Hluti af starfsfólki Play hefur nú fyrir mánaðamót fengið uppsagnarbréf. Aðspurður um stöðuna þá bendir Birgir Olgeirsson talsmaður flugfélagsins á að það hafi verið gefið út að frá og með komandi vetri verði félagið með fjórar þotur á Íslandi og sex verði í leiguverkefnum í Evrópu.
„Við þessa breytingu mun fjöldi starfa í áhöfnum á Íslandi fækka. Eitthvað af því er í formi þess að fólk hverfur til annarra starfa eða náms, þeir sem voru í sumarstörfum detta út en í einhverjum tilvikum er um uppsagnir að ræða,“ útskýrir Birgir.
Hluti af skrifstofuhaldi Play verður jafnframt flutt á erlendar starfsstöðvar Play, í Litháen og á Möltu en Birgir segir að áfram verði rekin skrifstofa hér á landi „þar sem unnið verður að því að bjóða Íslendingum flugferðir á hagstæðum kjörum til vinsælla áfangastaða í Evrópu.“