Samfélagsmiðlar

Hristu íslensku flugfélögin af sér eftir eitt sumar

Icelandair og WOW air munu ekki snúa aftur til Dallas í sumar. American Airlines heldur hins vegar Íslandsflugi sínu þaðan áfram. Það eru góð tíðindi fyrir íslenska ferðaþjónustu því í fyrra komu margir ferðamenn hingað frá borginni.

Frá Dallas.

Kapphlaup íslensku flugfélaganna um áætlunarferðir frá Dallas-Fort Worth flugvelli hófst í september 2017. Þá tilkynnti WOW air að félagið setti stefnuna á þessa næstfjölförnustu flughöfn Texas-fylkis og viku síðar boðaði Icelandair komu sína þangað. Flugvöllurinn í Dallas er helsta starfsstöð American Airlines, stærsta flugfélags í heimi, og stjórnendur þess svöruðu þessari samkeppni íslensku flugfélaganna með því að lofa sínu fyrsta Íslandsflugi.

Í byrjun síðasta sumars hófu félögin þrjú svo áætlunarflugið milli Texas og Íslands og stóð það yfir fram í haustlok. 174 sæta þotur American Airlines komu hingað daglega á meðan WOW flaug 345 sæta breiðþotum á milli borganna þrisvar í viku og Icelandir nýtti sínar hefðbundu 183 sæta Boeing flugvélar í fjórar vikulegar ferðir. Frá maí og fram í lok október fór samtals 99.451 farþegi þessa leið samkvæmt svari flugmálayfirvalda í Dallas við fyrirspurn Túrista. Eru farþegar taldir á hverjum legg fyrir sig og því tvítaldir ef þeir eiga miða báðar leiðir.

Þrátt fyrir fjöldann þá hafa stjórnendur íslensku flugfélaganna ákveðið að láta American Airlines eftir flugið. Þotur félaganna tveggja snúa því ekki aftur til Dallas. Í svari til Túrista segir talskona bandaríska flugfélagsins hins vegar að þar á bæ ríki ánægja með fyrstu vertíðina á Íslandi og þráðurinn verði tekinn upp aftur nú í sumar.

Lítill hluti frá Íslandi

Af þessum nærri eitt hundrað þúsund farþegum, sem flugu milli Dallas Fort-Worth og Keflavíkurflugvallar, frá maí og fram í lok október, þá voru 53.430 eingöngu á leiðinni á milli Dallas og Íslands. Hinir 46.201 byrjuðu eða enduðu ferðalagið annars staðar. Flugu til að mynda frá Oklahoma borg eða Phoenix til Dallas og þaðan til Íslands. Eða ferðuðust frá Dublin til Dallas með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Athygli vekur að 92,2 prósent allra þeirra sem flugu beint á milli borganna hófu ferðalagið í Dallas en aðeins 7,8 prósent flugu héðan samkvæmt svari Dallas flugvallar við fyrirspurn Túrista.

Þotur American Airlines best nýttar

Ekki fást upplýsingar frá Dallas flugvelli um hvernig þessir nærri 100 þúsund farþegar skiptust á milli flugfélagaanna þriggja. Það sést þó í öðrum tölum flugvallarins að Icelandair hefur flutt 21.525 farþegar til og frá Dallas frá maí og fram í október og WOW air flogið með 36.158. Þar með er ljóst að farþegafjöldinn í Íslandsflugi American Airlines var rétt tæplega 42 þúsund. Talning Túrista á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli leiðir í ljós að farnar voru nákvæmlega 580 áætlunarferðir milli Íslands og Dallas á þessu sex mánaða tímabili. Út frá þessu má sjá að sætanýtingin var hæst hjá American Airlines eða 84 prósent. Hjá WOW var hún 81 prósent en 7 af hverjum 10 sætum í vélum Icelandair voru frátekin.

Fleiri ferðamenn frá Dallas en Sviss

Í ofantöldum upplýsingum leynast áhugaverðar tölur fyrir íslenska ferðaþjónustu sem sýna að frá Dallas hafa komið um 24 þúsund ferðamenn til Íslands á þessu sex mánaða tímabili. Er þá aðeins litið til hlutfalls þeirra sem flaug beint hingað frá Dallas og tekið er tillit til tvítalningarinnar sem áður er nefnd. Ferðamennirnir frá Dallassvæðinu frá maí og fram í október voru þá ögn fleiri en allir þeir sem komu hingað með svissneskt vegabréf á tímabilinu (21 þúsund) og álíka margir og komu hingað frá Finnlandi og Rússlandi samanlagt.

Þess má geta að svona greinargóðar upplýsingar um flugumferð eru ekki opinberar hér á landi. Túristi kærði þennan upplýsingaskort íslenskra flugmálayfirvalda og Isavia til úrskurðarnefndar upplýsingamála í maí í fyrra en niðurstaða í málinu liggur ekki fyrir. Í kæru Túrista var bent á mikilvægi góðra upplýsinga um flugumferð fyrir íslenska ferðaþjónustu. Eins og dæmið hér að ofan sýnir þá hefur hið nýja Dallasflug verið vel nýtt af bandarískum ferðamönnum á leið til Íslands. Nú er hins vegar fyrirséð að bæði Icelandair og WOW air ætla að hætta ferðum sínum þangað og þar með miklar líkur á að ferðafólki frá Dallas og nágrenni fækkar hér á landi í ár.

Nýtt efni

Eftirspurn eftir ferðalögum til útlanda meðal Íslendinga er áfram sterk fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á kynningu á nýju uppgjöri flugfélagsins nú í morgun. Farþegum Icelandair frá heimamarkaðnum fækkaði hins vegar um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt útskýrði Bogi Nils með því að benda á …

Í byrjun júlí tóku gildi bráðabirgðatollar á rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína til aðildarríkja Evrópusambandsins. Var gripið til þessa eftir að rannsókn á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós að kínverska framleiðslan nyti óeðlilega mikils ríkisstuðnings og skaði því evrópskir rafbílaframleiðendur. Aukatollurinn, sem nú leggst ofan á þann 10 prósent toll sem fyrir …

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra hagnaðist Icelandair um 2,1 milljarð króna fyrir skatt en núna var niðurstaðan hagnaður upp á 73 milljónir króna. Í dollurum, uppgjörsmynt Icelandair, var rekstrarafkoman (Ebit) jákvæð um 3,3 milljónir dollara en 21 milljón í fyrra. Sú niðurstaða var sú besta í mörg ár eins og sjá má. Skilyrði til flugrekstrar …

Fyrir fjórum vikum síðan boðaði Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, átak í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Segja má að ráðherrann hafi verið að svara kalli forsvarsfólks ferðaþjónustunnar sem hvatt hefur til opinberrar kynningar á Íslandi sem áfangastað líkt og víða tíðkast. Tveimur dögum eftir að Lilja Dögg lofaði „hundruðum millj­óna“ til …

Stjórnendur Icelandair og Play gáfu það út í sumarbyrjun að fargjöld hefðu lækkað vegna mikillar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Félögin tvö þurfa nú í auknum mæli að sækja á þann markað þar sem minni eftirspurn er eftir Íslandsferðum. Gallinn er hins vegar sá að farþegar sem fljúga milli Evrópu og N-Ameríku, með millilendingu á …

Í júní í fyrra voru óvenju margir bandarískir ferðamenn á landinu miðað við flugframboð. Nú í sumar hefur flugferðunum fjölgað um 12 prósent en samt fækkaði bandarískum ferðamönnum um 19 prósent í nýliðnum júní. Það er Icelandair sem er langumsvifamest í flugi héðan til Bandaríkjanna og stóð félagið undir 7 af hverjum 10 flugferðum héðan …

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …