Allir tapa ef Trump hækkar tollana

Hótanir Trump um að leggja nýja tolla á innflutning eru teknar alvarlega í herbúðum evrópska flugvélaframleiðandans Airbus, sem teiknað hefur upp allar mögulegar sviðsmyndir. Benoît de Saint-Exupéry, framkvæmdastjóri sölusviðs farþegaflugvéla hjá Airbus, segir að allir tapi á hærri tollum.

Benoît de Saint-Exupéry, framkvæmdastjóri sölusviðs farþegaflugvéla hjá Airbus - MYND: ÓJ

Í Finkenwerder í Hamborg á bökkum Saxelfar þekja verksmiðjur og flugvöllur Airbus-flugvélasmiðjanna stórt svæði. Í risastórum skemmum eru flugvélaskrokkar settir saman, innréttaðir og útbúnir öllum þeim flókna búnaði sem nútímaflugvél þarf á að halda. Starfsmenn eru um 18 þúsund. Þetta er fæðingarstaður A320-flugvélanna. Hingað sótti Icelandair glænýja A321LR-flugvél í vikunni. Komið er á viðskiptasamband sem sætir nokkrum tíðindum. Gamall viðskiptavinur Boeing ætlar að halla sér að Airbus á næstu árum – þó ekki hafi verið útilokað að áfram verði skipt við Boeing.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, og Benoît de Saint-Exupéry, yfirmaður sölumála hjá Airbus, handsala viðskiptin – MYND: ÓJ

Eftir undirritun samninga um afhendingu fyrstu flugvélarinnar, sem fékk nafnið Esja, gafst færi á að ræða m.a. við Benoît de Saint-Exupéry sem stýrir sölu farþegaflugvéla hjá Airbus. Hann hefur starfað hjá Airbus frá árinu 2002 og stýrði samningagerð fyrirtækisins áður en hann varð framkvæmdastjóri sölumála í ársbyrjun – á krefjandi tímum í flugvélaiðnaðinum, sem er að takast á við margs konar erfiðleika sem fylgdu Covid-19, eins og verðhækkanir og starfsmannaskort, sem leitt hafa til seinkana á afhendingu nýrra flugvéla. Heimsflugið er komið í fullan gang eftir Covid-19-faraldur og það krefst nýrra og sparneytinna flugvéla í stað gamalla og eyðslufrekra. Ég spyr Benoît de Saint-Exupéry fyrst hvort tafir á afhendingum séu enn vandamál.

„Það er ekkert leyndarmál að framleiðslan hjá okkur og raunar allur iðnaðurinn hefur þurft að glíma við margs konar hindranir og vandamál í aðfangakeðjum. Svona hefur þetta verið frá lokum heimsfaraldursins. Enn erum við að fást við ýmsar flækjur og eitthvað er um seinkanir á afhendingum.“

En eruð þið að komast í gegnum þetta?

„Já, en það er rétt að taka fram að þessar hindranir hverfa ekki ein af annarri frá degi til dags. Þetta er flókið vistkerfi með þúsundum birgja, sem margir eru að reyna að ná því framleiðslustigi sem þeir voru á fyrir faraldurinn. Það hefur reynst flóknara fyrir suma en ætlað var. Við tökumst á við þetta en það mun taka tíma að ná jafnvægi í framleiðslunni á ný.“

Skrokkar A321LR í smíðum – MYND: ÓJ

Samsetning á A321XLR-vélum komin að lokastigi – MYND: ÓJ

Framleiðslukeðjan sem Airbus styðst við er sannarlega löng. Í henni eru um 10 þúsund framleiðendur úti um allan heim og vandamálin tengjast mörgum þeirra – í mörgum löndum. Þessi vandamál eru af ólíkum toga og tengjast ólíkum fjárhagslegum eða heimspólitískum þáttum.

Hér í Þýskalandi er líka spenna á vinnumarkaði?

„Það er rétt – en ekki bara í Þýskalandi.“

Tæknimenn að störfum – MYNDIR: ÓJ

Svo bætist við pólitísk óvissa?

„Já, við erum í ótryggum og flóknum heimi. Við lærðum margt í heimsfaraldrinum um stjórn aðfangakeðjunnar og teljum okkur þess vegna miklu betur búin en við vorum 2020. Við höfum ýmis ráð og aðferðir til að stýra aðföngum, fylgjumst nánar með ganginum þar en áður og áttum okkur þar með betur á stöðunni á hverjum tíma.“

Það koma ótrúlega margir að því að smíða það sem til þarf og setja síðan saman eina flugvél eins og A321LR, sem Icelandair var að fá afhenta. Benoît de Saint-Exupéry segir að vissulega væri gott að geta einfaldað aðfangakeðjurnar en það sé ekki bara háð vilja Airbus, sem þó gjarnan vilji beita hvötum til að sameina krafta birgjanna. Þörf sé á samþjappaðri aðfangakeðju en stuðst sé við í dag.

Horft inn í og út um A321XLR á vinnslustigi- MYNDIR: ÓJ

Það eru ekki aðeins truflanir í gangverki iðnframleiðslu heimsins vegna afleiðinga heimsfaraldurs, starfsmannaskorts og verðþenslu. Margt á pólitíska heimssviðinu veldur spennu og óvissu. Stríðið í Úkraínu og ógnin sem stafar af Rússlandi Pútíns, framrás Kínverja á mörgum samkeppnismörkuðum – og svo er það Trump!

Má ég spyrja um áhrifin af Trump? Það ríkir mikil óvissa um hvernig tollastefna hans verður – hvort og hvernig hann t.d. beitir sér gagnvart innflutningi frá Evrópu. Óttist þið hjá Airbus að aðgerðir Trump-stjórnarinnar geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir ykkur?

„Við óttumst ekkert. Í öllum góðum rekstri er áhætta metin og hvaða óvissa er uppi. Það er eins með þetta. Við höfum áður gengið í gegnum þetta – í fyrra skiptið sem Trump tók við forsetaembættinu. Tollar voru lagðir á evrópskar vörur, einkum flugvélar. Nú verðum við að sjá hvort ný stjórn Trump vill endurtaka það. Hann hefur sagt nokkuð skýrt að hann hyggist leggja á tolla á evrópskar og kínverskar vörur. Við búum okkur undir þetta. Evrópa verður að bregðast við því – ef svo fer. Við fylgjumst með þessu en of snemmt er að segja til um hvað gerist. Það er ljóst að einhver röskun fylgir valdatöku nýrrar stjórnar Trump.“

Gæti Trump tekið ákvörðun um að verja hagsmuni Boeing sérstaklega á erfiðum tímum í rekstri þess fyrirtækis?

„Þínar getgátur eru jafn góðar og mínar. Við vitum ekki hvað hann hugsar. Hann var kjörinn vegna nokkurra einfaldra stefnumála. Eitt þeirra var verndarstefna. Því má búast við að Boeing-fyrirtækið njóti góðs af komu Trump-stjórnarinnar.“

Svo þið hjá Airbus séuð tilbúin fyrir ýmsar sviðsmyndir?

„Já, við erum það. En á endanum er það þannig að við vinnum með viðskiptavinum okkar í Bandaríkjunum að því að reyna að sannfæra stjórnvöld þar um að allir myndu tapa á því ef lagðir verða á nýir tollar á flugvélaframleiðslu og að Bandaríkin myndu ekki hagnast á því. Airbus er nefnilega líka bandarískt fyrirtæki. Við framleiðum í Bandaríkjunum og flytjum þangað flugvélar. Við erum með þúsundir starfsmanna í Bandaríkjunum. Við verslum þar fyrir andvirði milljarða dollara. Þess vegna segjum við að allir tapi á hærri tollum: viðskiptavinir okkar, Airbus – og á endanum bandarískir neytendur.“ 

Nýtt efni
Efsti hluti Kauphallar

Rekstrartekjur skráðu fasteignafélaganna fjögurra Eikar, Heima, Kaldalóns og Reita námu samtals um 25 milljörðum króna á fyrri helmingi árs 2025 samkvæmt nýbirtum uppgjörum. Það er 9,5% aukning frá sama tímabili í fyrra. Hlutfallslega var tekjuaukningin mest hjá Kaldalóni eða 23,7%. Reitir bættu við sig 833 milljónum króna í tekjur sem jafngildir 10,5% aukningu. Eik fasteignafélag …

Sérstakar opinberar álögur á súkkulaði, sælgæti og kaffi í Danmörku verða felldar niður á næstunni. Frá þessu greinir Troels Lund Poulsen, formaður Venstre og varnarmálaráðherra Danmerkur, nú í morgunsárið.  Kaffigjaldið sem sett var á árið 1930 sem eins konar skattur á munaðarvöru heyrir brátt sögunni til en hann nemur 6,39 dönskum krónum á hálft kíló …

Það er margt líkt með norrænu flugfélögunum Play og Norse Atlantic. Bæði fóru í loftið í heimsfaraldrinum og hafa síðan þá tapað tugum milljarða króna. Hjá báðum hefur áætlunarflug verið skorið niður síðustu mánuði og í staðinn lögð áhersla á að framleigja þoturnar, sem fengust á góðum kjörum í Covid, til annarra flugfélaga. Play og …

„Þetta er mikilvægur og stefnumarkandi samningur sem við styðjum heilshugar. Fjöldi geira, þar á meðal bílageirinn, lyfjageirinn, framleiðsla örgjörva og timburs, munu njóta góðs af honum,“ segir Maros Sefcovic, viðskiptastjóri ESB, við kynningu á samningnum fyrr í dag. 15 prósenta tollur á innflutning evrópskra bíla til Bandaríkjanna gildir afturvirkt frá 1. ágúst samkvæmt samkomulaginu. Tollurinn …

Í Noregi er DNB-bankinn sá stærsti og heildareignir hans eru um átta sinnum meiri en alls íslenska bankakerfisins. Kjerstin Braathen er bankastjóri DNB og í aðdraganda kosninga til norska þingsins biður hún norska stjórnmálamenn um að setja ekki sambandið við Evrópu í hættu. Vísar hún meðal annars til þess að Framfaraflokkurinn tali um að endursemja …

Ungverska flugfélagið Wizz Air hefur lengi verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli en hefur dregið mikið úr Íslandsflugi síðustu misseri. Nú í byrjun mánaðar hóf félagið á ný flug til Ísrael, eftir tveggja mánaða hlé, þrátt fyrir kröfur víða um viðskiptaþvinganir gagnvart landinu í ljósi þjóðernishreinsunar á Gaza og hernaðar á svæðinu. Stjórnendur Wizz Air ætla ekki að …

Það kom ráðamönnum víða um heim í opna skjöldu þegar lokaútgáfa af tollaáformum Donald Trump Bandaríkjaforseta var birt um síðustu mánaðamót. Hér á landi var búist við að Ísland yrði í neðsta þrepi og íslenskur útflutningur til Bandaríkjanna yrði þá tollaður um 10 prósent. Í aðdraganda ákvörðunarinnar hafði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra meðal annars bent …

Peningastefnunefnd Seðlabankans birti fyrir stuttu ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,50 prósentum eins og almennt var búist við. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun. Meginvextir hér á landi eru mun hærri en í nágrannalöndunum og á evrusvæðinu. Það sama á við um verðbólgu þótt þar sé munurinn minni eins og sjá má hér …