Samfélagsmiðlar

Miklar vonir bundnar við þróun flugvallarsvæðisins

Suðurnesin eru helsta vaxtarsvæði landsins. íbúum í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 9 prósent á árinu. Hvergi er hlutfall fólks af erlendum uppruna hærra. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, segir miklar vonir bundnar við þróun svæðisins við Keflavíkurflugvöll en hann vill líka sjá eflingu millilandaflugs frá Akureyri og Egilsstöðum.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fyrir utan Stapa í Njarðvík

Fólk sem fer um Keflavíkurflugvöll á vit ævintýranna og fagnar þar heimkomu veltir líklega fæst fyrir sér sveitarfélagamörkum þarna á Miðnesheiðinni. Flugvöllurinn er nefndur eftir Keflavík, sem einu sinni var heiti á sveitarfélagi sem dró nafn sitt af víkinni vestan Grófarinnar við Stakksfjörð. Meginhluti Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru raunar innan sveitarmarka Suðurnesjabæjar, ekki Reykjanesbæjar, sem gamli kaupstaðurinn Keflavík rann inn í.

Klukkan 13.02 á Hafnargötu – MYND: ÓJ

Flugvallarsvæðið liggur nokkuð þétt að vaxandi íbúðabyggðum og atvinnusvæðum Reykjanesbæjar og hefur flugstarfsemin auðvitað margháttuð áhrif á íbúana. Keflavíkurflugvöllur er stærsta uppspretta atvinnu í þessum bæ sem nú telst sá fjórði fjölmennasti á landinu með rúmlega 21.300 íbúa, og bærinn þarf í mörgu að taka mið af flugstarfseminni. Túristi spyr Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra, hvort Reykjanesbær, sem er með helsta alþjóðaflugvöll Íslendinga í túnfætinum, sé samt í raun ferðaþjónustubær?

Hótel Keflavík – MYND: ÓJ

„Já, Reykjanesbær er ferðaþjónustubær að því leyti að talsvert er um að íslenskir og erlendir ferðalangar eyði fyrstu nótt ferðar, eða þeirri síðustu, í bænum. Við sinnum því ferðaþjónustunni á hótelunum og ekki síður veitingastöðunum í bænum. Heilmikil uppbygging hefur orðið. Nokkur góð hótel eru í Reykjanesbæ og fínir veitingastaðir sem tengjast þeim. Svo er alltaf markmiðið hjá okkur eins og öðrum sveitarfélögum á landinu að lengja þennan meðal dvalartíma ferðafólksins. Fá það til að staldra aðeins lengur hér á svæðinu, ferðast um það. Hægt og rólega er okkur að takast að sýna fólki fram á hversu áhugaverður Reykjanesskaginn er vegna náttúrunnar. Eldgosin á Reykjanesskaga settu okkur á heimskortið.

Túristar milli tröllanna Steins og Sleggju – MYND: ÓJ

Svo erum við hér í Reykjanesbæ með söfn og sýningar sem ætluð eru ferðafólki og heimamönnum til fróðleiks og dægrarstyttingar.“

Reykjanesbær telst því með sanni ferðaþjónustubær.

„Það verður sífellt algengara að erlendir ferðamenn hefji eða ljúki Íslandsferðinni hjá okkur. Nýjasta hótelið á svæðinu er Courtyard by Marriot, sem stendur þar sem Aðalgata liggur að Reykjanesbraut. Þar eru líka að rísa verslanir og einkarekin heilsugæslustöð verður þarna. Á þessum stað verður kjarni sem við bindum vonir við að hafi aðdráttarafl fyrir íbúa og ferðafólk.”

Courtyard by Marriot-hótelið og þjónustukjarninn við Aðalgötu – MYND: ÓJ

Samkvæmt hugmyndum sem Kadeco hefur kynnt um framtíðarskipulag flugvallarsvæðisins er talað um þessa miðju sem „Aðaltorg.” Þar á m.a. að verða megininngangur starfsfólks og annarra sem sinna aðflutningum og þjónustu á flugverndarsvæðinu. 

„Þetta er miklu nær Reykjanesbæ en núverandi inngangur að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og styttir leiðina fyrir starfsfólk sem hugsanlega verður ekið frá „Aðaltorgi” að þeim vinnustöðum sem það er að fara á innan flugvallarsvæðisins.”

Tenging Aðalgötu við Reykjanesbraut – MYND: ÓJ

Hvaða væntingar hafið þið varðandi þróun flugvallarsvæðisins?

„Við bindum miklar vonir við það. Sveitarfélögin, Reykjanesbær og Suðurnesjabær, ásamt Kadeco og Isavia, vinna saman að skipulagi og uppbyggingu á nærsvæðum Keflavíkurflugvallar, sem eru meðfram Reykjanesbraut, kringum Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Aðaltorgið, Ásbrú og Háaleitisplan, þar sem gamla flugstöðin stóð. Við sjáum fyrir okkur að á þessum svæðum, eins og víða við flugvelli elendis, geti byggst upp þjónusta, skrifstofubyggingar og ýmiskonar starfsemi sem tengist flugvellinum beint, en líka tilvalinn fundarstaður fyrir fólk frá Ameríku og meginlandi Evrópu að koma saman á. Við þykjumst sjá að þetta verði stærsti þátturinn í uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs á Suðurnesjum næstu 10 til 20 árin.”

