Það var Boeing Max 8-þota á vegum Icelandair sem skemmdist þegar landgangi var ekið á flugvél á Keflavíkurflugvelli á laugardagsmorgun. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair liggur ekki enn ljóst fyrir hversu langan tíma viðgerð tekur en flugfélagið er í samskiptum við flugvélaframleiðandann, Boeing, vegna málsins.
Icelandair nýtir aðra flugvél til að sinna verkefnum Max-þotunnar meðan viðgerð stendur yfir.
Airbus-þota á vegum Play varð einnig fyrir skemmdum í síðustu viku eftir að hafa flogið í gegnum haglél skömmu eftir flugtak frá pólsku borginni Rzeszow. Sú vél er í útleigu hjá flugfélaginu Skyup og sumaráætlun Play byggir því ekki á afköstum þeirrar vélar. Ekki hafa fengist upplýsingar frá íslenska flugfélaginu um hversu langan tíma viðgerð tekur en sambærileg viðgerð hjá austurrísku flugfélagi í fyrra tók hálfan mánuð.
Skyup leigir ekki aðeins þotur og áhafnir frá Play heldur líka litháenska leiguflugfélaginu Getjet. Flugvél á vegum þess hefur meðal annars fyllt í skarð Play-þotunnar síðustu daga.