Samfélagsmiðlar

„Horfum fram á mikið tekjutap og erfiðleika“

Verkfall um 300 starfsmanna á sjö hótelum Íslandshótela í Reykjavík hefst á hádegi í dag. Í dag lýkur atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls 15. febrúar á sjö hótelum Berjaya-keðjunnar og á The Reykjavík Edition. Davíð Torfi Ólafsson hjá Íslandshótelum segir allt gert til að lágmarka áhrif verkfalls á gesti.

Fulltrúar Eflingar

Fulltrúar Eflingar ganga inn á hótel í Reykjavík

Það var fremur rólegt í afgreiðslusal Hótel Reykjavík Grand við Sigtún í Reykjavík í morgun þegar Túristi kom þar við. Gestir voru að tygja sig í skoðunarferðir dagsins og starfsfólkið að sinna sínum verkum. Margt af því lýkur störfum að sinni á hádegi og fer í verkfall í ótilgreindan tíma. Verkfallið sem hefst á hádegi nær til Fosshótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Grand, Hótel Reykjavík Saga, Hótel Reykjavík Centrum, Fosshótel Baron, Fosshótel Lind og Fosshótel Rauðará. Um 300 manns fella niður störf.

Starfsstúlka á Hótel Reykjavík Grand – MYND: ÓJ

Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela, og hans starfsfólk hefur haft í nógu að snúast að undanförnu til að bregðast við yfirvofandi verkfalli:

„Við lokuðum strax fyrir allar nýjar bókanir á verkfallstímabilinu upp úr miðjum janúar þegar upp úr viðræðunum slitnaði. Til viðbótar þá höfum við þurft að flytja gesti yfir á önnur hótel og kalla út aðila sem mega vinna. Allt er gert til að lágmarka áhrif sem gestir okkar verða mögulega fyrir.“

Davíð Torfi Ólafsson
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela

Hvenær raskar verkfallið starfseminni – hversu lengi getið þið selt gistingu án þrifa og annarra verka sem Eflingarfólk sinnir?

„Við seljum ekki neina gistingu á meðan verkfall varir – að því gefnu að það verði ekki í gangi til lengri tíma – en gerum það sem við getum eftir flutninga yfir á önnur hótel með því fólki sem má vinna. Það er auðvitað ljóst að þetta gengur ekki lengi svona því er mikilvægt að deilan leysist sem fyrst.“

Hótel Reykjavík Grand í morgun – MYND: ÓJ

Hver verða áhrifin til framtíðar af verkfalli

„Eins og gefur að skilja horfum við fram á mikið tekjutap og erfiðleika. Ofan á það bætist síðan sá skellur sem þetta er fyrir ímynd ferðaþjónustunnar hér á landi. Við höfum orðið vör við mikla óánægju erlendra ferðamanna sem getur margfaldast í umtali og haft neikvæð áhrif á ímynd lands og þjóðar og komið í bakið á okkur í framtíðinni.

Þetta er hins vegar veruleiki sem við verðum nú að takast á við og við munum gera allt sem við getum til að láta þetta ekki hafa áhrif á þá gesti okkar sem þegar eru hjá okkur.“

Reception á Grand
Gestamóttakan á Hótel Reykjavík Grand – MYND: ÓJ

Enginn veit hversu lengi verkfallið á Íslandshótelum varir. Nú bíður Eflingarfólks að taka afstöðu til miðlunartillögu Ríkissáttasemjara. Þá lýkur klukkan 18 í dag atkvæðagreiðslu um boðað verkfall á hótelum Berjaya-keðjunnar og á The Reykjavík Edition við Hörpu, sem hefjast á á hádegi 15. febrúar. Ef af því verkfalli verður nær það til um 400 starfsmanna.

Ef lausn verður ekki fundin í kjaradeilunni fyrir þann tíma er augljóst að hótelborgin Reykjavík verður nánast lömuð.

Skafað við inngang Hótel Reykjavík Grand – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …