Sérstakar opinberar álögur á súkkulaði, sælgæti og kaffi í Danmörku verða felldar niður á næstunni. Frá þessu greinir Troels Lund Poulsen, formaður Venstre og varnarmálaráðherra Danmerkur, nú í morgunsárið.
Kaffigjaldið sem sett var á árið 1930 sem eins konar skattur á munaðarvöru heyrir brátt sögunni til en hann nemur 6,39 dönskum krónum á hálft kíló af kaffibaunum. Súkkulaðiskatturinn á sér enn lengri sögu og nær hann til ólíkra vara, allt frá marsípani til sykurs og kakós samkvæmt frétt Berlingske.
„Með því að afnema þessi tvö gjöld náum við tvennu fram: Við gerum það ódýrara að vera Dani og auðveldum rekstur fyrirtækja með því að draga úr vafstri og skrifræði,“ segir Poulsen, formaður Venstre.
Miklar hækkanir á kaffi og súkkulaði að undanförnu eru helsta ástæðan fyrir því að þessar aldargömlu álögur verða skornar niður. Frá árinu 2020 hefur verð á kaffi hækkað um 47 prósent í Danmörku og súkkulaði er orðið 40 prósent dýrara.
Samkvæmt útreikningum danska skattamálaráðuneytisins munu þessar breytingar hafa það í för með sér að 500 grömm af kaffi verði fimm dönskum krónum ódýrari en sú upphæð jafngildir nærri 100 íslenskum krónum.
Ríkissjóður Dana verður af nærri 50 milljörðum króna á ári vegna breytinganna og samkvæmt frétt Berlingske hefur ekki komið fram hvernig það bil verður brúað í ríkisfjármálunum.