Samfélagsmiðlar

Strætó á leið inn í nútímann

Prófanir standa yfir á þráðlausum greiðslumáta í strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins, sem gera eiga viðskiptavinum fært að nota greiðslukort og snjalllausnir við að greiða fargjöld. Þetta á ekki síst eftir að auðvelda erlendum ferðamönnum að nota almenningssamgöngur í Reykjavík og nágrenni.

Strætó í Vogunum - MYND: ÓJ

Það styttist í að Strætó geti boðið farþegum upp á að greiða með bankakortum á snertilausan hátt í vögnum sínum. „Loksins!“ segja vafalaust margir óreglulegir notendur þjónustunnar, sem hafa pirrað sig á því hversu flókið og fráhrindandi greiðslukerfi Strætó er – að þurfa að hlaða niður Klapp-appinu (smáforriti), kaupa sérstaka passa með fyrirframgreiddum fargjöldum og tilgreindum gildistíma – nú eða borga með reiðufé og fá ekki greiddan afganginn til baka. Ekki verður sagt að þetta sé þróað fyrirkomulag eða einfalt, enda hafa stjórnendur Strætó margboðað úrbætur í þessum efnum. 

Markús Vilhjálmsson á fundi um ferðamanninn og almenningssamgöngur – MYND: ÓJ

En það er víst ekki einfalt mál að taka upp nýtt greiðslukerfi, hraðahindranir á þeirri leið eru sagðar margar. Fylgja verður sérstöku regluverki og ströngum kröfum, eins og Markús Vilhjálmsson, deildarstjóri sölu- og markaðsdeildar Strætó, fór yfir á fundi Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og Samtaka ferðaþjónustunnar um ferðamanninn og almenningssamgöngur, sem haldinn var í Sjóminjasafninu í Reykjavík í gær. 

Snertilaus greiðslumáti er handan við hornið – MYND: ÓJ

Af öryggisástæðum er það miklum vandkvæðum bundið að vera einfaldlega með posa í vögnunum. Snertilaus greiðslumáti er aðferðin og Markús segir þá lausn handan við hornið. Norska fyrirtækið Fara AS, sem þróar og setur upp nýja kerfið fyrir Strætó, hefur unnið að því með Visa og Mastercard að því að fá skanna í vögnunum vottaða og að tryggja að fylgt sé öllum öryggiskröfum.

Vottanir liggja nú fyrir og prófanir á skönnunum standa yfir. Tryggja verður að tekjur skili sér rétta leið. Snertilaus lausn felur í sér að aldrei er beðið um öryggisauðkenningu. Hægt verður að nota Apple Pay og Google Pay. Þau sem eru með Travel Card í Apple Pay geta greitt þó síminn sé straumlaus. 

Snertilaus greiðslumáti – MYND: FARA AS

Ferðamenn eiga vafalaust eftir að fagna því að þurfa ekki að kaupa sérstakan passa eða hlaða niður appi til að skutlast með strætó frá Lækjargötu að Laugardalslaug eða frá Hlemmi upp í Kringlu. Þau sem duglegust eru að nota vagnana kætast þá alveg sérstaklega vegna þess að komið verður á greiðsluþaki (fare capping) sem gerir í raun sólarhringspassa úrelta. Fólk sem ferðast hefur um London, Dublin og fleiri borgir þekkir þetta fyrirkomulag. Aðeins er greitt fyrir tiltekinn hámarksfjölda ferða á dag eða í viku, en ef viðkomandi vill nota vagnana meira þarf ekki að greiða fyrir fyrir það. Þetta mun gilda fyrir allar greiðsluleiðir.

Markús segir að hvarvetna sem þetta kerfi er við lýði sé það miðað við ferðafólk. Tryggður sé meiri fyrirsjáanleiki fyrir ferðamanninn, sem þurfi þá ekki að velta fyrir sér hvort hann eigi að kaupa stakt far eða sólarhringspassa. Borgað sé eftir notkun og þau sem fara yfir viðmiðið fá þá fríar ferðir. Ekki er vafi á því að margir eiga eftir að fagna þessu tímabæra framfaraskrefi hjá Strætó.

Greiðsluleiðir – MYND: FARA AS

FF7 settist niður eftir fundinn í Sjóminjasafninu með Markúsi Vilhjálmssyni til að ræða upplifun erlendra ferðamanna á Strætó og þær breytingar sem eru í farvatninu. Viðmótið sem mætir erlendum ferðamönnum sem vilja ferðast um höfuðborgarsvæðið á ódýran og vistvænan máta með almenningsvögnum mætti augljóslega vera betra. Ferðamaðurinn getur ekki stokkið án undirbúnings upp í vagn og borgað fyrir farið. Þetta leiðir til þess að strætóferðir um tveggja milljóna ferðamanna á ári verða færri en ella – og Strætó verður af tekjum. Hlutfall erlendrar kortaveltu í viðskiptum Strætó á síðasta ári var aðeins 16 prósent en 24 prósent 2019 – fyrir Covid-19. Þá eru hinsvegar ótaldar tekjur sem koma í gegnum sölu á Borgarkortinu (City Card).

Erlend kortavelta hjá Strætó var aðeins 16 prósent í fyrra – MYND: ÓJ

„Við erum meðvituð um að því hærri sem þröskuldarnir eru sem viðskiptavinur þarf að yfirstíga þeim mun meiri líkur eru á að hann snúi við í dyrunum, nenni ekki að halda áfram. Það að viðskiptavinurinn þurfi að sækja app, setja upp aðgang að greiðslukorti, eru mörg skref. Við erum að vinna að því að fækka þessum skrefum, gera þetta sem einfaldast. Skrefin sem stigin voru í átt að snertilausum greiðslum voru Klapp-tíur (10 fargjöld), sólarhrings- og 72 tíma-passar, sem hægt er að kaupa í búðum og hótelum. En Klapp-appið er dálítill þröskuldur. Fólk er þó sem betur fer að venjast því. Það verður stöðugt algengara að ef sækja eigi þjónustu þá þurfi fólk að hlaða niður appi. Snertilausar greiðslur eru lykill að því að greiða enn frekar fyrir aðgengi að þjónustu Strætó. Þá þarf fólk ekkert að hugsa málin fyrirfram.“

Ferðamaðurinn og strætó – MYND: ÓJ

Í mörgum borgum fer fólk í sjálfsala á brautar- eða strætóstöð og kaupir farmiða eða dagpassa. Þið viljið ekki fara þá leið?

„Sjálfssalarnir eru víðast á útleið. Búnaðurinn er dýr og rekstrarkostnaðurinn sem fylgir er mikill. Skemmdarverk eru algeng og viðhald er mikið.“

Þú lýstir því hérna áðan að Strætó væri að mörgu leyti í betri stöðu en aðrir við að taka upp þessa nýjustu tækni af því að fyrirtækið gæti stokkið yfir þróunina. Hefði ekki þvert á móti verið skynsamlegra og einfaldara að fylgja einmitt þróuninni? 

„Jú, að vissu leyti. Þá væri fólk vanara stafrænu kerfi þegar það er innleitt.“

Ég veit að það er ekki sanngjarnt að krossfesta þig fyrir gamlar syndir Strætó!

„Haha! Við erum þó ekki með þungt og dýrt kerfi sem við þurfum að fasa út heldur byrjum á auðu blaði. Í gömlum kerfum eru oft einhverjir gallar sem fyrirtæki neyðast til að færa áfram yfir í ný kerfi.“

Strætisvagnar á Miklubraut, meginæð samgangna – MYND: ÓJ

Þessi hægagangur hefur hinsvegar orðið til þess að fyrirtækið hefur orðið af miklum tekjum vegna þessmiðar hafa verið falsaðir, eins og þú lýstir á fundinum, eða að fólk forðast vagnana af því að það er flókið að greiða fyrir farið. Það blasir ekki við að Strætó hafi valið góða leið með því að fylgja ekki þróuninni, er það?

„Nei, þessu fylgja kostir og gallar. Það var mikið svindlað í kerfinu, sem er risastór galli. En það var líka mjög stór ákvörðun að fara í þessa vegferð. Þetta tekur langan tíma og er tiltölulega kostnaðarsamt af því að verið er að fara fram á breytta hegðun hjá viðskiptavinum. Það er erfitt. Fólk er búið að tileinka sér tilteknar venjur og það tekur tíma að breyta þeim.“

En nú eru flestir með kort í veskinu eða símanum. Viðskiptavinir hafa beðið í mjög mörg ár eftir að Strætó fylgdi öðrum í því að bjóða upp á greiða fyrir þjónustuna í vögnunum. Nú er það á leiðinni. En hvenær verður það hægt?

„Ég ætla ekki að gera þau mistök að gefa upp dagsetningu. Ég vonast til að það verði fljótlega. Enn er verið að laga hnökra í kerfinu.“

Ferðamenn vilja skoða borgina – MYND: ÓJ

Erlendir ferðamenn nota strætó en Markús Vilhjálmsson viðurkennir að óskandi væri að þeir gerðu meira af því. Þeir endursöluaðilar sem selja flest strætókortin eru í miðborginni. Sala korta á tilteknum hótelum hafi gengið þokkalega. Meðal þess sem ferðamenn nýta sér eru Borgarkortið (City Card), sem veitir aðgang að söfnum, sýningum, sundlaugum og strætóferðum í 24, 48, eða 72 klukkustundir. Gallinn er sá að farþeginn framvísar einungis þessu Borgarkorti í vögnununum en notkunin skráist ekki stafrænt. Markús segir að unnið sé að því í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarstofunnar að bæta Borgarkortinu í flokk þeirra korta sem hægt verður að greiða með snertilaust á nýju skönnunum. 

Ferðamenn kaupa Klapp-tíur, sólarhringspassa eða Borgarkort (City Pass) – MYND: ÓJ

„Við vitum ekki núna hvernig er verið að nota Borgarkortið. Fer handhafinn einu sinni í strætó eða 10 sinnum?“ segir Markús Vilhjálmsson.

Augljóslega eru mikil tækifæri fólgin í því að þjóna ferðafólki eins og íbúunum sjálfum betur með bættum almenningssamgöngum. Það er m.a. hlutverk Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins að kortleggja þarfir ferðamanna og möguleika til að beina fleirum þeirra víðar um höfuðborgarsvæðið, létta álagi af miðborginni. Þá hjálpar örugglega til ef ferðum strætisvagna verður fjölgað og einfaldara verður að taka sér far með þeim.

Það er vafalaust margt hægt að bæta í almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu jafnvel þó Borgarlínan komi ekki alveg á næstunni. 

Fundurinn á Sjóminjasafninu – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …

Rauðu og hvítu sporvagnarnir hafa verið meðal táknmynda Istanbúl, þjónað íbúum og ferðamönnum í meira en öld. Nú líður að því að þeim verði skipt út fyrir vagna sem búnir verða rafhlöðum. Vagnarnir hafa gengið eftir spori á Istiklal-breiðgötunni Evrópumegin í Istanbúl. Þeir voru fyrst teknir í notkun árið 1914, á dögum Ottómanveldisins. Ýmsar lagfæringar …

Skattaívilnanir til kaupa á nýjum rafbílum féllu niður um áramótin en frádrátturinn gat numið allt að 1,3 milljónum króna. Nú fæst 900 þúsund króna styrkur frá Orkusjóði í staðinn en sala á rafbílum hefur þó dregist umtalsvert saman það sem af er ári. Á þessum tíma í fyrra höfðu 3.211 nýir rafbílar verið skráðir nýir …

Seljendur hlutabréfa í almennu hlutafjárútboði Íslandshótela, stærsta hótelfyrirtæki landsins, hafa ákveðið að falla frá útboði og þar með skráningu félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Almennu hlutafjárútboði Íslandshótela lauk seinnipartinn í gær en í ljósi þessarar ákvörðunar munu allar áskriftir falla sjálfkrafa niður. Þetta kemur fram í tilkynningu. Vel á þriðja þúsund aðilar tóku þátt í …

MYND: ÓJ

Nýbirt Þróunarvísitala ferðageirans (Travel & Tourism Development Index) fyrir árið 2024, sem Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) tekur saman annað hvert ár, sýnir að Ísland fellur niður listann um 10 sæti frá 2019 - í 32. sæti, Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru töluvert ofar en Noregur er hins vegar ekki meðal þeirra 119 landa sem …

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar áformaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11 prósentum í 24 prósent um mitt árið 2018. Stjórnin sprakk hins vegar áður en málið fór í gegnum Alþingi. Samtök ferðaþjónustunnar börðust gegn þessari hækkun á sínum tíma og í morgun efndu samtökin til fundar í ljósi þess að „undanfarin misseri …

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði

Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands dagana 30. apríl til 7. maí 2024 eru 49 prósent aðspurðra því andvíg að leyfi Hvals hf. til veiða á langreyðum verði endurnýjað. Hins vegar eru 35 prósent aðspurðra því hlynnt. Beðið er ákvörðunar nýs matvælaráðherra. Meginniðurstöður könnunar Maskínu fyrir Náttútuverndarsamtök Íslands - MYND: Maskína Niðurstöður Matvælastofnunar í …