Samfélagsmiðlar

Jótar pæla í Play

Áform Play um flug til Álaborgar, Árósa og Billund á Jótlandi í sumar fá blendin viðbrögð ferðamiðlara þar. Þó fjölgun flugtenginga sé fagnað er kvartað undan því að áætlunin komi seint fram og hófleg bjartsýni er um að hún gangi eftir.

Eins og Túristi hefur sagt frá boðar Play áætlunarflug næsta sumar til þriggja áfangastaða á Jótlandi: Álaborgar, Árósa og Billund. Danski ferðavefurinn Standby.dk leitar viðbragða jóskra ferðamiðlara við tíðindunum og hvort þeir sjái fram á að geta nýtt sér væntanlegar flugtengingar um Keflavíkurflugvöll. 

Fyrstur til svara er Ole Sørensen, eigandi og framkvæmdastjóri Rejsecenter Djursland. Hann segir að þessar nýju tengingar geti örugglega nýst Jótum þó aðeins sé að ræða flug um háönnina og eingöngu tvisvar í viku til hvers staðar á Jótlandi. Það sé nú lítið mál að komast hvaðan sem er af Jótlandi til flugvallanna í Álaborg, Árósum eða Billund. Ferðaskrifstofa hans geti selt tryggum og góðum viðskiptavinum sínum miða með Play í þessar tvær fyrirhuguðu áætlunarferðir frá Árósum í viku. Rejsecenter Djursland sérhæfir sig einmitt í sérþjónustu og klæðskerasniðnum ferðum, sérstaklega fyrir fólk í viðskiptalífinu. 

Frá Árósum

Þrátt fyrir nokkuð jákvæð vibrögð við boðuðu flugi Play til Jótlands gætir kunnuglegra fyrirvara gömlu herraþjóðarinnar í garð mörlandans hjá hinum jóska Ole Sørensen, sem státar af 20 ára reynslu í bransanum: 

„Við höfum nú áður séð uppblásin áform. Svo þegar flugfélagið sér bókunarstöðuna með vorinu þá fer loftið úr blöðrunni.”  

Standby leitaði líka til Miriam Bisgaard Christiansen, framkvæmdastjóra norður-jósku ferðaskrifstofunnar Nilles Rejser, sem eru hluti af Aller Leisure-samstæðunni. Hún segir að vel geti verið að notast megi við áætlunarferðir Play en ferðaskrifstofan hafi þegar bókað ferðahópa með Icelandair frá Billund-flugvelli. 

„Ég hefði nú gjarnan viljað vita af þessu þegar við fyrir fjórum eða fimm mánuðum vorum að gera okkar áætlanir um árið 2023. Þá hefðum við kannski lagt meiri áherslu á að fljúga til Íslands frá Álaborg.”

Á Billund-flugvelli

Haft er eftir Miriam Bisgaard Christiansen að mikil spurn sé eftir Íslandsferðum en erfitt að fá gistingu um háönnina. Hún beinir spjótum sínum að Play varðandi gistimöguleika og spáir vandræðum næsta sumar: 

„Play hefur vonandi kannað fyrirfram gistimöguleikana á Íslandi um háönnina, því að ég held að það geti orðið erfitt fyrir fólk á eigin vegum að finna pláss.”

Rune Thomassen, forstjóri Best Travel í Frederikshavn, er líka frekar önugur út af því að hafa ekki fengið að vita fyrr af áformum Play:  

„Til lengri tíma litið getum við eflaust nýtt okkur þessar nýju áætlunarferðir Play. Ísland er ekki mikilvægur áfangastaður fyrir okkur. Play vill hinsvegar selja tengiflug annað, t.d. til Bandaríkjanna, en tilkynning um þetta flug kemur of seint til að við getum nýtt okkur það á þessu ári. Ef þau hjá Play hefðu sagt frá þessu í haust hefðum við vafalaust stokkið á þetta.” 

Forstjóri Best Travel telur að það gildi einu fyrir viðskiptavini hvort þeir fljúgi frá Álaborg um Keflavík til New York eða fari frá Álaborg um Amsterdam til New York með KLM-flugfélaginu. Boðað beint flug SAS frá Álaborg til New York í apríl sé hinsvegar mikilvægt og eftirsóttur ferðakostur.   

Síðasti viðmælandi Standby.dk vinnur hjá fyrirtæki í eigu Íslendinga og er einfaldlega himinglaður með áform Play, setur ekki fyrir sig stuttan fyrirvara. Niels Amstrup, er framkæmdastjóri Jysk Rejsebureau, sem er hluti af Horizons-samsteypunni, ásamt DIS Rejser og Killroy, og er í eigu Þóris Kjartanssonar og Arnars Þórissonar:

„Við fögnum því mjög að Play hefji flug til Jótlands. Ísland er meðalstór áfangastaður okkar hjá Jysk Rejsebureau en Bandaríkin sá stærsti. Við vonumst eftir góðu samstarfi við Play.”

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …