Samfélagsmiðlar

Ferðaþjónustan færir viðskiptin frá íslenskum færsluhirðum

Kortaveltutölur Rannsóknarseturs verslunarinnar bera þess merki að íslensk ferðaþjónustfyrirtæki hafa flutt viðskipti sín frá íslenskum færsluhirðum. Fleiri umsvifamikil fyrirtæki eru með til skoðunar að gera slíkt hið sama.

Ferðafólk á leið í hvalaskoðun

Ferðafólk á leið í hvalaskoðun í Reykjavík

Það eru vísbendingar um að ferðamenn hér á landi eyði að jafnaði meiru en þeir sem voru á ferðinni fyrir heimsfaraldur. Erlend kortavelta hjá bílaleigum, hótelum og veitingastöðum eykst en þessi þróun nær ekki til allra fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Ferðaskrifstofur og fyrirtæki sem selja ferðamönnum alls kyns afþreyingu og skoðunarferðir fá sífellt minna í sinn hlut. Þetta er alla vega staðan samkvæmt þeim tölum sem Rannsóknarsetur verslunarinnar birtir mánaðarlega.

Samkvæmt þeim var kortaveltan í flokknum „ýmis ferðaþjónusta“ rétt um 2,9 milljarðar króna í nýliðnum júní í samanburði við 4,6 milljarða kr. á sama tíma árið 2018 og 4,2 milljarða 2019. Hótel, bílaleigur og veitingastaðir fá aftur á móti mun meira en fyrir heimsfaraldur.

Ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, bátaleigur og markaðsetningarfyrirtæki heyra undir „ýmsa ferðaþjónustu“ samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Og hlutdeild þessa flokks, í heildarkortaveltunni, hefur fallið úr 17 prósentum niður í 10 prósent þegar horft er til nýliðins júní og júní 2019. Þessi þróun hefur átt sér stað frá því síðastliðinn vetur og af samtölum Túrista við stjórnendur ferðaþjónustufyrirtækja að dæma þá liggur skýringin að hluta til í verðlagningu.

Kortavelta í raun meiri

Hótel og bílaleigur hafa náð að hækka verðið hjá sér en það sama verði ekki sagt um þá sem selja ferðamönnum skoðunarferðir og afþreyingu. Gengi krónunnar hefur líka sín áhrif en þetta tvennt skýrir þó ekki þetta fall í kortaveltu.

Samkvæmt því sem Túristi kemst næst þá er helsta ástæðan fyrir niðursveiflunni einfaldlega sú að umsvifamikil fyrirtæki í sölu og skipulagningu á ýmiskonar ferðum hafa fært viðskipti sín frá íslenskum færsluhirðum til fyrirtækja í útlöndum. Tölur Rannsóknarseturs ferðaþjónustunnar byggja hins vegar eingöngu á upplýsingum frá íslenskum færsluhirðum, þ.e. Valitor, SaltPay, Rapyd og Netgíró.

Kortavelta erlendra ferðamanna er því í raun meiri en tölur Rannsóknarsetursins segja til um og sérstaklega þegar kemur að sölu á afþreyingu.

Þessi skekkja gæti aukist umtalsvert á næstunni því heimildir Túrista herma að stór og smá ferðaþjónustufyrirtæki skoði nú einnig að færa kortaviðskipti til erlendra færsluhirða. Í þessum hópi eru nokkur af umsvifamestu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins.

Ef af þessum breytingum verður þá munu kortaveltutölunnar verða mun takmarkaðri vísbending um stöðu ferðaþjónustunnar en þær eru í dag. Alla vega svo lengi sem þær byggja eingöngu á tölum frá Valitor, SaltPay, Rapyd og Netgíró en samkvæmt svari frá Rannsóknarsetri verslunarinnar þá er unnið að því að fá upplýsingar um kortaveltu hér á landi frá erlendum færsluhirðum.

Greiðslukerfi óáreiðanleg

Lægri kostnaður er ekki helsta ástæða þess að ferðaþjónustufyrirtæki horfa til til útlanda. Óánægja með þjónustu og tæknilausnir vegur þyngra. Þannig benda viðmælendur Túrista á að greiðslukerfi liggi of oft niðri sem valdi fyrirtækjunum fjárhagstjóni og kalli á viðbótarvinnu við bókanir.

Það er líka staðreynd að það fór illa í eigendur og stjórnendur í ferðaþjónustu þegar færsluhirðar frystu inneignir fyrirtækjanna í heimsfaraldrinum. Með þeirri aðgerð voru kortafyrirtækin að tryggja sig fyrir því tjóni sem hugsanlega yrði vegna kröfu neytenda um endurgreiðslur. Það eru nefnilega færsluhirðarnir sem verða að standa skil gagnvart neytendum ef söluaðili verður gjaldþrota.

Þess má geta í lokin að kaup Íslendinga og útlendinga á farmiðum með íslenskum flugfélögum eru ekki hluti af gagngrunni Rannsóknarseturs verslunarinnar. Ástæðan er sú að Icelandair og Play, og þar á undan Wow Air, skipta fyrst og fremst við erlenda færsluhirða.

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …