Endurnýjunar er þörf

Slush í Helsinki dregur til sin frumkvöðla og viðskiptafólk hvaðanæva að úr heiminum á hverju ári - MYND: Háskólinn í Helsinki

Feneyjar eru borg sem glatað hefur valdastöðu sinni, hernaðarlegu mikilvægi og stórhlutverki í heimsverslun en hafa samt aldrei fengið fleiri gesti, milljónir og aftur milljónir erlendra ferðamanna sem staldra flestir stutt við.

Feneyjar, tékk! 

Kyrrðarstund í Feneyjum – MYND: ÓJ

Feneyjar eru undurfögur borg en hafa aldrei verið í meiri hættu að eyðast vegna átroðnings ferðamanna og afleiðinga loftslagsbreytinga, einhæfni og taumlausrar söluvæðingar. Aðgangur er greiddur við innganginn, flestir fara hratt á milli markverðustu punkta, taka myndir af gömlum byggingum og hverfa svo á brott án þess að gista.

Auðvitað er þetta ekki eins slæmt eins og þetta hljómar. Enn er stórkostleg upplifun að koma til Feneyja – allra helst að njóta kyrrðarinnar þar eftir að hraðskreiðu skyndigestirnir eru farnir annað. 

Túristarnir skilja eftir sig mikla peninga í Feneyjum – en líka rusl – MYND: ÓJ

Blaðamaðurinn John Thornhill, sem skrifar um tækni og nýsköpun í vinsælum dálki í Financial Times, sagði þar nýlega að fyrirtækið Evrópa þyrfti aldeilis að ganga í endurnýjun lífdaga til að eiga ekki á hættu að „verða að safni.“

Auðvitað er engin ástæða til að tala á niðrandi hátt um söfn, á þeim er beitt nýjustu tækni og mikið rannsóknar- og sköpunarstarf fer þar fram. Við vitum þó hvert blaðamaðurinn er að fara með þessari líkingu. Feneyjar lifa vissulega á fornri frægð, á túrisma – ekki á heimsverslun eins og á blómatíma hennar. Feneyjar eru í heild sinni sýningargluggi um glæsta fortíð – ekki frumkvöðlasetur á tækniöld. Ekki má þó gleyma því að Feneyjar hýsa líka framsækna list og borgin er vettvangur tvíæringsins fræga, alþjóðlegrar myndlistarsýningar.  

Til samanburðar við Feneyjar nefnir breski dálkahöfundurinn Helsinki, höfuðborg Finnlands, sem hann segir að standi raunar langt að baki borginni við Adríahafið hvað varðar fegurð og menningararf. Hins vegar sé Helsinki miklu betri fyrirmynd í Evrópu nútímans – hvað varðar getuna til að endurnýjast og öðlast hlutverk og tilgang í tæknivæddum heimi. 

Helsinki tók einmitt á móti 13 þúsund þátttakendum á frumkvöðla- og tæknisamkomuna Slush í vikunni og undirstrikaði þannig stöðu Finnlands sem miðstöðvar frumkvöðla. „Fáir staðir í Evrópu eru betri til að fá adrenalínsprautu,“ segir Thornhill og lofar Finna vegna þess hvernig þeim hefur tekist að skapa jafnvægi á milli kapítalisma og velferðarsamfélags. Finnland sé hamingjusamasta land heims. Þó hugi það ekki aðeins að hinum mjúku gildum heldur séu Finnar tilbúnir að verja sjálfstæði sitt af hörku og gengu þess vegna í NATO. 

En jafnvel þó margt jákvætt sé að gerast í Finnlandi í frumkvöðlastarfi á sviði tækni og vísinda þarf Evrópa sem heild að spýta í lófana til að geta keppt við Bandaríkin og Kína. Á áðurnefndri Slush-samkomu í Helsinki var þetta einmitt áréttað  og bent á þær risafjárhæðir sem bandarísku tæknirisarnir hefðu sett í þróun og innleiðingu gervigreindar. Stórátak þyrfti til að styrkja og efla hið nýja vaxtarhagkerfi Evrópu – ekki síst á sviðum þar sem þegar hafa farið fram stórmerkar rannsóknir, eins á gervigreind, grænni tækni, í lífvísindum, í kjarnorkuvísindum og skammtafræði. 

Þátttakendur í Slush í Helsinki voru helst á því að endurkoma Trump í Hvíta húsið og vaxandi þjóðernishyggja í Bandaríkjunum ætti að vera Evrópu og leitogum hennar hvatning til að fjárfesta meira í tækni framtíðarinnar. Helsinki verður ella hinar nýju Feneyjar, segir dálkahöfundur FT. Blaðamaður FF7 telur aftur á móti að engar líkur séu á því. Enginn staður geti nokkurn tímann jafnast á við Feneyjar. Vonandi heldur Helsinki þó sínu striki og mótar sína eigin framtíð en lætur sér vandræðin sem Feneyjar hafa ratað í verða sér víti til varnaðar.

Það á líka við um Reykjavík. 

Nýtt efni

Rekstur fríhafnarverslana á Keflavíkurflugvelli var í fyrra boðinn út til næstu átta ára og hefur Isavia tekið tilboði þýska fyrirtækisins Heinemann sem að óbreyttu tekur við starfseminni í mars 2025. Fríhafnarverslanirnar hafa hingað til verið reknar af Fríhöfninni ehf., dótturfélagi Isavia. Það fyrirtæki hagnaðist um 626 milljónir, fyrir skatt, í fyrra og 856 milljónir árið …

Feneyjar eru borg sem glatað hefur valdastöðu sinni, hernaðarlegu mikilvægi og stórhlutverki í heimsverslun en hafa samt aldrei fengið fleiri gesti, milljónir og aftur milljónir erlendra ferðamanna sem staldra flestir stutt við. Feneyjar, tékk!  Feneyjar eru undurfögur borg en hafa aldrei verið í meiri hættu að eyðast vegna átroðnings ferðamanna og afleiðinga loftslagsbreytinga, einhæfni og …

Nú er ár liðið frá því að Landsbankinn auglýsti 35 prósenta hlut sinn í Keahótelunum til sölu. Þann eignarhlut eignaðist bankinn í kjölfar þess að fyrrum móðurfélag hótelanna varð gjaldþrota í upphafi heimsfaraldursins. Kröfur í þrotabúið námu 3,8 milljörðum króna og meirihluti þeirra kom frá Landsbankanum. Engar eignir fundust í búinu en Keahótelin reka í dag …

Stöðnun í efnahagslífinu er megin viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar Japans undir forystu Shigeru Ishiba, formanns Frjálslynda lýðræðisflokksins, og stuðningsflokksins Komeito. Eftir mikil fundahöld og samningaviðræður kynntu fulltrúar stjórnarinnar nýja efnahagsáætlun sem ætlað er að hjálpa almenningi að takast á við verðhækkanir og um leið örva efnahagslífið. Þessi efnahagspakki kostar nærri 22 billjónir jena, eða sem svarar …

Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, undirritaði í gær samning við Íslandsstofu um markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna. Um er að ræða alþjóðlega neytendamarkaðssetningu fyrir íslenska ferðaþjónustu til að fylgja eftir áherslum í Ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun hennar til 2030, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2024. Samningurinn er einnig hluti af aðgerðum stjórnvalda …

Efnahagsaðstæður í heiminum eru snúnar af ýmsum ástæðum, dregið hefur úr umsvifum á mörgum sviðum og spurn eftir mörgum vörutegundum hefur minnkað. Þessar aðstæður hafa leitt til þess að mörg evrópsk fyrirtæki draga saman seglin. Ef látið er duga að skoða þróunina frá í ágúst sést að fjölmörg evrópsk stórfyrirtæki hafa sagt upp fólki til …

Leiguflug ehf., sem sérhæfir sig í útleigu flugvéla og þyrlna til einstaklinga, hópa, fyrirtækja og stofnana innanlands og utan, hefur lokið hlutafjáraukningu með þátttöku FnFI ehf. og Vesturflatar ehf. sem eignast 49 prósent hlut í félaginu. Stofnendur Leiguflugsins ehf. eru Ásgeir Örn Þorsteinsson og Einar Hermannson, sem báðir búa að áratugareynslu úr greininni gegnum störf sín hjá …

Menn velta nú fyrir sér áhrifum ákvörðunar Alþjóða sakamáladómstólsins (ICC) um að gefa út handtökuskipanir á hendur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, Yov Gallant, fyrrverandi varnarmálaráðherra, auk Ibrahim Al-Masri, leiðtoga Hamas, fyrir meinta stríðsglæpi. Evrópuríkin hlíta ákvörðunum og úrskurðum ICC þó að Bandaríkin geri það ekki og verða nú að horfast í augu við að handtökuskipanirnar …