Hver hlutur í Play kostar í dag 62 aura og hefur gengi bréfanna lækkað um þriðjung frá því að Einar Örn Ólafsson forstjóri flugfélagsins og Elías Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play, féllu frá yfirtökutilboði sínu þann 8. júlí sl. Þessir tveir eru jafnframt meðal stærstu hluthafa flugfélagsins.
Í stað yfirtöku verður efnt til skuldabréfaútgáfu upp á 2,4 milljarða króna og í tilkynningu frá Play sagði að „stærstu eigendur félagsins og nýir íslenskir fjárfestar“ myndu koma að þessari innspýtingu.
Play hefur fram til dagsins í dag safnað 17 milljörðum króna í hlutafé en gengi hlutabréfa í félaginu hefur lækkað um 97 prósent frá því að það var skráð á markað í júlí 2021.
Meðal 20 stærstu hluthafa flugfélagsins eru fjórir lífeyrissjóðir: Birta, Lífsverk, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Festa.
Þeir tveir fyrrnefndu hafa verið á lista yfir stærstu hluthafanna allt frá því að Play fór í loftið fyrir fjórum árum síðan og lengstum hefur Birta verið stærsti einstaki hluthafinn. Í dag á Birta 10,35 prósent og mun sjóðurinn taka þátt í skuldabréfaútgáfunni sem þessum eignarhlut nemur samkvæmt svörum frá Birtu.
Sem fyrr segir nemur skuldabréfaútgáfan um 2,4 milljörðum króna.
Lífsverk á 2,56 prósenta hlut í Play en ekki fást svör þaðan um hvort sjóðurinn taki þátt í skuldabréfaútgáfunni. Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri sjóðsins, vísar í svari sínu til fréttatilkynningar Play um skuldabréfaútgáfuna þar sem segir að frekari upplýsingar verði veittar ef ástæða er til.
Forsvarsmenn Festu og Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja staðfesta í svari til FF7 að sjóðirnir tveir ætli ekki að kaupa skuldabréf í Play.
Líkt og áður hefur verið farið yfir þá eiga hluthafar Play eftir að greiða atkvæði um útgáfu skuldabréfa en miðað við þá skilmála sem kynntir hafa verið þá munu eigendur skuldabréfanna eiga þess kost að fá meirihluta í flugfélaginu eftir tvö ár.
Með áskrift getur þú lesið greinina - Sumartilboð: 3 mánaða áskrift með 50% afslætti
Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 3 mánuði á fullu verði (2.650 kr. á mánuði) en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: