Samfélagsmiðlar

Úlfúð í heimi kolefniseininga

MYND: Pexels/Akilmazumder

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi. 

Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og deilur innan vinnustaða, hvað þá í stofnunum í fjarlægum löndum, en hér er hins vegar svolítið áhugavert mál á ferðinni. 

Ástæða úlfúðarinnar er sú að stjórn SBTi ákvað á dögunum að slakað yrði á skilyrðum fyrir því að fyrirtæki megi nota keyptar kolefniseiningar á hinum frjálsa markaði til þess að lækka vissar losunartölur í bókhaldi sínu. Hingað til hefur SBTi beitt ýtrustu skilyrðum í vottunum og krafist ríkra sönnunargagna fyrir því að slíkar kolefniseiningar, sem eru notaðar til að kolefnisjafna útblástur, í raun virki. 

Sérfræðingar innan SBTi og fulltrúar náttúruverndarsamtaka, og annarra sem láta sig málið varða, hafa brugðist ókvæða við þeirri ákvörðun að slaka skuli á þessum kröfum og telja — ekki að ástæðulausu — að stjórn SBTi hafi látið undan hörðum viðskiptalegum þrýstingi hagsmunaaðila. 

Á Bloomberg er að skilja, að heimur kolefniseininga sé mikill bakherbergisheimur, markaður leynifundum viðskiptamógúla. Hagsmunirnir sem liggja í kolefniseiningum eru miklir. Markaður með kolefniseiningar er talinn nema um 2 milljörðum Bandaríkjadala á heimsvísu núna, en spár gera ráð fyrir hröðum vexti. Um miðja öld er talið að mögulega verði markaðurinn kominn upp í 1,1 trilljón dali, eða um 150 þúsund milljarða króna.

Fyrr á þessu ári munu hafa hist í Clerkenwell-hverfinu í London, á nokkrum fundum, helsta áhrifafólkið á heimsvísu í kolefniseiningageiranum. Allt þetta fólk hefur mikla hagsmuni af því að hinn frjálsi markaður með kolefniseiningar vaxi vel og dafni. Umhverfissjóður Jeff Bezos átti frumkvæði að fundunum. 

Fljótt kom í ljós að markmið fundanna var ekki bara að ræða tæknilegar útfærslur á kolefniseiningamarkaðnum, heldur líka hvernig hægt yrði að stækka þennan markað. Þá munu böndin fljótt hafa borist að SBTi, segja heimildir. Það var á fundargestum að heyra, samkvæmt Bloomberg, að mikilvægast væri fyrir vöxt kolefniseiningamarkaðarins að SBTI myndi slaka á kröfum sínum til slíkra eininga. Ef ströngum skilyrðum SBTi væri ýtt úr vegi mætti sjá fyrir sér að markaðurinn margfaldaðist fyrir miðja öld, og næði áðurnefndri ofurstærð.

Ekki er hægt að segja beinlínis að hér takist á vond öfl og góð öfl, eins og í James Bond, þótt hugsanlega mætti skrifa slíkt handrit, miðað við upplegg fundanna og stærð hagsmunanna. Ef handritið ætti að vera sannleikanum samkvæmt hins vegar, er líklegt að myndin yrði meira eins og Woody Allen-mynd; fullt af fólki að tala, með alls konar skoðanir, og ljóst væri að margt væri í mörgu. 

Þessi atburðarás, og úlfúðin í kjölfarið, afhjúpar ekki bara þá hagsmuni sem fyrirtækjaheimurinn hefur af því að geta keypt kolefniseiningar til að jafna losun sína, heldur afhjúpar þetta líka hversu mjög umdeild þessi fræði eru öll og hversu mikil upplausn ríkir í heimi kolefniseininga. Virka þær eða virka þær ekki? Um þetta er deilt.

Nokkra athygli vakti þegar Guardian greindi frá því í yfirgripsmikilli fréttaskýringu fyrir nokkrum mánuðum að nærri öll kolefnisjöfnunarverkefni — og kolefniseiningarnar sem eru gefnar út á grundvelli þeirra — sem blaðið rannsakaði væru ekkert ennað en drasl, eða “junk”. 

Blaðið skoðaði, í samstarfi við sérfræðinga, þau 50 kolefnisjöfnunarverkefni, sem notið hafa mestra vinsælda á liðnum árum. Skógræktarverkefni eru þar umsvifamikil, en einnig alls konar verkefni í öflun hreinnar orku og úrgangsmeðhöndlun. Samkvæmt blaðinu var ekki hægt í 39 tilvikum að sýna fram á að minnkun í losun eða binding kolefnis væri varanleg, og í sumum tilvikum var jafnvel um aukna losun að ræða. Þá komst blaðið að því að átta verkefni væru grunsamleg, án þess þó að vera algjörlega út úr korti, og í tilviki þriggja verkefna vantaði meiri upplýsingar. 

Þeir aðilar sem bjóða upp á kolefniseiningar til sölu eru ekki augljóslega ekki sáttir við umræðu af þessu tagi. Einn slíkur aðili er Gold Standard, en Gold Standard selur fyrirtækjum og einstaklingum kolefniseiningar, og var stofnað af World Wildlife Fund fyrir um 20 árum, í því augnamiði að færa fólki fleiri verkfæri til þess að takast á við loftslagsvánna og losun gróðurhúsalofttegunda. 

Á heimasíðu Gold standard er að finna málsvörn, í tilefni af umræðunni, fyrir sölu kolefniseininga, og grunnspurningin sem þar er sett fram í fyrirsögn er efnislega þessi, færð örlítið í stílinn: Af hverju er sífellt verið að gagnrýna þá sem eru að reyna að bjarga málunum? 

Í greininni er bent á að kaup á kolefniseiningum séu til dæmis lykiltæki fyrir fyrirtæki sem oft hafa litla eða enga stjórn á þeim útblæstri sem starfsemi þeirra skapar. Útblásturinn getur átt sér stað alls staðar í aðfangakeðjunni, án þess að fyrirtækið — hugsanlega vegna smæðar sinnar — geti minnkað hann. Leið slíkra fyrirtækja, og raunar einstaklinga líka, er því að kaupa kolefniseiningar sem leiða til minnkunar á kolefni í andrúmslofti. Greinarhöfundur bendir á að Gold standard hafi með sölu á slíkum einingum styrkt um 2900 verkefni um allan heim sem hafi leitt til minnkunar á kolefni í andrúmslofti sem nemur 238 milljón tonnum, og að verkefnin séu studd bestu sérfræðiþekkingu og unnin í samstarfi við náttúruverndarsamtök.

Greinarhöfundur tekur þó undir það að kolefniseiningar séu ekki alltaf viðeigandi. Í tilviki orkufreks mengandi iðnaðar, til dæmis, eins og ál- eða stálframleiðslu, ættu fyrirtækin mun frekar að einbeita sér að því minnka losun sína með nýrri tækni eða nýjum aðferðum, fremur en að kaupa einingar. Kolefniseiningar eru ekki syndaaflausn fyrir stórmengandi fyrirtæki og einstaklinga, heldur aðeins eitt verkfærið af mörgum fyrir fólk, sem oft hefur ekki stjórn á sínum útblæstri, til þess að minnka gróðurhúsalofttegundir í andrúmslofti.

Alltaf er betra að minnka útblástur beint, ef það er hægt.  Grunsemdirnar um að stórfyrirtæki ætli sér hins vegar ekki að minnka útblástur, heldur bara kaupa einingar og jafnvel selja einingar í vafasömum verkefnum, eru ríkar, og í þeim grunsemdum virðist rótin að slæmum vinnumóral á skrifstofu STBi þessa dagana liggja. 

Er STBi að gefa fyrirtækjum þessa heims stórbrotið leyfi til grænþvottar? Eða er verið að slaka á skilyrðum, svo að mikilvægur þáttur í viðureigninni við loftslagsvána, fái dafnað betur? 

Við sjáum til. 

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …