Síðustu ár hefur lyfjarisinn Novo Nordisk ráðið þúsundir starfsmanna árlega í Danmörku og annars staðar í heiminum. Nú er þessu tímabili lokið því fyrirtækið hefur boðað ráðningabann.
Talsmaður fyrirtækisins segir í svari til DR að hætt hafi verið við allar ráðningar sem ekki eru nauðsynlegar til að reka fyrirtækið.
Fyrr í sumar urðu forstjóraskipti í danska lyfjafyrirtækinu sem var á tíma verðmætasta fyrirtæki Evrópu en gengið hefur fallið hratt síðustu misseri. Samkvæmt frétt Berlingske voru 840 laus störf auglýst á vef Novo Nordisk í lok síðasta mánaðar. Síðan þá hefur sú tala meira en helmingast en helst var leitað eftir sölufólki í Kína og við framleiðslustörf í Bandaríkjunum.