Samfélagsmiðlar

„Ekki rétt að stefna að endalausri fjölgun“

„Við munum ekki geta vaxið með því að fjölga endalaust ferðafólki. Það eru mörk á því hvað umhverfið og íbúarnir þola. Þá verður að hugsa um það að hafa gæðin í lagi,” segir Svanbjörn Thoroddsen hjá KPMG, sem á síðustu árum hefur skoðað afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Hann segir að árið 2023 verði gott en hátt vaxtastig valdi mörgum fyrirtækjanna erfiðleikum.

Svanbjörn Thoroddsen

Svanbjörn Thoroddsen

Sérfræðingar KPMG á Íslandi hafa á síðustu árum unnið að því að greina rekstur og afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Skýrslur hafa verið gerðar sem Ferðamálastofa og ráðuneyti ferðamála hafa notað í umfjöllun og stefnumótun í greininni. Fljótlega kom í ljós í vinnu ráðgjafa að erfitt væri að ná utan um fjárhagsstöðuna í heild – en það er reynt að meta hana út frá bestu fáanlegum gögnum hverju sinni. Svanbjörn Thoroddsen er sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG: 

„Við byrjuðum á greiningum með Ferðamálastofu á grundvelli fyrirliggjandi gagna en líka með því að draga ályktanir út frá ýmsum tölum í umhverfinu. Þetta hefur þróast vel. Í nýjustu skýrslu okkar unnum við með gögn úr ársreikningum tæplega 2.400 fyrirtækja sem skilgreind eru í öllum greinum ferðaþjónustu fyrir árin 2017-2021. Þetta gefur heildstæða mynd en í ársbyrjun 2023 erum við að vinna með nýjustu rauntölur frá 2021 og þurfum að geta okkur til um stöðuna 2022.

Þegar við reynum að geta okkur til um hvað hafi líklega gerst á síðasta ári verðum við að miða við ýmis hnit sem við höfum, eins og t.d. fjölda ferðamanna og gistinátta. Svo höfum við virðisaukaskattsveltu greina ferðaþjónustunnar, kortaveltu og greidd laun. Þannig tengjum við saman mörg ólík hnit og innsæi sérfræðinga KPMG og Ferðamálastofu til að styðja við áætlun okkar um það hvað gerðist árið 2022.”

Íshellir kannaður – MYND: Icelandia

Við erum stödd á árinu 2023 og reynum að átta okkur á því hvernig þessi mikilvæga starfsgrein stendur. Það besta sem við höfum eru gamlar upplýsingar – og það frá nokkuð afbrigðilegum tíma, í heimsfaraldri og þegar við erum að ná okkur eftir hann. 

„Það eru nokkur atriði sem þó standa upp úr og vert er að benda á þegar við reynum að átta okkur á hver staðan í greininni er: Í fyrsta lagi er það hversu mörg fyrirtæki lifðu af faraldurinn, voru tilbúin og með mikla afkastagetu þegar allt fór af stað aftur. Í öðru lagi þá er neyslan að breytast mikið. Áður gátum við stuðst einfaldlega við tölur um fjölda ferðamanna. En þær segja okkur minna en tölur um fjölda gistinátta um umfang og heildartekjur greinarinnar vegna þess að erlendu ferðamennirnir dvelja lengur. Íslenskir ferðamenn eru farnir skipta miklu máli í mælingum á neyslunni. Ef maður á að átta sig á heildarneyslunni og breytingum á henni dugar ekki að horfa á fjölda ferðamanna, heldur skoða líka gistinætur. Þá sjáum við t.d. tekjuaukningu milli áranna 2019 og 2022 þrátt fyrir að ferðamenn hafi verið færri.”

Þurfum við ekki betri samtímaupplýsingar?

„Jú, við þyrftum að hafa þær. Það verður líka að huga að flokkun fyrirtækjanna. Mörg fyrirtæki starfa í fleiri en einn grein: gistingu, afþreyingu, o.s.frv. Eigendur eignarhaldsfélaga starfa ekki endilega í ferðaþjónustu, en eiga hótelbyggingar. Þá eru bara rekstraraðilarnir sem eiga hótelið inni í tölum greinarinnar. Stundum eru hótelin inni á efnahagsreikningi og teljast til greinarinnar – en önnur ekki.

Vélsleðaferð – MYND: Icelandia / Björgvin Hilmarsson

Flokkunin grípur ekki alla þessa hluti. Þetta getur verið snúið. Við reynum líka að flokka tölur eftir landshlutum. Þá getur hótelkeðja verið með höfuðstöðvar í Reykjavík og mælst þar – en ekki þar sem hótel hennar eru úti á landi. Tekjur starfsfólksins greinast þar sem það á lögheimili. Dæmi um þetta er að ferðaþjónusta vegur töluvert í Garðabæ vegna atvinnutekna starfsfólks sem er búsett þar, fólk sem vinnur t.d. hjá flugfélögunum. Það er mikilvægt að draga ekki rangar ályktanir af fyrirliggjandi gögnum.”

Er þá erfitt að mæla umfang og hagræn áhrif ferðaþjónustunnar?

„Já, það er snúið. Til að fá þokkalega sýn þarf að tengja saman marga ólíka punkta og draga síðan ályktanir.”

Ferðamenn í Bankastræti
Ferðamenn í Bankastræti – MYND: ÓJ

Hvort er vægi ferðaþjónustunnar frekar vanmetið eða ofmetið?

„Hún er ekki ofmetin út frá tölunum einum. Það er rétt þegar sagt er að ferðaþjónustan sé stærsta útflutningsgreinin – hvað varðar öflun gjaldeyristekna – stærri en sjávarútvegur og iðnaðurinn þar til nýlega. Hátt verð á áli hefur skotið iðnaðinum í fyrsta sæti. Svo kemur að umræðunni um það hver sé mikilvægasta atvinnugreinin. Hvað skilur ferðaþjónustan eftir? Rætt hefur verið um það að ferðaþjónusta byggist á láglaunastörfum en ég held að það sé óheppileg umræða vegna þess að þar er skautað framhjá mörgum mikilvægum þáttum. Ferðaþjónustan hefur t.d. haft mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun.

Til eru mjög áhugaverðar mælingar sem sýna beinlínis að fækkun íbúa í brothættum byggðum hefur stöðvast, íbúum fjölgað að nýju. Bændur sem ekki gátu lifað af landbúnaði gátu aflað nýrra tekna með ferðaþjónustu. Þetta vegur þungt í byggðum sem ekki styðjast aðallega við sjávarútveg eða stóriðju. Annað sem skiptir máli er nýsköpunin sem fylgir ferðaþjónustunni. Þriðja atriðið er þjónustan sem byggist upp í kringum ferðamenn, sem við íbúarnir njótum síðan góðs af: veitingastaðir og afþreyingarmöguleikar hér og þar um landið. Ísland verður fyrir vikið eftirsóknarverðari staður að búa á. Það er mikilvægt t.d. fyrirtækjum í þekkingariðnaði sem reyna að laða hingað starfsfólk. Það er margt sem gerist í ferðaþjónustu sem styður við aðra uppbyggingu. Þess vegna er óheppilegt þegar umræðan snýst um að velja á milli: annað hvort viljum við ferðaþjónustu – eða ekki!”

Umræðan er því miður oft á þann veg að við þurfum að velja á milli leiða. En fjölbreytni hlýtur að vera góð.  

„Ég held að ferðaþjónusta sé góð fyrir Íslendinga að mörgu leyti. Hún fór ekki af stað með ríkisstuðningi heldur með fjölda fólks sem bjó sér til atvinnu. Það hafði aflað sér þekkingar og gat búið sér til tekjur með störfum sínum. Þetta eru störf sem verða til um allt. Það sést líka á þeim fjölda fyrirtækja sem lifðu faraldurinn af að það er mikil seigla í greininni. Hún getur þanist út en líka dregist saman – eftir aðstæðum. Það er mjög jákvætt. Við höfum áður Íslendingar varið miklum fjármunum í að byggja upp greinar sem háðar hafa verið ríkisstuðningi en hrynja svo í einu lagi eða lenda í miklum vandræðum.”

Á jökli – MYND: Midgard Adventures

Felur þetta ekki í sér að reksturinn skilar ekki endilega miklum arði, starfsemin byggist á mikilli vinnu en skilar lítilli arðsemi?

„Við áætlum að hreinn hagnaður greinarinnar árið 2022 hafi verið um 19 milljarðar króna.”

Eru það ekki örfá stór fyrirtæki sem eiga þann hagnað að mestu?

„Vissulega vega nokkur stór fyrirtæki mjög þungt í þessum tölum en margir í ferðaþjónustu eru með mjög góðar tekjur. Það er ekki rétt að segja að greinin skili litlu. Nokkur fyrirtæki hafa líka verið að fjárfesta í hágæða þjónustu við ferðamenn og þau hafa uppskorið vel. Það er mjög jákvætt að ná til þeirra sem njóta vilja þeirra kosta sem Ísland hefur að bjóða og eru tilbúnir að borga vel fyrir þjónustu. Við munum ekki geta vaxið með því að fjölga endalaust ferðafólki. Það eru mörk á því hvað umhverfið og íbúarnir þola. Þá verður að hugsa um það að hafa gæðin í lagi.”

Tjaldævintýri – MYND: Midgard Adventures

Eru ferðaþjónustufyrirtækin þá ekki of mörg og veikburða?

„Ég held ekki. Það er kostur að hafa fjölbreytta flóru fyrirtækja í þeim greinum sem þjóna ferðafólki. Í þessu felst styrkleiki. Við verðum þó alltaf með fáeinar mjög stórar einingar: Icelandair er mjög stórt, hótelkeðjurnar eru stórar, Bláa lónið er stór aðili í afþreyingu. Með þeim getur þrifist mikill fjöldi smærri fyrirtækja. Ég held að það sé ekki gott að atvinnugrein byggist á fáum stórum fyrirtækjum.”

Hvernig stendur íslensk ferðaþjónusta núna, hvernig er afkoman – í ljósi þeirra upplýsinga sem þið hafið og þess sem þú sérð í kringum þig?

„Árið 2022 var mjög gott og ég held að þetta ár verði líka mjög gott. Þegar til skamms tíma er litið þá eru þó ýmsir þættir erfiðir fyrir ferðaþjónustuna. Í fyrsta lagi eru það vaxtahækkanirnar. Það hefur mikið verið fjárfest í greininni og þess vegna er erfitt þegar vextir hækka mikið. Þá hefur launakostnaður aukist mikið. Hlutfall launakostnaðar er hátt víða í ferðaþjónustunni. Sérstaklega á það við um veitingareksturinn, þar sem ekki er auðvelt að velta launakostnaði út í verðlagið. Þar er launastrúktúrinn líka erfiður vegna þess að kjarasamningar gera ekki ráð fyrir að fyrirtæki séu með starfsfólk sem vinnur

MYND: Héðinn Kitchen&Bar

aðallega utan hefðbundins vinnutíma. Það er ströggl í veitingarekstrinum. Hópferðafyrirtækin hafa ekki náð sér aftur á strik. Samsetning ferðafólks hefur breyst. Stærri hluti þess en áður ferðast um á bílaleigubílum. Bílaleigunum gengur því vel. En ef ég á að gefa einfalt svar við spurningunni, þá held ég að ferðaþjónustan standi vel en að hækkandi vextir muni bíta. Mörg fyrirtækin eru verulega skuldsett vegna fjárfestinga, sérstaklega í hótelbyggingum, og þau ganga nú í gegnum erfiðleika.”

Svanbjörn Thoroddsen – MYND: ÓJ

Hátt vaxtastig hamlar líka nýtingu þeirra möguleika sem eru sannarlega til staðar í ferðaþjónustu, t.d. í fámennari eða dreifðari byggðum – á Vestfjörðum, á Norðurlandi og Austurlandi. Það er ekki auðvelt að sækja þolinmótt og ekki of dýrt fjármagn til að kosta uppbyggingu á kaldari svæðunum.

„Ég held að það verði erfitt, sérstaklega þar sem enn er mikil árstíðasveifla í tekjum. Þar er erfitt að festa sig við dýrt fjármagn. Þá skiptir líka máli að við vanrækjum ekki almenna innviði landsins, vegi og önnur samgöngumannvirki, sem byggjast ekki á fjárfestingum einstaklinga í einhverri þjónustu.”

Skógarböðin við Akureyri – MYND: ÓJ

Þýskt flugfélag er hætt við að fljúga til Akureyrar og Egilsstaða í sumar. Icelandair hefur frestað því að vera með beina flugtengingu milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Hluti af vandanum er augljóslega að það vantar hótelgistingu fyrir norðan. Á sama tíma og einhverjir hafa áhyggjur af offjölgun ferðafólks og troðningstúrisma fyrir sunnan þá vantar fjárfestingu annars staðar á landinu til að skapa forsendur fyrir sjálfbærri fjölgun ferðafólks.

„Þegar við hugum að þessu þá verðum við hafa það í huga að vera ekki endilega að hámarka þann fjölda sem kemur hingað heldur stefna að því að veita hæfilegum fjölda sem besta þjónustu árið um kring. En það eru víða göt. Sumstaðar vantar gistimöguleika.

Fyrirhuguð Fjallaböð í Þjórsárdal, sem Bláa Lónið vinnur að – MYND: Bláa Lónið

Flugfélögin þurfa að laga framboð sitt að þeim möguleikum sem eru í landinu í gistingu fyrir ferðafólk. Ekki er hægt að auka endalaust sætaframboð án þess að möguleikar á gistingu og afþreyingu séu fyrir hendi. Það er gott að markaðslögmálin stýri þessu en ekki eitthvað annað. Þessu er ekki hægt að miðstýra.”

Ertu bjartsýnn á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu?

„Ég er það, held að hún eigi bjarta framtíð. Það er ekki rétt að stefna að endalausri fjölgun ferðamanna heldur að smám saman séu sköpuð meiri verðmæti með því sem við höfum að bjóða. Áfangastaðurinn Ísland verður áfram einstakur og eftirsóknarverður – ef við klúðrum þessu ekki.” 

Útsýn frá Höfða Lodge á Þengilhöfða við Grenivík – MYND: Höfði Lodge
Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …