Donald Trump forseti Bandaríkjanna boðaði í byrjun apríl 10 prósenta toll á innflutning frá Íslandi og tvöfalt hærri toll á aðildarlönd Evrópusambandsins. Nú hótar hann 30 prósenta tolli á ESB og hyggst hækka lægsta tollþrepið upp í „15 eða 20 prósent.“ Þessar hækkanir eiga að taka gildi þann 1. ágúst nk. nema samið verði um annað.
Spurður út í nýjasta útspil Trump segir Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku, að svo virðist sem hótunin um 30 prósenta toll á ESB hafi komið evrópskum leiðtogum í opna skjöldu.
„Markaðir hafa tekið þessari stigmögnun af mikilli ró,“ segir Hafsteinn og vísar til smávægilegra lækkana á hlutabréfavísitölum í Evrópu og Bandaríkjunum. Viðbrögðin séu því ekkert í líkingu við þær miklu lækkanir sem urðu í byrjun apríl þegar tollastríðið hófst.
„Það er í takti við TACO-kenninguna svokölluðu – „Trump Always Chickens Out“. Með öðrum orðum treysta fjárfestar því að bandarísk stjórnvöld falli frá verstu tollaáformunum þegar á hólminn er komið eftir ítrekaða frestun tolla á undanförnum mánuðum.
Þess vegna er nú eiginlega á mörkunum að það borgi sig að elta ólar við þessar bréfaskriftir bandarískra stjórnvalda. Líklegast er hótuninni einkum ætlað að styrkja samningsstöðu Bandaríkjanna á lokaspretti viðræðnanna og tímamörkunum í byrjun ágúst ætlað að reka á eftir niðurstöðum,“ segir Hafsteinn.
Að standa við stóru orðin
Aðalhagfræðingur Kviku bendir þó á að þessi stigmögnun í tollastríðinu geti verið hættuspil.
„Hættan eykst á því að bandarískum stjórnvöldum finnist þau verða að standa við hótanir sínar eða viðræður fari út um þúfur en ESB hefur undirbúið gagnaðgerðir og hefndartolla. Mér finnst viðbrögðin á mörkuðum því einkennast af fullmikilli værukærð,“ útskýrir aðalhagfræðingur Kviku sem telur þó ólíklegt að enn frekari hækkun tolla myndi leiða til kreppu eða alvarlegs samdráttar í Evrópu. Sérstaklega í ljósi þess að Evrópusambandið er í óðaönn við að ráðast í aukna opinbera fjárfestingu í varnarmálum og innviðum og efla viðskipti innan sambandsins.
„Hærri tollar yrðu dragbítur á evrópskan útflutning og þar með hagvöxt, en 30 prósenta tollar eru enn hærri en alvarlegasta sviðsmynd Evrópska seðlabankans gerði ráð fyrir í hagspá sinni í júní. Líklega myndi árlegur hagvöxtur á næstu árum verða allt að hálfu prósenti minni en ella, en minni efnahagsumsvif myndu jafnframt draga úr verðbólguþrýstingi í álfunni.“
Ábyrgðarlaust að fagna tollabilinu
Sem fyrr segir er Ísland enn í lægsta tollaþrepinu hjá Trump en það hljóðar upp á 10 prósenta almennan toll. Hafsteinn segir að ef það haldist óbreytt á sama tíma og enn hærri tollar yrðu lagðir á innflutning frá ESB þá myndi hlutfallslega samkeppnisstaða íslenskra útflytjenda styrkjast.
„Ég held nú samt að það væri ábyrgðarlaust að fagna því eitthvað sérstaklega. Hættan er sú að nettóáhrif hærri tolla á Evrópu yrðu neikvæð fyrir íslenskt hagkerfi, enda er líklegt að hækkun tolla leiði af sér bakslag í eftirspurn og milliríkjaverslun á heimsvísu – og fyrir hagkerfi sem stendur undir 40% landsframleiðslu sinnar með útflutningi eru það aldrei góðar fréttir.
Við höfum þegar séð vöruútflutning linast aðeins á öðrum ársfjórðungi og þótt ferðaþjónustan hafi enn sem komið er staðið þessar vendingar ótrúlega vel af sér þá felur tollaóvissan í sér aukna áhættu fyrir íslenskan útflutning,“ segir Hafsteinn um stöðu Íslands á sviði heimsviðskipta miðað við nýjustu yfirlýsingar Hvíta hússins.
Með áskrift getur þú lesið greinina - Sumartilboð: 3 mánaða áskrift með 50% afslætti
Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 3 mánuði á fullu verði (2.650 kr. á mánuði) en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: