Lestur á Morgunblaðið heldur áfram að dragast saman og nú er meðalfjöldi lesenda á hvert tölublað 47.400 samkvæmt könnunum Gallup. Hefur lesturinn á eina dagblað landsins þá dregist saman um fimm prósent frá því í mars sl. en það var í apríl sem Morgunblaðið hleypti af stokkunum sérstöku appi til að auðvelda áskrifendum að nálgast efnið. Það hefur þó ekki aukið lesturinn miðað við kannanir Gallup.
Lestur á vikublöðin tvö, Heimildina og Viðskiptablaðið, var hins vegar á uppleið í júlí. Í mánuðinum lásu að jafnaði 28.900 einstaklingar hvert tölublað Heimildarinnar sem er viðbót um þrjú prósent frá því í júní.
Meðalfjöldi þeirra sem lesa hvert eintak af Viðskiptablaðinu var 18.300 í júlí sem er aukning um nærri 6 prósent. Mælingar Gallup ná bæði til þeirra sem lesa útprentuð eintök og eins á stafrænu formi.