Samfélagsmiðlar

Jótar pæla í Play

Áform Play um flug til Álaborgar, Árósa og Billund á Jótlandi í sumar fá blendin viðbrögð ferðamiðlara þar. Þó fjölgun flugtenginga sé fagnað er kvartað undan því að áætlunin komi seint fram og hófleg bjartsýni er um að hún gangi eftir.

Eins og Túristi hefur sagt frá boðar Play áætlunarflug næsta sumar til þriggja áfangastaða á Jótlandi: Álaborgar, Árósa og Billund. Danski ferðavefurinn Standby.dk leitar viðbragða jóskra ferðamiðlara við tíðindunum og hvort þeir sjái fram á að geta nýtt sér væntanlegar flugtengingar um Keflavíkurflugvöll. 

Fyrstur til svara er Ole Sørensen, eigandi og framkvæmdastjóri Rejsecenter Djursland. Hann segir að þessar nýju tengingar geti örugglega nýst Jótum þó aðeins sé að ræða flug um háönnina og eingöngu tvisvar í viku til hvers staðar á Jótlandi. Það sé nú lítið mál að komast hvaðan sem er af Jótlandi til flugvallanna í Álaborg, Árósum eða Billund. Ferðaskrifstofa hans geti selt tryggum og góðum viðskiptavinum sínum miða með Play í þessar tvær fyrirhuguðu áætlunarferðir frá Árósum í viku. Rejsecenter Djursland sérhæfir sig einmitt í sérþjónustu og klæðskerasniðnum ferðum, sérstaklega fyrir fólk í viðskiptalífinu. 

Frá Árósum

Þrátt fyrir nokkuð jákvæð vibrögð við boðuðu flugi Play til Jótlands gætir kunnuglegra fyrirvara gömlu herraþjóðarinnar í garð mörlandans hjá hinum jóska Ole Sørensen, sem státar af 20 ára reynslu í bransanum: 

„Við höfum nú áður séð uppblásin áform. Svo þegar flugfélagið sér bókunarstöðuna með vorinu þá fer loftið úr blöðrunni.”  

Standby leitaði líka til Miriam Bisgaard Christiansen, framkvæmdastjóra norður-jósku ferðaskrifstofunnar Nilles Rejser, sem eru hluti af Aller Leisure-samstæðunni. Hún segir að vel geti verið að notast megi við áætlunarferðir Play en ferðaskrifstofan hafi þegar bókað ferðahópa með Icelandair frá Billund-flugvelli. 

„Ég hefði nú gjarnan viljað vita af þessu þegar við fyrir fjórum eða fimm mánuðum vorum að gera okkar áætlanir um árið 2023. Þá hefðum við kannski lagt meiri áherslu á að fljúga til Íslands frá Álaborg.”

Á Billund-flugvelli

Haft er eftir Miriam Bisgaard Christiansen að mikil spurn sé eftir Íslandsferðum en erfitt að fá gistingu um háönnina. Hún beinir spjótum sínum að Play varðandi gistimöguleika og spáir vandræðum næsta sumar: 

„Play hefur vonandi kannað fyrirfram gistimöguleikana á Íslandi um háönnina, því að ég held að það geti orðið erfitt fyrir fólk á eigin vegum að finna pláss.”

Rune Thomassen, forstjóri Best Travel í Frederikshavn, er líka frekar önugur út af því að hafa ekki fengið að vita fyrr af áformum Play:  

„Til lengri tíma litið getum við eflaust nýtt okkur þessar nýju áætlunarferðir Play. Ísland er ekki mikilvægur áfangastaður fyrir okkur. Play vill hinsvegar selja tengiflug annað, t.d. til Bandaríkjanna, en tilkynning um þetta flug kemur of seint til að við getum nýtt okkur það á þessu ári. Ef þau hjá Play hefðu sagt frá þessu í haust hefðum við vafalaust stokkið á þetta.” 

Forstjóri Best Travel telur að það gildi einu fyrir viðskiptavini hvort þeir fljúgi frá Álaborg um Keflavík til New York eða fari frá Álaborg um Amsterdam til New York með KLM-flugfélaginu. Boðað beint flug SAS frá Álaborg til New York í apríl sé hinsvegar mikilvægt og eftirsóttur ferðakostur.   

Síðasti viðmælandi Standby.dk vinnur hjá fyrirtæki í eigu Íslendinga og er einfaldlega himinglaður með áform Play, setur ekki fyrir sig stuttan fyrirvara. Niels Amstrup, er framkæmdastjóri Jysk Rejsebureau, sem er hluti af Horizons-samsteypunni, ásamt DIS Rejser og Killroy, og er í eigu Þóris Kjartanssonar og Arnars Þórissonar:

„Við fögnum því mjög að Play hefji flug til Jótlands. Ísland er meðalstór áfangastaður okkar hjá Jysk Rejsebureau en Bandaríkin sá stærsti. Við vonumst eftir góðu samstarfi við Play.”

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …