Fengu 450 milljónir til viðbótar frá fjárfestum

Að lokinni skuldabréfaútgáfu upp á rúmlega 2,8 milljarða króna er Play betur undirbúið en „nokkru sinni fyrr til að dafna sem öflugt alþjóðlegt flugfélag með sterkar íslenskar rætur," segir forstjóri þess og einn stærsti hluthafi.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play og einn stærsti hluthafi flugfélagsins. MYND: PLAY

Það var fyrir sjö vikum síðan sem Play tilkynnti að búið væri að tryggja „bindandi skilyrt áskriftarloforð“ um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi upp á 2,4 milljarða króna eða 20 milljónir dollara. Fram kom í tilkynningu að meðal þeirra sem ætluðu að taka þátt í þessari fjármögnun væru „stærstu eigendur félagsins og nýir íslenskir fjárfestar.“

Skuldabréfaútgáfan kom í stað yfirtökutilboðs sem þeir Einar Örn Ólafsson forstjóri Play og Elías Skúli Skúlason varaformaður stjórnar flugfélagsins höfðu gert í sumarbyrjun.

Hluthafar Play gáfu svo samþykki sitt fyrir skuldabréfaútgáfunni þann 15. ágúst sl. og þá hafði upphæð útgáfunnar hækkað um 450 milljónir króna líkt og FF7 fór yfir

Nú í kvöld greindi Play frá því að útgáfu breytanlegs skuldabréfs til tveggja ára að fjárhæð um 23 milljónir Bandaríkjadollara, sem samsvarar rúmlega 2.800 milljónum króna, væri lokið.

Í tilkynningu segir að hærri upphæð en upphaflega stóð til að gefa út skrifist á umframeftirspurn eftir þátttöku í skuldabréfaútgáfunni. 

„Við erum afar ánægð með hversu sterk viðbrögð fjárfesta hafa verið. Þetta er skýr staðfesting á því að markaðurinn hefur trú á Play, framtíðarsýn okkar og þeirri stefnu sem við höfum markað. Með þessum áfanga stöndum við betur undirbúin en nokkru sinni fyrr til að dafna sem öflugt alþjóðlegt flugfélag með sterkar íslenskar rætur. Við stefnum að miklum viðsnúningi í rekstri og hlökkum til að kynna nýja og spennandi áfangastaði fyrir Íslendingum á næstunni,“ segir Einar Örn Ólafsson forstjóri Play í tilkynningu.

Þar er rakið hvernig Play vinnur nú að breyttum áherslum í rekstri en félagið hefur tapað um 30 milljörðum króna frá því að það hóf áætlunarflug sumarið 2021.

Nú er ætlunin að nota fjórar þotur í flug til og frá Keflavíkurflugvelli en framleigja sex aðrar til annarra flugfélaga. Fjórar þotur eru nú þegar komnar í leiguverkefni og flugáætlun Play á Keflavíkurflugvelli hefur verið skorin niður samhliða því. 

„Í takt við nýja áherslu verður flugi til Norður-Ameríku hætt í lok október 2025 og borgaráfangastöðum í Norður-Evrópu fækkað. Þá verður íslenska flugrekstrarleyfinu skilað og flogið undir maltnesku flugrekstrarleyfi,“ segir í tilkynningu.

Play hefur hingað til fengið 17 milljarða króna í tengslum við hlutafjárútboð og stærstu hluthafar þess eru lífeyrissjóðurinn Birta, Íslandssjóðir og fjárfestingafélagið Stoðir. Einar Örn Ólafsson og Elías Skúli Skúlason eru einnig meðal stærstu hluthafa.

Nýtt efni
Play

Hluti af starfsfólki Play hefur nú fyrir mánaðamót fengið uppsagnarbréf. Aðspurður um stöðuna þá bendir Birgir Olgeirsson talsmaður flugfélagsins á að það hafi verið gefið út að frá og með komandi vetri verði félagið með fjórar þotur á Íslandi og sex verði í leiguverkefnum í Evrópu. „Við þessa breytingu mun fjöldi starfa í áhöfnum á …

Í áratugi hefur TV4 verið vinsælasta einkarekna sjónvarpsstöðin í Svíþjóð en stöðin hefur notað sama dreifikerfi og ríkisrásirnar og verið í opinni dagskrá. Reksturinn byggði því lengst af á auglýsingasölu en með tilkomu netsins náði fyrirtækið inn áskriftartekjum í gegnum app sem kallast TV4 Play. Útsendingar frá vinsælum íþróttaviðburðum hafa til að mynda verið takmarkaðar …

Það voru rúmlega helmingi fleiri Svisslendingar sem flugu héðan í júlí síðastliðnum samkvæmt mati rannsóknarfyrirtækisins Maskínu sem er með það verkefni frá Ferðamálastofu að flokka brottfararfarþega á Keflavíkurflugvelli eftir þjóðernum. Fulltrúar Maskínu standa í 130 klukkustundir í mánuði við öryggishliðin á Keflavíkurflugvelli og biðja farþega um að sýna vegabréf svo hægt sé skrá þjóðerni þeirra. …

Verulega hefur dregið úr væntingum danskra ráðamanna til afkomu Novo Nordisk og hefur hagvaxtarspá stjórnvalda fyrir árið 2025 verið lækkuð úr 3 prósentum niður í 1,4 prósent. Þrátt fyrir lækkunina er búist við auknum kaupmætti og minni verðbólgu að því fremur í frétt TV2. Danska ríkisstjórnin kynnir fjárlagafrumvarp sitt fyrir árið 2026 nú í morgunsárið. …

Þó að ársverðbólga hafi lækkað nú í ágúst niður í 3,8 prósent, þvert á spár, þá er verðbólgudraugurinn ekki unninn samkvæmt mati greiningadeildar Arion banka á stöðunni eftir birtingu verðlagsmælinga Hagstofunnar nú í morgun. „Áfram er útlit fyrir að draugurinn klifri yfir vikmarkamúrinn (4%) á næstu mánuðum og dansi á honum fram á næsta ár. …

Ársverðbólga mælist nú 3,8 prósent sem er lækkun um 0,2 prósentustig frá mælingunni í júlí. Greinendur áttu frekar von á hækkun á milli mánaða. Sem fyrr skrifast verðbólgan að mestu á húsnæðisliðinn sem hækkað hefur um 6,4 prósent síðastliðna 12 mánuði. Ef þessi liður er tekinn út fyrir sviga þá mælist ársverðbólga 2,8 prósent að …

Yfir vetrarmánuðina eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi og vanalega eru þeir fleiri hér í febrúar en samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá. Vetrarferðir Breta eru því mikilvægur hluti þess að halda íslenskri ferðaþjónustu gangandi allt árið um kring. Breskum túristum hér á landi fækkaði síðastliðinn vetur samkvæmt mati Ferðamálastofu og tölur flugmálayfirvalda í Bretlandi …

Tekjur tæknifyrirtækisins Nvidia námu 46,7 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi sem er mikið stökk frá 30 milljarða veltunni á sama tímabili í fyrra. Greinendur áttu reyndar von á verulegri hækkun því spár þeirra gerðu að jafnaði ráð fyrir tekjum upp á 46,2 milljarða dala. Spá fyrirtækisins sjálfs hljóðaði upp á 45 milljarða dala í tekjur. …