Samfélagsmiðlar

Lítil umferð gerir Vestfirði að fýsilegum kosti fyrir hjólreiðafólk

Vestfirðir eru komnir á kort hjólreiðamanna. Halla Ólafsdóttir á Ísafirði ræðir við Tyler Wacker hjá fyrirtækinu Cycling Westfjords, sem veitir hjólreiðafólki þjónustu og stendur fyrir hjólreiðakeppni. Tyler hefur áhyggjur af því að á Íslandi virðist hjól og hjólreiðafólk ekki vera hluti af framtíðarsýninni í vegakerfinu. 

Hjólað um Óshlíð - MYND: Ágúst Atlason

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En svo eru gamlir vegir sem hjólreiðafólk getur farið og verið algjörlega eitt í heiminum. Og það er kostur við Vestfirði að þessir vegir eru enn til. Rólegar, fallegar leiðir um vegi sem eru ekki í alfaraleið.“

Tyler Wacker – MYND: Josh Weinberg

Flutti frá austurströnd Bandaríkjanna til Ísafjarðar 

Tyler flutti til Ísafjarðar til að stunda nám í sjávarbyggðafræði við Háskólasetur Vestfjarða. Hann er verkfræðingur og áður en hann flutti til Íslands hafði hann unnið við að skoða langtímaáætlanir fyrir vegi í kringum San Fransisco flóa með tilliti til hjólreiða. Þegar hann sá að verið væri að þróa ferðamannaleið um Vestfirði, Vestfjarðaleiðina, spurði hann sig hvað væri verið að gera fyrir hjólreiðafólk. Hann fékk styrk frá nýsköpunarsjóði námsmanna til að kanna innviði fyrir hjólreiðafólk á Vestfjörðum og sumarið 2021 hjólaði hann Vestfjarðaleiðina í þeim tilgangi. 

Umferð hjólandi ekki hluti af framtíðarsýn

„Í Bandaríkjunum eru ýmsar stefnur sem miða að því að tryggja að samhliða nýjum vegum sé gert ráð fyrir hjólreiðafólki,“ segir Tyler. „Hins vegar sá ég að þegar var til dæmis verið að gera Dýrafjarðargöng þá var nóg pláss fyrir hjólaleið í göngunum en hún samt ekki gerð. Þetta var rautt flagg hvað varðar framtíðarsýn í vegauppbyggingu. Þetta eru risauppbyggingarverkefni sem munu ekki breytast næstu 100 árin.“ Á Íslandi virðast hjól og hjólreiðafólk ekki vera hluti af framtíðarsýninni í vegakerfinu. 

Það er ekki bara hjólað á vegum. Hér í Svalvogum – MYND: Ágúst Atlason

Stofnaði fyrirtæki til að efla þjónustu við hjólreiðafólk

Sumarið 2021, sama sumar og Tyler hjólaði Vestfjarðaleiðina, stofnaði hann fyrirtæki ásamt Halldóru Björk Norðdahl til að efla Vestfirði sem áfangastað fyrir hjólreiðafólk. Halldóra Björk vann þá að lokaverkefni í ferðamálafræði um upplifun hjólreiðafólks á Vestfjörðum og fannst vanta einhvers konar umgjörð fyrir þetta ferðafólk. Tyler hafði jafnframt komist að því í sínu verkefni að það vantaði innviði og þjónustu fyrir hjólreiðafólk, fólk gæti vissulega leitað á bílaverkstæði kæmi eitthvað uppá, en sérhæfð þjónusta var sjaldan í boði.  

Fengu ofurhjólreiðakeppni í fangið 

Þetta sama sumar, 2021, fékk Vestfjarðastofa ofurhugann og ljósmyndarann Chris Burkard, og fleiri sterka hjólreiðamenn, til að hjóla Vestfjarðaleiðina. Chris Burkard og félagar fóru þessa 960 kílómetra á átta dögum og fjölluðu um ferðina á samfélagsmiðlum og í hjólatímariti. Verkefnið vakti mikla athygli og hugmynd kviknaði um að gera keppni sem væri þessi sama leið, Vestfjarðaleiðin. Chris Burkard er ýmsilegt en ekki endilega skipuleggjandi hjólreiðakeppni svo að Halldóra og Tyler fengu hugmyndina í fangið. Sumarið 2022 boðuðu þau í fyrsta sinn til þessarar 960 kílómetra hjólreiðakeppni sem skyldi farin á fjórum dögum. Keppnin telst til svo kallaðra úthaldshjólreiðakeppna (ultra endurance) sem eru vinsælar í hjólreiðaheiminum í dag. 

Hjólað við Dynjanda – MYND: Ágúst Atlason

Áskorun að halda keppninni á kortinu

Keppnin vakti mikla athygli enda hafði Chris Burkard komið leiðinni á kortið. Tyler segir að langflestir þeirra sem komi til að hjóla á Vestfjörðum þekki til hjólaferðar Chris Burkard og það seldist fljótt upp í karlaflokki í keppninni fyrsta árið. Sextíu manns hófu keppni í blíðskaparveðri í lok júní 2022. Fyrsta dagleiðin er frá Ísafirði um Ísafjarðardjúp í Bjarnafjörð, 254 km, önnur dagleiðin úr Bjarnafirði suður Strandirnar, yfir Laxárdalsheiði og á Fellsströnd, 243 km og þriðja dagleiðin er af Fellsströnd á Patreksfjörð, 246 km.  Síðasta dagleiðin er frá Patreksfirði um fimm fjallvegi, Mikladal, Hálfdán, Dynjandisheiði, Gemlufallsheiði og Botnsheiði en einnig um torfæra Svalvoga alla leið á Ísafjörð, 211 km, og náðu 38 manns að klára keppnina. 

Vilja að fólk kynnist menningu Vestfjarða í leiðinni

Á leiðinni eru nokkur svokölluð menningarstopp og fólk er skikkað til að stoppa tvisvar á slíku hvern dag. Um leið er tíminn stöðvaður og er ætlunin að fólk kynnist þannig fleiru en landslaginu og fái tækifæri til að njóta menningar Vestfjarða. Dæmi um menningarstopp eru Litli bær í Skötufirði, Heydalur, Sauðfjársetrið á Ströndum og dýragarðurinn á Hólum í Dölum. 

Í síðustu keppnum hafa Íslendingar verið um  þriðjungur keppenda, annar þriðjungur frá Evrópu og sá þriðji frá Norður-Ameríku. Svo voru örfáir frá öðrum hlutum heimsins. Það getur brugðið til beggja vona með veðrið. Það lék við keppendur sumarið 2022 en  í fyrra fengu þeir stöðugt rok og rigningu í fangið. Þá hófu 78 keppni en 40 kláruðu hana. „Það er áskorun að halda keppninni áhugaverðri og spennandi í hjólaheiminum,“ segir Tyler. Og það verður líklega enn erfiðara eftir vosbúðina sem fylgdi keppninni í fyrra. Skráning er hafin fyrir keppnina í ár en hún fer fram 23-28. júlí. 

Enginn byrjar að hjóla til að taka þátt í þessari keppni

Á árunum 2012-2021 átti hjólreiðakeppni sem fór í kringum landið (Cyclothon) hug og hjörtu hjólreiðafólks landsins. Tyler rifjar upp að sú keppni hafi höfðað bæði til þeirra sem höfðu reynslu af hjólreiðum og þeirra sem langaði til að byrja að hjóla. Þannig kveikti keppnin neista hjá mörgum sem keyptu sér hjól og komu nýir inn í íþróttina. Það sama gildi ekki um „The Westfjords Way Challenge“. „Það kaupir enginn hjól og byrjar að hjóla til að taka þátt í þessari keppni,“ segir Tyler. Keppnin reiðir sig á sterkan kjarna hjólreiðafólks og Tyler heldur að það séu ekki margir að komi nýir inn í íþróttina.  Fyrir þá sem vilja þó fá nasasjón af keppninni án þess að fara allan hringinn þá var í fyrra, og verður aftur í ár, boðið upp á að hjóla aðeins síðasta legginn af keppninni, frá Patreksfirði til Ísafjarðar.

Sér tækifæri í aflögðum malavegum

Vestfjarðaleiðin fer bæði um malbikaða vegi og malarvegi. Tyler segir að malarhjólreiðar séu nú mjög vinsælar og að þeir sem komi til Vestfjarða til að hjóla vilji hjóla á malarvegum. Víða á Vestfjörðum megi finna aflagða vegi sem henti hjólreiðafólki vel. Nú er verið að leggja nýjan veg um Dynjandisheiði og í Gufudalssveit þar sem malbik tekur við af malarvegum og Tyler segir að það væri best ef hjólreiðafólk gæti nýtt áfram gömlu vegina. Það sé þó lenskan að hindra för fólks um þessa aflögðu vegi með skurðum eða með því að fjarlægja brýr enda vilji enginn bera ábyrgð á vegunum þegar nýir taka við. – En þetta sé samtal sem sé mikilvægt að taka. 

Tyler tekur sem dæmi veginn um Óshlíð. Hann hefur verið aflagður síðan Bolungarvíkurgöng opnuðu árið 2006. Það væri mikils virði ef honum væri viðhaldið fyrir hjólreiðafólk, auðveld og falleg leið án bílaumferðar. 

Starfmenn nærast og sinna erindum: Tyler, Halldóru Björk Norðdahl og Lynnee Jacks – MYND: Josh Weinberg

Langar til að breiðari hópur hjóli um Vestfirði

Markmið fyrirtækis Tylers og Halldóru er að styðja við hjólreiðafólk sem kemur til Vestfjarða. „Núna er þetta blanda af fólki sem kemur til að ferðast á hjóli um Vestfirði og þau sem koma til að keppa,“ segir Tyler, en þau Halldóra vilja þróa ferðaþjónustu „Cycling Westfjords“ þannig að hún styðji enn betur við hjólreiðafólk á öllum getustigum. Þannig geti ferðamátinn orðið aðgengilegri fyrir fleiri en nú og að það sé hægt að laga hjólaferðir að getu og löngun fólks. „Við höldum áfram að þróa þetta en ég held að framtíð hjólreiða á Vestfjörðum felist í rafmagnshólaferðum,“ segir Tyler, þannig megi laða enn fleiri að hjólaferðamátanum. 


MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI: NÚ FÆRÐU FYRSTA MÁNUÐINN MEÐ 50% AFSLÆTTI, Á 1.325 KRÓNUR. SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA TILBOÐIÐ

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …