Í áratugi hefur TV4 verið vinsælasta einkarekna sjónvarpsstöðin í Svíþjóð en stöðin hefur notað sama dreifikerfi og ríkisrásirnar og verið í opinni dagskrá. Reksturinn byggði því lengst af á auglýsingasölu en með tilkomu netsins náði fyrirtækið inn áskriftartekjum í gegnum app sem kallast TV4 Play.
Útsendingar frá vinsælum íþróttaviðburðum hafa til að mynda verið takmarkaðar við þessa netþjónustu.
Nú verður öll dagskrá TV4 flutt á netið og útsendingum í gegnum gamla dreifikerfið hætt. Frá þessu var greint í gær og tekur breytingin gildi um áramótin næstu. Dagar TV4 sem frímiðils eru því taldir en segja má að stjórnendur Sýnar hafi farið aðra leið. Þar á bæ var ákveðið að hætta að rukka fyrir aðgang að línulegri dagskrá Sýnar, áður Stöð 2, fyrr í sumar en áður hafði fyrirtækið gefist upp á að rukka fyrir sjónvarpsfréttir stöðvarinnar.
Selt með miklu tapi
Það var í byrjun þessa árs sem norska fjölmiðlafyrirtækið Schibsted keypti TV4 en fyrirtækið hefur lengi verið stórtækt á sænska fjölmiðlamarkaðnum og á til að mynda tvo af stærstu fréttamiðlum Svíþjóðar, Svenska dagbladet og Aftonbladet. Seljandinn var fjarskiptafyrirtækið Telia, fyrrum ríkissímafyrirtækið, sem keypti TV4 árið 2018 af fjölmiðlafyrirtækinu Bonnier fyrir 10 milljarða sænskra króna. Telia ávaxtaði hins vegar ekki fé sitt vel því aðeins fengust 6,5 milljarðar fyrir Telia við söluna til Schibsted.
Fyrrum forstjóri Telia hafði áður lýst því yfir að fjölmiðlarekstur ætti illa heima inni í fyrirtæki eins og Telia sem skráð væri á hlutabréfamarkað. Í því samhengi má geta að bæði Sýn og Síminn byggja sinn rekstur að töluverðu leyti á fjölmiðlum en þessi bæði eru skráð í Kauphöllina.
Skilja ríkið eftir með reikninginn
Ákvörðun TV4 um að hætta dreifingu í gegnum gamla dreifikerfið hefur sett pressu á sænsk stjórnvöld því stjórnendur ríkismiðlanna hafa gefið út í dag að þeir geti ekki einir staða straum af rekstri dreifikerfisins. Það er hins vegar ómögulegt að leggja það niður því ef netið klikkar þá er engin önnur leið til að koma fréttum til fólks en í gegnum loftnet.
Með áskrift getur þú lesið greinina - Tilboð: 2 mánuðir fyrir 1
Smelltu hér til að bóka tilboðið. Áskriftin endurnýjast eftir 2 mánuði á fullu verði (2.650 kr.) en alltaf er hægt að segja upp áður en nýtt tímabil hefst. Tilboðið gildir eingöngu fyrir einstaklinga sem ekki hafa verið með áskrift áður - beiðnir um fyrirtækjaaðgang má senda til [email protected]
Smelltu hér til að kanna aðrar áskriftarleiðir.
Ef þú ert áskrifandi þá getur þú skráð þig inn hér: