Á Covid-árunum sáu sumir tækifæri í stofnum flugfélaga í ljósi þess að lokun landamæra hafði nærri því gert út af við flugrekstur víðast hvar í heiminum. Á þessum tíma buðu flugvélaleigur líka lægri leigu en áður og það munar um minna. Nýleg Airbus-þota, eins og þeir sem Play flýgur, er leigð út fyrir að lágmarki 55 til 65 milljónir á mánuði.
Þrjú norræn flugfélög fóru í loftið þegar heimsfaraldurinn var í rénun, Flyr og Norse í Noregi og hið íslenska Play. Það fyrstnefnda fór á hausinn strax í janúar 2023.
Hin tvö hafa verið rekin með miklu tapi allt frá stofnun og síðustu misseri hafa forsvarsmenn þeirra reynt að bæta reksturinn með því að leigja hluta af flotanum annað. Norse framleigir nú nokkrar þotur til indverska flugfélagsins Indigo og hið úkraínska Skyup hefur gert þriggja ára samning um leigu á fjórum af þeim tíu þotum sem Play er með.
Fyrsta þotan frá Play hefur verið skráð á Skyup og sú er í eigu flugvélaleigunnar AerCap. Þessi írska flugvélaleiga er sú stærsta í heimi og á stóran hluta af flugvélunum sem bæði Play og Norse nota í sinn rekstur. Munurinn er þó sá að Play leigir Airbus-mjóþotur frá AerCap en Norse er með Boeing-breiðþotur.
Stjórnendur norska flugfélagsins náðu samkomulagi við leigufyrirtækið um að skila þremur af 15 þotum fyrir lok leigutíma. Frá þessu var greint í fyrra en þá fengust ekki upplýsingar um hversu mikið AerCap borgaði fyrir að binda enda á leigusamninginn.
Sú upphæð birtist hins vegar í uppgjöri Norse sem birt var nú í morgun. Þar kemur fram að félagið hafi fengið 29 milljónir bandaríkjadollara fyrir skil á einni breiðþotu. Í íslenskum krónum talið jafngildir þetta 3,7 milljörðum. Sem fyrr segir er þetta greiðsla fyrir eina þotu en Norse á eftir að skila tveimur til viðbótar til AerCap.
Þessi innborgun frá flugvélaleigunni setur skiljanlega mark sitt á uppgjör Norse fyrir fyrsta fjórðung ársins. Þar er niðurstaðan tap, fyrir skatt, upp á 14,9 milljónir dollara eða 1,9 milljarða króna. Á sama tíma í fyrra var tapið fjórum sinnum hærra eða 62,8 milljónir dollara.
Ætla má að stjórnendur Play hafi frekar valið að skila ekki þotunum sínum heldur framleigja þær, með áhöfnum í gegnum nýtt maltneskt dótturfélag.
Með áskrift getur þú lesið greinina - Tilboð: 1 mánuður á 1.500 krónur
Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 1 mánuð á fullu verði (2.650 kr. á mánuði) en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: