„Það sem við kynnum í dag er leiðarvísir að því hvernig bregðast má við þrýstingnum sem bændur innan ESB finna fyrir. Ætlunin er að landbúnaðurinn verði sjálfbærari, meira aðlaðandi og arðbærari atvinnugrein,“ sagði landbúnaðarstjóri Evrópusambandsins, Christophe Hansen frá Lúxemborg, sem kynnti stefnuna ásamt Raffaele Fitto, varaforseta Framkvæmdastjórnarinnar.

Eitthvað varð að gera. Mótmælaaðgerðir bænda hafa verið tíðar við margar valdastofnanir Evrópusambandsins og aðildarlanda á síðustu árum. Óánægja með landbúnaðarstefnuna hefur haft mikil áhrif á fylgi flokka í Evrópuþingkosningum, stuðlað að vaxandi þjóðerniskennd og ýtt undir hugmyndir um meiri einangrunarstefnu.
Nú vill ný forysta Evrópusambandsins að landbúnaðarstefna þess beinist meira að sjálfri matvælaframleiðslunni, einföldun regluverks og að því að bæta lífskjör í dreifbýli.
„Bændur okkar standa frammi fyrir stöðugt vaxandi erfiðleikum vegna samkeppni á heimsvísu og loftslagsbreytinga,“ er haft eftir Ursula von der Leyen, forseta Framkvæmdastjórnar ESB, í tilkynningu. Hún hafði lofað því að kynna nýja landbúnaðarstefnu á fyrstu 100 starfsdögum nýrrar stjórnar hennar. Niðurstaðan er stefna sem unnin er í samráði við samtök bænda og á að vísa veginn næstu 15 árin. Þar er að finna margar tillögur um hvernig auka megi aðdráttarafl búskapar sem atvinnugreinar fyrir yngri kynslóðir og hvernig styrkja megi samkeppnisstöðu greinarinnar.

Lagt er m.a. til að hert verði eftirlit með matvælum sem framleidd eru utan meginlands Evrópu, sérstaklega hvað varðar notkun eiturefna sem bönnuð eru innan ESB á grundvelli heilbrigðis- og umhverfissjónarmiða. En tekið er fram að metnaðarfullir staðlar ESB megi þó ekki vera samkeppnishindrandi.
Þá vill Framkvæmdastjórn ESB að tryggja að bændur verði ekki þvingaðir til að selja framleiðslu sína á lægra verði en sem nemur framleiðslukostnaði.
©NTB/FF7