Samfélagsmiðlar

Jótar pæla í Play

Áform Play um flug til Álaborgar, Árósa og Billund á Jótlandi í sumar fá blendin viðbrögð ferðamiðlara þar. Þó fjölgun flugtenginga sé fagnað er kvartað undan því að áætlunin komi seint fram og hófleg bjartsýni er um að hún gangi eftir.

Eins og Túristi hefur sagt frá boðar Play áætlunarflug næsta sumar til þriggja áfangastaða á Jótlandi: Álaborgar, Árósa og Billund. Danski ferðavefurinn Standby.dk leitar viðbragða jóskra ferðamiðlara við tíðindunum og hvort þeir sjái fram á að geta nýtt sér væntanlegar flugtengingar um Keflavíkurflugvöll. 

Fyrstur til svara er Ole Sørensen, eigandi og framkvæmdastjóri Rejsecenter Djursland. Hann segir að þessar nýju tengingar geti örugglega nýst Jótum þó aðeins sé að ræða flug um háönnina og eingöngu tvisvar í viku til hvers staðar á Jótlandi. Það sé nú lítið mál að komast hvaðan sem er af Jótlandi til flugvallanna í Álaborg, Árósum eða Billund. Ferðaskrifstofa hans geti selt tryggum og góðum viðskiptavinum sínum miða með Play í þessar tvær fyrirhuguðu áætlunarferðir frá Árósum í viku. Rejsecenter Djursland sérhæfir sig einmitt í sérþjónustu og klæðskerasniðnum ferðum, sérstaklega fyrir fólk í viðskiptalífinu. 

Frá Árósum

Þrátt fyrir nokkuð jákvæð vibrögð við boðuðu flugi Play til Jótlands gætir kunnuglegra fyrirvara gömlu herraþjóðarinnar í garð mörlandans hjá hinum jóska Ole Sørensen, sem státar af 20 ára reynslu í bransanum: 

„Við höfum nú áður séð uppblásin áform. Svo þegar flugfélagið sér bókunarstöðuna með vorinu þá fer loftið úr blöðrunni.”  

Standby leitaði líka til Miriam Bisgaard Christiansen, framkvæmdastjóra norður-jósku ferðaskrifstofunnar Nilles Rejser, sem eru hluti af Aller Leisure-samstæðunni. Hún segir að vel geti verið að notast megi við áætlunarferðir Play en ferðaskrifstofan hafi þegar bókað ferðahópa með Icelandair frá Billund-flugvelli. 

„Ég hefði nú gjarnan viljað vita af þessu þegar við fyrir fjórum eða fimm mánuðum vorum að gera okkar áætlanir um árið 2023. Þá hefðum við kannski lagt meiri áherslu á að fljúga til Íslands frá Álaborg.”

Á Billund-flugvelli

Haft er eftir Miriam Bisgaard Christiansen að mikil spurn sé eftir Íslandsferðum en erfitt að fá gistingu um háönnina. Hún beinir spjótum sínum að Play varðandi gistimöguleika og spáir vandræðum næsta sumar: 

„Play hefur vonandi kannað fyrirfram gistimöguleikana á Íslandi um háönnina, því að ég held að það geti orðið erfitt fyrir fólk á eigin vegum að finna pláss.”

Rune Thomassen, forstjóri Best Travel í Frederikshavn, er líka frekar önugur út af því að hafa ekki fengið að vita fyrr af áformum Play:  

„Til lengri tíma litið getum við eflaust nýtt okkur þessar nýju áætlunarferðir Play. Ísland er ekki mikilvægur áfangastaður fyrir okkur. Play vill hinsvegar selja tengiflug annað, t.d. til Bandaríkjanna, en tilkynning um þetta flug kemur of seint til að við getum nýtt okkur það á þessu ári. Ef þau hjá Play hefðu sagt frá þessu í haust hefðum við vafalaust stokkið á þetta.” 

Forstjóri Best Travel telur að það gildi einu fyrir viðskiptavini hvort þeir fljúgi frá Álaborg um Keflavík til New York eða fari frá Álaborg um Amsterdam til New York með KLM-flugfélaginu. Boðað beint flug SAS frá Álaborg til New York í apríl sé hinsvegar mikilvægt og eftirsóttur ferðakostur.   

Síðasti viðmælandi Standby.dk vinnur hjá fyrirtæki í eigu Íslendinga og er einfaldlega himinglaður með áform Play, setur ekki fyrir sig stuttan fyrirvara. Niels Amstrup, er framkæmdastjóri Jysk Rejsebureau, sem er hluti af Horizons-samsteypunni, ásamt DIS Rejser og Killroy, og er í eigu Þóris Kjartanssonar og Arnars Þórissonar:

„Við fögnum því mjög að Play hefji flug til Jótlands. Ísland er meðalstór áfangastaður okkar hjá Jysk Rejsebureau en Bandaríkin sá stærsti. Við vonumst eftir góðu samstarfi við Play.”

Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …