Umferðin um Keflavíkurflugvöll jókst um nærri 13 prósent í nýliðnum apríl og voru áætlunarferðirnar til og frá flugvellinum um 4.200 og hafa þær aldrei áður verið svo margar í apríl samkvæmt ferðagögnum FF7. Þetta met skrifast að mestu á Icelandair því félagið fjölgaði ferðum sínum um 19 prósent í apríl samkvæmt talningu FF7.
Sú viðbót skrifast á tvennt. Í fyrsta lagi þá staðreynd að páskarnir voru í apríl að þessu sinni en undir lok mars í fyrra en eftirspurn eftir flugi eykst vanalega í kringum þessa frídaga. Í öðru lagi skrifast aukningin hjá Icelandair í apríl á fjölgun flugferða seinni hluta morguns og eins í kringum kvöldmatarleytið. Þessir brottfarartímar teljast til svokallaðs tengibanka númer 2 og þar er vísað til þess að farþegar sem ætla alla leið yfir Norður-Atlantshafið fái fleiri valkosti á flugi með Icelandair en þegar félagið takmarkar Ameríkuflugið við seinni hluta dags.
Til marks um þetta flugu þotur Icelandair 47 ferðir til Seattle í apríl en aðeins eina ferð á dag í apríl í fyrra. Ferðunum til Parísar, Amsterdam og Frankfurt var einnig fjölgað svo dæmi séu tekin. Einnig hóf flugfélagið áætlunarflug til bandarísku borgarinnar Nashville um miðjan mánuðinn.
Umsvif Play voru á pari við apríl í fyrra og erlendu félögin bættu litlu við á milli ára. Þar með jókst hlutdeild Icelandair á Keflavíkurflugvelli töluvert, úr 55 prósentum í 59 prósent.
Hlutdeild Play lækkaði úr 21 prósenti niður í 19 prósent. Vægi erlendu flugfélaganna var 22 prósent, tveimur prósentustigum lægra en í apríl í fyrra.
UPPFÆRT: Greinin var uppfærð með því að setja inn talningu FF7 á fjölda áætlunarferða á vegum Icelandair í apríl.
Með áskrift getur þú lesið greinina - Tilboð: 1 mánuður á 1.500 krónur
Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 1 mánuð á fullu verði (2.650 kr. á mánuði) en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: