Stjórn laxeldisfyrirtækisins Kaldvík hefur komist að samkomulagi við forstjóra fyrirtækisins, Roy-Tore Rikardsen, að hann láti af störfum nú þegar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Vidar Aspehaug tekur við sem forstjóri tímabundið þar til nýr eftirmaður Rikardsen verður ráðinn en hann verður fyrirtækinu innan handar fram í febrúar á næsta ári. Aspehaug hefur verið hluti af stjórnendateyminu síðastliðin þrjú ár.
Kaldvík lauk í sumarbyrjun 40 milljarða króna endurfjármögnun, meðal annars með þátttöku Arion banka og Landsbankans.
Kaldvík hét áður Fiskeldi Austfjarða og var skráð á hlutabréfamarkað í fyrra, bæði hér á landi og í Noregi.
Matvælastofnun kærði Kaldvík í lok síðasta vetrar vegna mögulegra brota á lögum um velferð dýra með því að sleppa seiðum í allt of kaldan sjó í nóvember og desember. Yfir 700 þúsund seiði drápust.