Ferðafólk streymir til landsins í vetrarblíðunni – MYND: ÓJ

Er þá ekki mikilvægt að stórefla almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar, Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins?

„Jú, og það er hluti af þeirri áætlun sem við erum að vinna að með ráðgjöfum undir stjórn KCAP. Þar á meðal eru sérfræðingar í almenningssamgöngum sem eru að hjálpa okkur við að skoða þrennt í þessu sambandi: Í fyrsta lagi tengingu flugvallarsvæðisins og Suðurnesja við höfuðborgarsvæðið og mögulega við Borgarlínuna. Í öðru lagi tengingar á milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og flugvallarins. Í þriðja lagi erum við að vinna með þeim að þróun almenningssamgangna innan Reykjanesbæjar. Þar eru ýmsar skemmtilegar pælingar í gangi um að notast við minni skutlur í stað stórra strætisvagna.”

Stoppistöð Strætó við Flugstöð Leifs Eiríkssonar – MYND: ÓJ

Síðasti hluti Reykjanesbrautar, frá hringtorginu í Innri-Njarðvík og upp að flugstöðinni, dugar naumlega fyrir þá miklu umferð sem um hann fer. Þessi aðkoma að alþjóðaflugvellinum er fremur vanþróuð, er það ekki?

„Þennan veg þarf að breikka og stækka. Þarna þarf meira mannvirki og það er hluti af verkefninu. Það hefur ekkert verið gert lengi af því að menn hafa ekki vitað hvernig tengingar ættu að vera. Þarna eiga eftir að koma ein eða tvenn mislæg gatnamót sem tengja Reykjanesbæ við Reykjanesbautina á þessum vegkafla. Við erum þá að horfa til þess að flugvöllurinn er langstærsti vinnustaður svæðisins. Mikill fjöldi fólks þarf að komast stöðugt upp á Reykjanesbraut og að flugstöðinni. Þetta þarf því að verða lipurt og þægilegt. Við bindum vonir við að endanlegt skipulag á þessum kafla komi út úr þessu KCAP-verkefni.”

Þróunartillaga KCAP – MYND: KADECO

Þú ólst upp við það að varnarsvæðið var afmarkað – eiginlega heimur út af fyrir sig – en nú sitjið þið uppi með arfleifðina: byggingar, götur og önnur mannvirki þarna upp frá. Ykkar hugsun núna er þá, öfugt við það sem áður var, að tengingar séu sem flestar og bestar.

„Jú, akkúrat. Ásbrú, þar sem áður var herstöð, er orðin eitt að fjölmennari hverfum Reykjanesbæjar. Nokkur þúsund manns búa þar. Við erum smám saman að byggja upp þetta hverfi, rekum þar tvo leikskóla og einn grunnskóla. Næsti grunnskóli okkar rís í Ásbrú. Í rammaskipulagi sem Kadeco hefur gert í samvinnu við okkur er gert ráð fyrir að Ásbrú geti orðið allt að 15 til 18 þúsund manna byggð.”

Fyrrverandi íbúðablokk hermanna hefur verið breytt í hótel á Ásbrú – MYND: ÓJ

Er þetta ekki eins og forðum, að mestu leyti byggð fólks af erlendum uppruna?

„Hún er það. Meðal þess sem við þurfum að vinna í er að dreifa þeim íbúahópi betur. Það er ekki talið gott að safna fólki af erlendum uppruna öllum í sérstök hverfi eða á einn stað. Við þurfum að auka fjölbreytni á Ásbrú eins og í öðrum hverfum, dreifa fólki betur. Það er verkefni sem við erum að vinna að. Slagorð Reykjanesbæjar er Í krafti fjölbreytileikans og stefnumörkun okkar til ársins 2030 útskýrir þetta vel. Þá erum við ekki aðeins að horfa til þess að íbúarnir eru núna af um 100 þjóðernum heldur aðhyllist þetta fólk ólík trúarbrögð, ólíkar hugmyndir og er af öllum gerðum. Þetta er bara gaman.”

Starfsmenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar – MYND: ÓJ

Það felst auðvitað mikill styrkleiki og mörg tækifæri í fjölbreytileika Reykjanesbæjar en í heimsfaraldrinum missti stór hluti þessa fólks vinnuna og hvarf í burtu af því að það var háð vinnu sem tengdist fluginu. Er það ekki veikleiki fyrir bæinn?

„Jú, en það getur líka falist styrkleiki í því að þetta fólk er fljótt að koma til baka þegar þörf er á því.  Það er alveg rétt að þetta er hreyfanlegur hópur. Stór hluti af honum ætlar sér bara að dvelja eitt sumar eða ár á Íslandi en ílengist svo. Pólverjar eru í miklum meirihluta, alveg hörkuduglegt fólk sem kom til einnar sumardvalar en hefur fest hér rætur.”

Truflar flugumferðin íbúana? Er mikið um kvartanir?

„Nei, ég get nú ekki sagt það. Auðvitað er eitthvað um það, sérstaklega þegar loftrýmisgæsla NATO stendur yfir. Þá eru hér herþotur í nokkra daga eða vikur og þá fæ ég nú stundum símtöl eða heimsóknir frá þeim sem bregður í brún. En flestir gera sér grein fyrir því að með því að flytja í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöll þá megi búast við einhverju ónæði af því.”

Park Inn by Radisson-hótelið við Hafnargötu – MYND: ÓJ

Það fylgir líka mengun þessari starfsemi. Rétt að hafa það í huga nú þegar við erum með hugann við loftslagsbreytingar og viljum stefna að sjálfbærni.

„Það fylgir þessu mengun – líka frá 212 skemmtiferðaskipum á Ísafirði um sumarmánuðina. Alvöru vinna er komin í gang við að þróa grænt flugvélaeldsneyti og vonandi gengur mönnum vel við það.”

Hótel, kaffihús og veitingastaður kennd við Pétur Duus, kaupmann – MYND: ÓJ

Nú boðar Icelandair að tengja innanlandsflugið við Keflavíkurflugvöll. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina en á það ekki líka við um Reykjanesbæ?

„Við höfum lengi reiknað með því að ef innanlandsflug leggst ekki alveg af á Íslandi þá myndi það af einhverju eða öllu leyti flytjast til Keflavíkurflugvallar. Við höfum ekkert unnið í þessu eða sóst eftir því. Okkur finnst þetta bara sjálfsögð þróun, höfum litið svo á að þetta myndi gerast af sjálfu sér. Það er líka gott að dreifa millilandafluginu. Ég held að menn hljóti að horfa til þess að byggja upp betri aðstöðu á Akureyri og Egilsstöðum fyrir millilandaflugið – að það verði flogið beint á þessa staði. Það skiptir miklu máli fyrir Norðurland og Austurland að fá ferðamennina beint til sín. Við sjáum það t.d. núna þegar komið er fram í nóvember og heldur dregur úr umferðinni – þó að háannatíminn hafi lengst – þá eru samt að koma þúsundir ferðamanna, sem fara minna út á land. Þeir halda sig á suðvesturhorninu. Auðvitað væri miklu betra fyrir ferðaþjónustuna úti á landi að fá þessar flugvélar beint til sín.”

Hótel Berg – MYND: ÓJ

Ef innanlandsflugið færist á Keflavíkurflugvöll myndu þá ekki skapast ný tækifæri fyrir ykkur í Reykjanesbæ, t.d. með eflingu heilbrigðiskerfisins. Fólk utan af landi þyrfti þá ekki endilega að sækja sér slíka þjónustu í Reykjavík – og sömuleiðis fólk sem kæmi lengra að með flugi?

„Við höfum talað fyrir þessu, enn sem komið er fyrir daufum eyrum. Við skiljum ekki af hverju Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er ekki fullbúið sjúkrahús með skurðstofum og því sem til þarf – í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöll. Ef eitthvað kemur upp á þarf að aka með fólk á forgangsljósum í 45 mínútur til Reykjavíkur. Á sama tíma erum við á Suðurnesjum orðin um 30 þúsund. Hvergi á landinu fjölgar fólki hraðar. Íbúum hefur fjölgað um meira en 9 prósent á þessu ári, en 7,7 á síðustu tólf mánuðum. Þetta reynir á alla innviði, ekki síst heilbrigðisþjónustu. Við verðum að fá öflugt sjúkrahús.”

Duushúsalengjan. Þarna er Lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar – MYND: ÓJ

Þú ert síðasti bæjarstjórinn í Reykjanesbæ. Sá næsti verður borgarstjóri!

„Það er mjög stutt í það – ef miðað er við að Akureyri er að byrja að skilgreina sig sem höfuðborg Norðurlands, sem hún náttúrulega er. Á Akureyri búa samt færri en í Reykjanesbæ.”

Einhverjum gæti þótt skrýtið að alþjóðaflugvöllurinn beri nafn bæjarfélags sem er horfið þó Keflavík sjálf sé þar sem hún er. Stundum getur verið flókið fyrir útlending að fljúga til Íslands. Sumstaðar stendur á skiltunum Reykjavík en annars staðar Keflavík. Er mikilvægt að halda í Keflavíkur-nafnið?

„Já, okkur finnst það nú. Ef frekari sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum verður í framtíðinni veit enginn hvaða nafn verður þá fyrir valinu.”

Kjartan Már er bjartsýnn á framtíð Reykjanesbæjar – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …