Davíð Arnar Runólfsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri áfangastaða hjá Arctic Adventures. Hann tekur við stöðunni af Birtu Ísólfsdóttur sem er hætt störfum hjá fyrirtækinu.
Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins og í framkvæmdastjórn þess sitja sex framkvæmdastjórar auk Ásgeirs Baldurs sem er forstjóri.
Sem framkvæmdastjóri áfangastaða þá mun Davíð Arnar hafa umsjón með uppbyggingu og rekstri Fjaðrárgljúfurs, Óbyggðasetursins, Kersins og Raufarhólshellis sem Arctic Adventures rekur ásamt Kynnisferðum.
„Davíð Arnar hefur víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu. Hann hefur starfað sem leiðsögumaður, landvörður og rekstrarstjóri í ferðaþjónustu frá árinu 2016. Nú síðast starfaði Davíð sem framkvæmdastjóri Raufarhólshellis og mun hann halda því starfi áfram samhliða nýju starfi sínu hjá Artic Adventures,“ segir í tilkynningu.

Davíð starfaði áður hjá CCP og Montana State University, en hann lauk BA-námi í ljósmyndun þaðan. Davíð er einnig með meistaragráðu í ljósmyndafræðum frá háskólanum í Gautaborg.