„Allir Grænlendingar hafa skoðun á Air Greenland“

„Afar mikilvægt er að fjöldi ferðamanna sem ferðast um byggðir landsins sé hæfilegur á hverjum tíma. Þetta setur náttúruleg takmörk á fjölda ferðamanna á vinsælustu áfangastöðum landsins. Því er mikilvægt að lengja ferðamannatímabilið og dreifa ferðamönnunum enn meira,“ segir Inga Dóra Markussen, sjálfbærni- og samskiptastjóri Air Greenland.

Inga Dóra Markussen er framkvæmdastjóri sjálfbærnimála og samskiptastjóri Air Greenland - MYND: Air Greenland


Augu heimsins beinast æ meira að Grænlandi en stundum er athyglin óþægileg. Grænlendingar vilja ráða sinni framtíð sjálfir. En hvað sem líður pólitísku valdatafli þá er ljóst að Grænland vekur áhuga og forvitni fólks um allan heim. Eyjan stóra í norðri er komin á kortið hjá ferðamönnum, sem stöðugt leita nýrra upplifuna og ævintýra. Svo má ekki gleyma því að sjálfir Grænlendingar vilja auðvitað eins og aðrar þjóðir hafa tækifæri til að tengjast umheiminum. Þá er gott að eiga flugfélag.

Air Greenland er á meðal mikilvægustu fyrirtækja á Grænlandi og er það í eigu landsmanna. Félagið sinnir innanlandsflugi með flugvélum og þyrlum við aðstæður sem oft eru snúnar, tengir saman byggðir landsins – og tryggir sambandið við hinn stóra heim í flugi á milli Nuuk og Kaupmannahafnar á Airbus A330neo-vélinni Tuukkaq, sem félagið fékk afhenta 2022. 

Icelandair sinnir líka áætlunarflugi til Grænlands og fleiri eru á leiðinni. Áhugi umheimsins fer vaxandi.

Metnaður stjórnenda Air Greenland birtist m.a. í því hvernig framfylgt er eigendastefnu grænlensku landstjórnarinnar um að öll hlutafélög í þess eigu fylgi staðli Evrópusambandsins, tilskipun um skýrslugjöf fyrirtækja (CSRD) varðandi samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni.

Tuukkaq, A330neo-vél Air Greenland á flugvellinum í Nuuk

Því fylgir mikil vinna að uppfylla þessar kröfur um skýrslugerð varðandi sjálfbærni. Taka þarf saman gögn úr eigin rekstri og afla upplýsinga frá birgjum. Hjá Air Greenland er þetta á könnu Ingu Dóru Markússen, framkvæmdastjóra sjálfbærnimála og samskiptastjóra Air Greenland, sem situr í framkvæmdastjórn félagsins. Hún tók við þessu starfi 1. október 2024 en var áður almannatengslastjóri flugfélagsins. 

Þyrlur eru mikilvægar í samgöngum Grænlands

Inga Dóra var önnum kafin í þessari skýrslugerð um sjálfbærnimálin þegar FF7 hafði samband: 

„Mér hefur verið falið að koma ferlinu af stað og ég býst við að það taki nokkur ár áður en við getum uppfyllt kröfur staðalsins varðandi sjálfbærniskýrslu,“ segir Inga Dóra. Hún veit að fylgst er grannt með því sem hún og félagar hennar eru að gera.

„Þar sem Air Greenland annast rekstur mikilvægra innviða á Grænlandi er fólk með augun á félaginu – sérstaklega þegar mörgum flugferðum er aflýst. Það hefur gerst oft það sem af er árinu og þess vegna fer mikil vinna í að sinna samskiptum við viðskiptavini og almenning. Allir Grænlendingar hafa skoðun á Air Greenland. Ég segi oft að þegar við þurfum að aflýsa mörgum flugferðum vegna veðurs þá sé þetta annasamasti vinnustaður landsins, ekki síst í samskiptadeildinni.“

Andstæður í náttúrunni

Stórkostleg náttúra og merkileg menning er það sem ferðamenn vilja upplifa á Grænlandi. Verður erfitt að verja þessi gæði ef ferðamannastraumurinn þyngist mikið?

„Afar mikilvægt er að fjöldi ferðamanna sem ferðast um byggðir landsins sé hæfilegur á hverjum tíma. Nú vantar hótelrými, sérstaklega yfir sumarið. Þetta setur náttúruleg takmörk á fjölda ferðamanna á vinsælustu áfangastöðum landsins. Því er mikilvægt að lengja ferðamannatímabilið og dreifa ferðamönnunum enn meira,“ segir Inga Dóra. Þetta hljómar kunnuglega. Það er ekki síst á sjónum sem huga þarf að umferð. Allir vilja komast í bátsferð, sjá stórbrotið samspilið í náttúrunni. En ekki er gott ef of margir eru á ferð í einu.

Bátaferðir eru vinsælar, ekki síst til að fylgjast með hvölum

„Jafnvel þó að við búum á stærstu eyju heims safnast ferðamenn saman á nokkrum stöðum, þaðan sem þeir fara venjulega í skoðunarferðir með báti. Of margir bátar safnast þá stundum saman á tilteknum svæðum. Til lengri tíma litið skaðar það líffræðilegan fjölbreytileika. Því er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni.“

Ísland varð mjög vinsælt ferðamannaland á skömmum tíma og fær stundum umtal vegna troðningstúrisma. Horfa Grænlendingar til reynslu Íslendinga?

„Ferðaþjónustan á Grænlandi er mjög meðvituð um þróunina á Íslandi og í Færeyjum, þar sem mikilvægt er að auðvelda ferðamönnum að ferðast á eigin vegum. Á Grænlandi ferðast ferðamenn með flugi, fara frá einum stað til annars með flugi. Ég veit að Ferðamálastofa Grænlands vinnur náið með vestnorrænu löndunum. Færeyingar hafa fylgst með þróuninni á Íslandi og því er augljóst að við þurfum að læra líka af Færeyingum.“

Tuukkaq á flugvellinum í Nuuk

Hvernig hefur gengið á Nuuk-flugvelli eftir að völlurinn var lengdur og nýja flugstöðin opnuð?

„Veturinn hefur verið sveiflukenndur hingað til um allt land. Sérstaklega á Austur-Grænlandi og Suður-Grænlandi hefur verið óvenju hvassviðrasamt. Rekstrarfélag flugvallanna átti erfitt með að undirbúa flugbrautina í Nuuk í byrjun árs en mikill raki og frost urðu til þess að A330neo-vélin okkar snéri aftur til Kaupmannahafnar. En á flugstöðinni er allt að færast í eðlilegar skorður.“

Tuukkaq, A330neo-vél Air Greenland á flugvellinum í Nuuk

Inga Dóra segir að Air Greenland annist þá ferðamenn sem lenda í afbókunum. Þeim er boðið upp á mat og gistingu. Mikil vinna fylgi því að skipuleggja margar flugferðir og gera nýjar ferðaáætlanir. Á einum tímapunkti í haust hafi 3 þúsund manns verið innlyksa á rúmum vikutíma. Þetta sé ekki aðeins dýrt heldur líka krefjandi verkefni fyrir starfsfólk.

Grænlendingar hafa mótað nýja ferðamálastefnu og verið að bæta flugmannvirki í Nuuk, sem þegar hefur vakið áhuga erlendra flugfélaga. Hvernig myndir þú lýsa framtíðarmöguleikum grænlenskrar ferðaþjónustu?

„Þegar flugbrautin var tekin í notkun 28. nóvember 2024 með því að stóra A330neo-vélin lenti, þá stöðvaðist allt í Nuuk. Allir fylgdust með í beinni útsendingu í sjónvarpinu eða tóku á móti vélinni. Þetta var sögulegur viðburður. Nýtt áætlunarkerfi tók gildi. Nuuk-flugvöllur varð samgöngumiðstöð Grænlands sem leiðakerfi Air Greenland innanlands tengist. Kangerlussuaq-flugvöllur hefur verið miðstöð innanlandsflugs frá 1954, en við fljúgum þangað núna með Dash-8 flugvélunum okkar.

Með opnun nýja flugvallarins í Nuuk munu fleiri flugfélög fljúga til Grænlands og næststærsta flugfélag heims, United, hefur tilkynnt komu sína, ætlar að fljúga á milli Newark í New York og Nuuk, sem gæti fjölgað ferðamönnum og einhverjir þeirra viljað hugsanlega líka fara til Íslands. Þá hefur SAS tilkynnt að það muni fljúga á milli Kaupmannahafnar og Nuuk, en aðeins yfir sumarið. Þessar breytingar hafa verið mikilvægar fyrir reksturinn okkar innanlands, þar sem tekjur af honum hjálpa einnig til við að standa straum af innanlandsleiðakerfinu.

Væntanlega má búast við auknum áhuga á að koma til Grænlands og nú eru gerðir samningar milli Air Greenland og annarra flugfélaga um milliflugssamstarf á völdum áfangastöðum, sem þýðir að hægt er að ferðast á sambókuðum farseðli. Air Greenland vinnur að því að verða IOSA-vottað (IATA Operational Safety Audit) og mun þá geta gert sambókunarsamninga við önnur flugfélög. Þetta mun meðal annars þýða að Grænland verður sýnilegt sem áfangastaður í bókunarkerfum þessara flugfélaga allt árið um kring.“

Trump yngri kemur til Nuuk – til að kanna jarðveginn

Gæti áhugi Trumps á Grænlandi og umræðan um sjálfstæði landsins haft einhver áhrif á ferðamannastrauminn?

„Ég verð að segja já við þessu. Því hvort sem manni líkar betur eða verr það sem Bandaríkjaforseti segir, þá skapar það aukna vitund um Grænland og þar með líka áhuga. Það má ef til vill líkja þessu við það sem gerðist á Íslandi með eldgosinu í Eyjafallajökli árið 2010. Þá var Ísland á allra vörum í heimsfréttum.“

Inga Dóra segir að horfur séu góðar hjá Air Greenland á þessu ári.

„Ferðaskipuleggjendur eru stöðugt að þróa nýjar vörur og við hjá Air Greenland Group höfum opnað stafrænan söluvettvang, Arctic Excursions, sem gerir þeim kleift að selja það sem þeir hafa að bjóða beint til ferðamannsins.“

Sjálfbærnistjórinn við Nuuk-flugvöll

Það verður áhugavert að fylgjast með þróuninni á Grænlandi, hvernig þjóðin tekst á við þau krefjandi verkefni sem fylgja vaxandi ferðaþjónustu – og auðvitað enn frekar hvernig þessum góðu nágrönnum okkar farnast á leið sinni til sjálfstæðis á tímum heimspólitískrar óvissu.

Myndir: Inga Dóra Markussen

Nýtt efni
Efsti hluti Kauphallar

Rekstrartekjur skráðu fasteignafélaganna fjögurra Eikar, Heima, Kaldalóns og Reita námu samtals um 25 milljörðum króna á fyrri helmingi árs 2025 samkvæmt nýbirtum uppgjörum. Það er 9,5% aukning frá sama tímabili í fyrra. Hlutfallslega var tekjuaukningin mest hjá Kaldalóni eða 23,7%. Reitir bættu við sig 833 milljónum króna í tekjur sem jafngildir 10,5% aukningu. Eik fasteignafélag …

Sérstakar opinberar álögur á súkkulaði, sælgæti og kaffi í Danmörku verða felldar niður á næstunni. Frá þessu greinir Troels Lund Poulsen, formaður Venstre og varnarmálaráðherra Danmerkur, nú í morgunsárið.  Kaffigjaldið sem sett var á árið 1930 sem eins konar skattur á munaðarvöru heyrir brátt sögunni til en hann nemur 6,39 dönskum krónum á hálft kíló …

Það er margt líkt með norrænu flugfélögunum Play og Norse Atlantic. Bæði fóru í loftið í heimsfaraldrinum og hafa síðan þá tapað tugum milljarða króna. Hjá báðum hefur áætlunarflug verið skorið niður síðustu mánuði og í staðinn lögð áhersla á að framleigja þoturnar, sem fengust á góðum kjörum í Covid, til annarra flugfélaga. Play og …

„Þetta er mikilvægur og stefnumarkandi samningur sem við styðjum heilshugar. Fjöldi geira, þar á meðal bílageirinn, lyfjageirinn, framleiðsla örgjörva og timburs, munu njóta góðs af honum,“ segir Maros Sefcovic, viðskiptastjóri ESB, við kynningu á samningnum fyrr í dag. 15 prósenta tollur á innflutning evrópskra bíla til Bandaríkjanna gildir afturvirkt frá 1. ágúst samkvæmt samkomulaginu. Tollurinn …

Í Noregi er DNB-bankinn sá stærsti og heildareignir hans eru um átta sinnum meiri en alls íslenska bankakerfisins. Kjerstin Braathen er bankastjóri DNB og í aðdraganda kosninga til norska þingsins biður hún norska stjórnmálamenn um að setja ekki sambandið við Evrópu í hættu. Vísar hún meðal annars til þess að Framfaraflokkurinn tali um að endursemja …

Ungverska flugfélagið Wizz Air hefur lengi verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli en hefur dregið mikið úr Íslandsflugi síðustu misseri. Nú í byrjun mánaðar hóf félagið á ný flug til Ísrael, eftir tveggja mánaða hlé, þrátt fyrir kröfur víða um viðskiptaþvinganir gagnvart landinu í ljósi þjóðernishreinsunar á Gaza og hernaðar á svæðinu. Stjórnendur Wizz Air ætla ekki að …

Það kom ráðamönnum víða um heim í opna skjöldu þegar lokaútgáfa af tollaáformum Donald Trump Bandaríkjaforseta var birt um síðustu mánaðamót. Hér á landi var búist við að Ísland yrði í neðsta þrepi og íslenskur útflutningur til Bandaríkjanna yrði þá tollaður um 10 prósent. Í aðdraganda ákvörðunarinnar hafði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra meðal annars bent …

Peningastefnunefnd Seðlabankans birti fyrir stuttu ákvörðun sína um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 7,50 prósentum eins og almennt var búist við. Allir nefndarmenn studdu þessa ákvörðun. Meginvextir hér á landi eru mun hærri en í nágrannalöndunum og á evrusvæðinu. Það sama á við um verðbólgu þótt þar sé munurinn minni eins og sjá má hér …