Hvað varð til þess að þú fórst út í lífræna kartöfluræktun og hvernig er að koma undir sig fótunum sem lífrænn ræktandi á Íslandi?
„Ég hef alla tíð verið ræktandi dýr og plöntur en vissulega á mun minni skala. Ég hef brennandi áhuga á náttúrunni og vil vinna með henni, ekki gegn henni. Kartöflur urðu fyrir valinu einfaldlega vegna þess að þetta er mitt uppáhalds grænmeti og það grænmeti sem ég borða mest af. Hún er líka frábær jurt til að rækta hér á Íslandi því hún hentar okkar loftslagi mjög vel.

Ég vel lífrænt vegna þess að hefðbundinn landbúnaður eins og hann er stundaður víðast hvar í heiminum í dag er ekki sjálfbær. Auðvitað væri réttara að tala um lífræna ræktun sem hefðbundna, því þannig var ræktun upphaflega stunduð af manninum. Efnavæddur landbúnaður er hins vegar miklu mun algengari og útbreiddari en hann skilur eftir sig efni í jarðvegi og vatni og oft einnig í plöntunum sem verið er að rækta. Við erum heppin hér á landi þar sem þörfin fyrir eitur til að berjast við til dæmis skordýraplágur er mun minni en víða annars staðar í heiminum en það breytir því ekki að landbúnaðarkerfi heimsins þarfnast endurskoðunar. Ég vil geta treyst því sem ég læt ofan í mig og í dag er lífræn vottun eina kerfið sem ég veit um sem veitir þá tryggingu með reglum, eftirliti og gagnsæi. Ég vil vita að maturinn sem ég borða hefur ekki verið úðaður með illgresiseitri eða öðrum efnum sem eiga ekki að vera í matnum mínum og er mér ef til vill ekki hollt að láta ofan í mig.
Að koma undir sig fótunum sem lífrænn kartöflubóndi er bæði erfitt og auðvelt, auðveldara en margt annað þar sem kartöflubændum hefur fækkað ár frá ári, svo ég gat nálgast notuð tæki á viðráðanlegu verði. En á sama tíma er ástæðan fyrir þessari fækkun kartöflubænda sú að þetta er gífurlega mikil vinna fyrir litlar tekjur. Sem betur fer finnst mér eins og það gætu orðið breytingar á þessu með þeirri uppbyggingu og fólksfjölgun sem er að eiga sér stað víða á landinu. Það er líka enginn vafi á því að lífið í sveitinni er óviðjafnanlegt. Hér eru til dæmis engar umferðarteppur seinni partinn eins og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann og hlær.

Hver hefur mesta áskorunin verið í þessari vegferð hingað til?
„Það er margt, og margar eru þær sömu og aðrir bændur glíma við en ein helsta áskorunin hjá mér hefur verið tækjakostur. Í stað þess að nota eitur til að verjast illgresi, eins og gert er í hefðbundnum landbúnaði, þá þurfum við lífrænu bændurnir að nota sérhæfð tæki eða gera það með handafli. Ég er að fara af stað með tilraunir í sumar með sérhannaða vél til að eyða illgresi í grænmetis- og kornökrum, en fram að þessu hefur það að mestu verið gert í höndunum sem er auðvitað mjög kostnaðarsamt. Það er ekki að ástæðulausu sem lífræn vara er dýrari úti í búð því hún er umtalsvert dýrari í framleiðslu.
Þar sem lífrænir bændur eru fáir og langt á milli þeirra getum við ekki nýtt okkur tilhögun sem margir bændur gera, það er að segja búa til félög sem kaupa tæki og leigja síðan til bænda. Í lífræna geiranum hefur hver og einn þurft að sjá um sig sjálfur en þetta er vonandi að breytast. Það er komið inn í stefnu stjórnvalda að auka hlutfall lífrænnar ræktunar á Íslandi svo lífrænum ræktendum fjölgar vonandi með tímanum. Ég hef trú á að ef mögulegt er að samnýta tæki lækki þröskuldurinn og auðveldi bændum að hefja lífræna ræktun.
Mér finnst líka mikilvægt að halda því til haga að lífræn ræktun er ekki ný af nálinni hér á landi. Frumkvöðlar eins og Sesselja á Sólheimum sýndi hvað er hægt að gera þegar hugsjónir og þolinmæði mætast. Lífræn ræktun er bæði raunhæf og möguleg á Íslandi. Því fleiri ræktendur sem slást í hópinn, því meiri þekking skapast og því auðveldara verður þetta. Ég lít ekki á okkur sem ræktum lífrænt vera í samkeppni við bændur í hefðbundinni ræktun, heldur erum við öll í samkeppni við innfluttan mat. En oft vitum við hvorki hvernig maturinn var framleiddur né hvernig vinnuaflið sem aflaði hans hafði það.“

Hvernig velur þú yrkin sem þú svo ákveður að rækta?
„Ég prófa alltaf eitthvað nýtt á hverju ári. Sum yrki vaxa lítið, önnur vaxa vel en eru ef til vill bragðvond, misstór eða hafa eiginleika sem henta ekki nógu vel fyrir markaðinn. Ég hef sérstakan áhuga á yrkjum sem eru dugleg að vinna næringarefni úr jarðveginum og þurfa því litla aðstoð. Af miklum fjölda yrkja sem ég hef prófað eru kannski fjögur til fimm sem ég er orðinn nokkuð ánægður með. En ég held alltaf áfram að prófa mig áfram því það er stöðugt verið að búa til ný afbrigði af kartöflum.
Ég hef fengið matreiðslumeistara til að prófa uppskeruna úr hverju yrki, elda og smakka. Ef þeir gefa lélega einkunn set ég þau til hliðar, þó svo að þau spretti vel eða uppfylli ræktunarmarkmið mín. Eitt yrkið sem ég var með í fyrra skilaði uppskeru með mjög smáum kartöflum, þær voru sérlega bragðgóðar og uxu vel þrátt fyrir kalt sumar. Ég ætlaði að halda áfram með það og kaupa meira útsæði en þá var það tekið úr framleiðslu hjá erlenda birgjanum mínum svo sú tilraun fór fyrir lítið. Ég hef líka prófað eldrauðar kartöflur sem á fyrsta ári gengu illa, voru ljótar og uxu ójafnt, en ég gaf þeim annað tækifæri ári síðar, setti þær í annars konar jarðveg og þar leið þeim betur og þær uxu vel. Hvert yrki hefur sín sérkenni og öll þurfa þau sínar kjöraðstæður þegar kartöflurnar eru ræktaðar í lifandi jarðvegi þar sem ekki er full stjórn á öllu sem hefur áhrif á líðan plöntunnar.“

Útiræktun á Íslandi er áhættusamur bransi. Hvernig bregst þú við erfiðum veðurskilyrðum?
„Óvissa er stór áhættuþáttur í allri útiræktun. Veðurfarið er auðvitað kapítuli út af fyrir sig en kartöflumygla sem er sveppasjúkdómur hefur líka valdið miklu tjóni hjá bændum á Suðurlandi. Árið 2021 missti ég nánast alla mína uppskeru þar sem að í lífrænni ræktun er auðvitað ekki í boði að úða sveppaeitri á kartöflugrösin. Eitt árið fraus hjá mér 15. ágúst. Í lífrænni ræktun fá plönturnar ekki fljótandi áburð eða tilbúnar næringarlausnir og vaxa þar af leiðandi stundum hægar og þurfa því lengri vaxtartíma. Þegar frýs falla grösin og kartöflurnar hætta að vaxa. Síðasta sumar var mjög kalt svo það spratt lítið, en það sem bjargaði mér þá var hvað september var mildur og ég gat því tekið upp seinna en ella og gefið kartöflunum lengri tíma til að vaxa.
Þetta er einfaldlega áhætta sem allir íslenskir útiræktendur þurfa að lifa með. Ég reyni að stilla ræktuninni þannig upp að hún hafi þol gagnvart sveiflum en veðrið hefur alltaf síðasta orðið.“
Hver eru framtíðarplön Biobóndans?
„Ég vil halda áfram að gera tilraunir og þróa ræktunina að sjálfsögðu. En mér er líka mjög umhugað um að styðja við framgang lífræns landbúnaðar á Íslandi. Ég veit að þetta er svo miklu betra, fyrir umhverfið, neytendur og okkur bændur. Langflestir bændur vilja rækta hollan mat og hugsa vel um dýrin sín. Það er þó til dæmis verulegur skortur á að stuðningskerfi landbúnaðarins geri ráð fyrir lífrænum landbúnaði eins og kerfið okkar er í dag. Lífrænn landbúnaður hefur verið jaðarfyrirbæri á Íslandi og að sumra mati markvisst verið unnið gegn þessari landbúnaðarstefnu. Við ættum að skammast okkar fyrir að vera langneðst á lista Norðurlandanna þegar útbreiðsla lífræns landbúnaðar er skoðuð. Ég vil vinna að því að lífræn matvæli verði raunverulegur valkostur fyrir alla neytendur en ekki munaðarvara fyrir hluta þjóðarinnar.

Við eigum að geta gengið í verslun og valið íslenskan lífrænan kjúkling, egg, mjólk eða kartöflur. Landið okkar hefur úrvals ræktunarland, hreint vatn, og duglegt fólk með hugsjónir. Við getum nýtt þetta allt svo miklu betur. Bændur eigi líka að standa saman óháð því hvaða matvæli þeir framleiða og hvort sem þeir rækta lífrænt eða ekki. Ég trúi því að hægt sé að gera stórkostlega hluti ef fólki ber gæfa til að standa saman, deila þekkingu og nýta landið okkar til að búa til góðan og heiðarlegan mat.“