Það var fyrir sjö vikum síðan sem Play tilkynnti að búið væri að tryggja „bindandi skilyrt áskriftarloforð“ um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi upp á 2,4 milljarða króna eða 20 milljónir dollara. Fram kom í tilkynningu að meðal þeirra sem ætluðu að taka þátt í þessari fjármögnun væru „stærstu eigendur félagsins og nýir íslenskir fjárfestar.“
Skuldabréfaútgáfan kom í stað yfirtökutilboðs sem þeir Einar Örn Ólafsson forstjóri Play og Elías Skúli Skúlason varaformaður stjórnar flugfélagsins höfðu gert í sumarbyrjun.
Hluthafar Play gáfu svo samþykki sitt fyrir skuldabréfaútgáfunni þann 15. ágúst sl. og þá hafði upphæð útgáfunnar hækkað um 450 milljónir króna líkt og FF7 fór yfir.
Nú í kvöld greindi Play frá því að útgáfu breytanlegs skuldabréfs til tveggja ára að fjárhæð um 23 milljónir Bandaríkjadollara, sem samsvarar rúmlega 2.800 milljónum króna, væri lokið.
Í tilkynningu segir að hærri upphæð en upphaflega stóð til að gefa út skrifist á umframeftirspurn eftir þátttöku í skuldabréfaútgáfunni.
„Við erum afar ánægð með hversu sterk viðbrögð fjárfesta hafa verið. Þetta er skýr staðfesting á því að markaðurinn hefur trú á Play, framtíðarsýn okkar og þeirri stefnu sem við höfum markað. Með þessum áfanga stöndum við betur undirbúin en nokkru sinni fyrr til að dafna sem öflugt alþjóðlegt flugfélag með sterkar íslenskar rætur. Við stefnum að miklum viðsnúningi í rekstri og hlökkum til að kynna nýja og spennandi áfangastaði fyrir Íslendingum á næstunni,“ segir Einar Örn Ólafsson forstjóri Play í tilkynningu.
Þar er rakið hvernig Play vinnur nú að breyttum áherslum í rekstri en félagið hefur tapað um 30 milljörðum króna frá því að það hóf áætlunarflug sumarið 2021.
Nú er ætlunin að nota fjórar þotur í flug til og frá Keflavíkurflugvelli en framleigja sex aðrar til annarra flugfélaga. Fjórar þotur eru nú þegar komnar í leiguverkefni og flugáætlun Play á Keflavíkurflugvelli hefur verið skorin niður samhliða því.
„Í takt við nýja áherslu verður flugi til Norður-Ameríku hætt í lok október 2025 og borgaráfangastöðum í Norður-Evrópu fækkað. Þá verður íslenska flugrekstrarleyfinu skilað og flogið undir maltnesku flugrekstrarleyfi,“ segir í tilkynningu.
Play hefur hingað til fengið 17 milljarða króna í tengslum við hlutafjárútboð og stærstu hluthafar þess eru lífeyrissjóðurinn Birta, Íslandssjóðir og fjárfestingafélagið Stoðir. Einar Örn Ólafsson og Elías Skúli Skúlason eru einnig meðal stærstu hluthafa.