp og fólk er skikkað til að stoppa tvisvar á slíku hvern dag. Um leið er tíminn stöðvaður og er ætlunin að fólk kynnist þannig fleiru en landslaginu og fái tækifæri til að njóta menningar Vestfjarða. Dæmi um menningarstopp eru Litli bær í Skötufirði, Heydalur, Sauðfjársetrið á Ströndum og dýragarðurinn á Hólum í Dölum. 

Í síðustu keppnum hafa Íslendingar verið um  þriðjungur keppenda, annar þriðjungur frá Evrópu og sá þriðji frá Norður-Ameríku. Svo voru örfáir frá öðrum hlutum heimsins. Það getur brugðið til beggja vona með veðrið. Það lék við keppendur sumarið 2022 en  í fyrra fengu þeir stöðugt rok og rigningu í fangið. Þá hófu 78 keppni en 40 kláruðu hana. „Það er áskorun að halda keppninni áhugaverðri og spennandi í hjólaheiminum,“ segir Tyler. Og það verður líklega enn erfiðara eftir vosbúðina sem fylgdi keppninni í fyrra. Skráning er hafin fyrir keppnina í ár en hún fer fram 23-28. júlí. 

Enginn byrjar að hjóla til að taka þátt í þessari keppni

Á árunum 2012-2021 átti hjólreiðakeppni sem fór í kringum landið (Cyclothon) hug og hjörtu hjólreiðafólks landsins. Tyler rifjar upp að sú keppni hafi höfðað bæði til þeirra sem höfðu reynslu af hjólreiðum og þeirra sem langaði til að byrja að hjóla. Þannig kveikti keppnin neista hjá mörgum sem keyptu sér hjól og komu nýir inn í íþróttina. Það sama gildi ekki um „The Westfjords Way Challenge“. „Það kaupir enginn hjól og byrjar að hjóla til að taka þátt í þessari keppni,“ segir Tyler. Keppnin reiðir sig á sterkan kjarna hjólreiðafólks og Tyler heldur að það séu ekki margir að komi nýir inn í íþróttina.  Fyrir þá sem vilja þó fá nasasjón af keppninni án þess að fara allan hringinn þá var í fyrra, og verður aftur í ár, boðið upp á að hjóla aðeins síðasta legginn af keppninni, frá Patreksfirði til Ísafjarðar.

Sér tækifæri í aflögðum malavegum

Vestfjarðaleiðin fer bæði um malbikaða vegi og malarvegi. Tyler segir að malarhjólreiðar séu nú mjög vinsælar og að þeir sem komi til Vestfjarða til að hjóla vilji hjóla á malarvegum. Víða á Vestfjörðum megi finna aflagða vegi sem henti hjólreiðafólki vel. Nú er verið að leggja nýjan veg um Dynjandisheiði og í Gufudalssveit þar sem malbik tekur við af malarvegum og Tyler segir að það væri best ef hjólreiðafólk gæti nýtt áfram gömlu vegina. Það sé þó lenskan að hindra för fólks um þessa aflögðu vegi með skurðum eða með því að fjarlægja brýr enda vilji enginn bera ábyrgð á vegunum þegar nýir taka við. – En þetta sé samtal sem sé mikilvægt að taka. 

Tyler tekur sem dæmi veginn um Óshlíð. Hann hefur verið aflagður síðan Bolungarvíkurgöng opnuðu árið 2006. Það væri mikils virði ef honum væri viðhaldið fyrir hjólreiðafólk, auðveld og falleg leið án bílaumferðar. 

Starfmenn nærast og sinna erindum: Tyler, Halldóru Björk Norðdahl og Lynnee Jacks – MYND: Josh Weinberg

Langar til að breiðari hópur hjóli um Vestfirði

Markmið fyrirtækis Tylers og Halldóru er að styðja við hjólreiðafólk sem kemur til Vestfjarða. „Núna er þetta blanda af fólki sem kemur til að ferðast á hjóli um Vestfirði og þau sem koma til að keppa,“ segir Tyler, en þau Halldóra vilja þróa ferðaþjónustu „Cycling Westfjords“ þannig að hún styðji enn betur við hjólreiðafólk á öllum getustigum. Þannig geti ferðamátinn orðið aðgengilegri fyrir fleiri en nú og að það sé hægt að laga hjólaferðir að getu og löngun fólks. „Við höldum áfram að þróa þetta en ég held að framtíð hjólreiða á Vestfjörðum felist í rafmagnshólaferðum,“ segir Tyler, þannig megi laða enn fleiri að hjólaferðamátanum. 


MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI: NÚ FÆRÐU FYRSTA MÁNUÐINN MEÐ 50% AFSLÆTTI, Á 1.325 KRÓNUR. SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA TILBOÐIÐ

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …