Bandaríska umhverfisstofnunin EPA hefur hætt við sjö milljarða dollara áætlun um að efla nýtingu sólarorku. Áætlunin var samþykkt í forsetatíð Bidens og var m.a. ætlað að fjármagna nýtingu sólarorku fyrir meira en 900 þúsund lágtekjuheimili. Einstök ríki, héruð og frumbyggjahópar fengu úthlutað fjármagni til að kosta uppsetningu á sólarsellum á þökum og í sólarorkugarðum. Nýting sólarorku hefur verið talin ein helsta leiðin til að auka hlut hreinnar orku í bandaríska raforkukerfinu og lækka rafmagnsreikninga bandarískra neytenda.
Niðurskurðurinn er ein af mörgum aðgerðum Trump-stjórnarinnar sem hindra eða hægja á orkuskiptum. Undir forseta Donalds Trump hafa tugir reglugerða sem eiga að vernda vatn og loft verið afnumdar. Á sama tíma hefur stjórnin gripið til ýmissa aðgerða til að styrkja vinnslu á olíu, gasi og kolum.
