Samfélagsmiðlar

Ferðaþjónustan færir viðskiptin frá íslenskum færsluhirðum

Kortaveltutölur Rannsóknarseturs verslunarinnar bera þess merki að íslensk ferðaþjónustfyrirtæki hafa flutt viðskipti sín frá íslenskum færsluhirðum. Fleiri umsvifamikil fyrirtæki eru með til skoðunar að gera slíkt hið sama.

Ferðafólk á leið í hvalaskoðun

Ferðafólk á leið í hvalaskoðun í Reykjavík

Það eru vísbendingar um að ferðamenn hér á landi eyði að jafnaði meiru en þeir sem voru á ferðinni fyrir heimsfaraldur. Erlend kortavelta hjá bílaleigum, hótelum og veitingastöðum eykst en þessi þróun nær ekki til allra fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Ferðaskrifstofur og fyrirtæki sem selja ferðamönnum alls kyns afþreyingu og skoðunarferðir fá sífellt minna í sinn hlut. Þetta er alla vega staðan samkvæmt þeim tölum sem Rannsóknarsetur verslunarinnar birtir mánaðarlega.

Samkvæmt þeim var kortaveltan í flokknum „ýmis ferðaþjónusta“ rétt um 2,9 milljarðar króna í nýliðnum júní í samanburði við 4,6 milljarða kr. á sama tíma árið 2018 og 4,2 milljarða 2019. Hótel, bílaleigur og veitingastaðir fá aftur á móti mun meira en fyrir heimsfaraldur.

Ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, bátaleigur og markaðsetningarfyrirtæki heyra undir „ýmsa ferðaþjónustu“ samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Og hlutdeild þessa flokks, í heildarkortaveltunni, hefur fallið úr 17 prósentum niður í 10 prósent þegar horft er til nýliðins júní og júní 2019. Þessi þróun hefur átt sér stað frá því síðastliðinn vetur og af samtölum Túrista við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja að dæma þá liggur skýringin að hluta til í verðlagningu.

Kortavelta í raun meiri

Hótel og bílaleigur hafa náð að hækka verðið hjá sér en það sama verði ekki sagt um þá sem selja ferðamönnum skoðunarferðir og afþreyingu. Gengi krónunnar hefur líka sín áhrif en þetta tvennt skýrir þó ekki þetta fall í kortaveltu.

Samkvæmt því sem Túristi kemst næst þá er helsta ástæðan fyrir niðursveiflunni einfaldlega sú að umsvifamikil fyrirtæki í sölu og skipulagningu á ýmiskonar ferðum hafa fært viðskipti sín frá íslenskum færsluhirðum til fyrirtækja í útlöndum. Tölur Rannsóknarseturs ferðaþjónustunnar byggja hins vegar eingöngu á upplýsingum frá íslenskum færsluhirðum, þ.e. Valitor, SaltPay, Rapyd og Netgíró.

Kortavelta erlendra ferðamanna er því í raun meiri en tölur Rannsóknarsetursins segja til um og sérstaklega þegar kemur að sölu á afþreyingu.

Þessi skekkja gæti aukist umtalsvert á næstunni því heimildir Túrista herma að stór og smá ferðaþjónustufyrirtæki skoði nú einnig að færa kortaviðskipti til erlendra færsluhirða. Í þessum hópi eru nokkur af umsvifamestu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins.

Ef af þessum breytingum verður þá munu kortaveltutölunnar verða mun takmarkaðri vísbending um stöðu ferðaþjónustunnar en þær eru í dag. Alla vega svo lengi sem þær byggja eingöngu á tölum frá Valitor, SaltPay, Rapyd og Netgíró en samkvæmt svari frá Rannsóknarsetri verslunarinnar þá er unnið að því að fá upplýsingar um kortaveltu hér á landi frá erlendum færsluhirðum.

Greiðslukerfi óáreiðanleg

Lægri kostnaður er ekki helsta ástæða þess að ferðaþjónustufyrirtæki horfa til til útlanda. Óánægja með þjónustu og tæknilausnir vegur þyngra. Þannig benda viðmælendur Túrista á að greiðslukerfi liggi of oft niðri sem valdi fyrirtækjunum fjárhagstjóni og kalli á viðbótarvinnu við bókanir.

Það er líka staðreynd að það fór illa í eigendur og stjórnendur í ferðaþjónustu þegar færsluhirðar frystu inneignir fyrirtækjanna í heimsfaraldrinum. Með þeirri aðgerð voru kortafyrirtækin að tryggja sig fyrir því tjóni sem hugsanlega yrði vegna kröfu neytenda um endurgreiðslur. Það eru nefnilega færsluhirðarnir sem verða að standa skil gagnvart neytendum ef söluaðili verður gjaldþrota.

Þess má geta í lokin að kaup Íslendinga og útlendinga á farmiðum með íslenskum flugfélögum eru ekki hluti af gagngrunni Rannsóknarseturs verslunarinnar. Ástæðan er sú að Icelandair og Play, og þar á undan Wow Air, skipta fyrst og fremst við erlenda færsluhirða.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …