Samfélagsmiðlar

Eigum að verðleggja okkur hátt

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór,” segir Friðrik Pálsson á Hótel Rangá. Hann hvetur til þess að Íslendingar verðleggi sig hátt - en þá verði auðvitað gæði og þjónusta að fylgja.

Frá Reynisfjöru

„Hvers vegna viljið þið vera í ferðaþjónustu? Er það vegna þess að ykkur þykir gaman að taka á móti fólki eða finnst ykkur þið vera skuldbundin á einhvern hátt að taka á móti fólki sem langar að koma hingað? Teljið þið að sveitarfélögin verði sterkari? Þið eruð væntanlega að vonast til að geta haft af þessu góðar tekjur – allavega vona ég það.” Þetta sagði Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, þegar hann ávarpaði Austfirðinga á málþingi á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum um fjárfestingar í ferðaþjónustu í vikunni.

Friðrik Pálsson í ræðustól á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum – MYND: Austurbrú

Hann sagðist óvart hafa lent í ferðaþjónustu en hefði haft mikla ánægju af því, hann hefði gaman af fólki. „Svo er ég loksins farinn að græða svolitla peninga af þessu. En það tók langan tíma. Varð tvívegis næstum því gjaldþrota.” sagði Friðrik og fór yfir megindrætti 20 ára sögu uppbyggingar ferðaþjónustu á Suðurlandi – og sigurgöngu fyrirtækisins á bökkum Eystri-Rangár. Í upphafi þurfti nánast að sækja alla afþreyingu til Reykjavíkur, sem var bæði tímafrekt og erfitt.

Málþingsgestir fyrir austan hlýða á Friðrik lýsa velgengni Hótel Rangár og sunnlenskrar ferðaþjónustu – MYND: ÓJ

„Svo spruttu upp fyrirtæki í kringum okkur og þau hafa meira að segja gengið svo langt að reyna að hafa opið fram á kvöld. – Þetta breyttist býsna hratt og er orðið þannig núna að gríðarlega miklir afþreyingarmöguleikar eru í kringum hótelið. Við megum aldrei gleyma því, þó við séum að reka hótel, að við erum að selja gestum okkar ánægjulega dvöl. Það eru vonandi notaleg herbergi, frábær matur, persónuleg þjónusta, en spennandi afþreying er það sem allt snýst um. Við tókum snemma upp á því að borga hverju öðru commission. Það þekktist ekki en hefur skilað mjög góðum árangri. Við fylgjumst þá vel með því, hvert fyrir sig, að vel sé gert við alla.”

Tvísöngur, hljóðskúlptúrinn í Seyðisfirði, undir norðurljósadýrð – MYND: Icelandi Explorer / Austurbrú

Friðrik lýsti því að þegar hann kynnti Hótel Rangá fyrir félögum í samtökunum Small Luxury Hotels þá hafi fólk varla trúað því hversu margir afþreyingarmöguleikar væru nærri hótelinu. „Það er auðvitað styrkleiki Íslands. Margir útlendingar sem hingað koma tala um hversu stutt þurfi að fara til að upplifa eitt og annað.” Og ein helsta upplifunin er einfaldlega sú að horfa á norðurljósin. „Ekkert selur eins mikið og norðurljósin. – Ég get lofað ykkur því að ef þið keyrið á norðurljósin sem fyrst á það eftir að skila ykkur gríðarlega miklu,” sagði Friðrik við Austfirðinga. „Um 90 prósent af vetrarferðamönnum okkar koma út af norðurljósunum. Þetta á við um öll lönd á norðurslóðum. Þið megið alls ekki gera lítið úr því hvað norðurljósin myndu gera fyrir ykkur.”

Friðrik sagði þó að norðurljósin ein dygðu ekki. Stundum væri stjörnubjartur himinn en engin norðurljós sjáanlegt. Þá gætu erlendir gestir orðið fyrir vonbrigðum. Þau á Hótel Rangá brugðust við þessu með því að setja upp stjörnuskoðunarhús í samstarfi við Sævar Helga Bragason. Það sló í gegn.

Friðrik í stjörnuskoðunarhúsinu við Hótel Rangá – MYND: ÓJ

Eitt af því sem Friðrik Pálsson nefndi var það sem kallað er local ingredients í veitingaþjónustu, áhersla á að bjóða upp á mat úr héraði. „Okkar niðurstaða er sú eftir miklar stúdíur að útlendingum er alveg sama. Ef það er íslenskt þá er það lókal.”

Ferðafólk vill kynnast því sem besta sem landið sem það heimsækir hefur að bjóða í mat og drykk – alveg eins og það vill skoða þekktustu og fegurstu staðina og njóta þess skemmtilegasta sem í boði er í afþreyingu. En svo er það nýr þáttur sem fær stöðugt meira vægi: umhverfis- og loftslagsmálin, sem Friðrik Pálsson sagði að til þessa hefðu verið meira í orði en á borði:

„Ég held að við eigum ekki að gera lítið úr því hvað græna byltingin er að gera fyrir túrismann.”

Ferðamanni liðsinnt á Hótel Öldu á Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Vorkvöld við Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði. Rútan komin með gestahóp – MYND: ÓJ

Á málþinginu á Hótel Valaskjálf sat fólk sem lætur sig dreyma um að ferðaþjónusta verði arðsöm heilsárs atvinnugrein. Friðrik sagði hinsvegar að til væru staðir úti í heimi sem stunduðu arðbæra ferðaþjónustu hluta af árinu en þeim tækist það af því að verðið væri hátt. Hann nefndi staði sem gera út á skíði og vetraríþróttir. Þar væri allt opið yfir skíðavertíðina en lágmarks þjónusta væri í boði á sumrin. Þetta væri hægt ef verðið væri nógu hátt.

„Ég ætla að leyfa mér að segja við ykkur: Okkur ber skylda til að verðleggja okkur hátt. Það er ekki sama að selja dýrt og selja á háu verði. Ég hef alltaf skilið það þannig frá því að ég var krakki að ef eitthvað er dýrt þá er það vegna þess að gæði eða þjónusta fylgi því ekki. Hitt er hátt verð. Ég seldi fisk í 30 ár og ég man aldrei eftir því að við værum að selja hann of háu verði. – Við eigum ekki að gera það heldur í þessu: Við eigum að selja Ísland og allt sem við gerum á eins háu verði og við höfum tök á – en gæðin og þjónustan verða að fylgja. Það segir sig sjálft. Annars er það dýrt og það viljum við ekki.”

Íslenskur fiskur er lostæti rétt eldaður, eins og steinbíturinn á Nielsen á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Friðrik Pálsson lauk ávarpi sínu á að ræða stóru spurninguna, sem stjórnmálamenn virðast ekki velta mikið fyrir sér: Hversu marga ferðamenn eigum við að fá til Íslands?

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór. Við látum þetta bara gerast, auglýsum og hömumst við að fá fólk til landsins en veltum því ekkert fyrir okkur hvað væri passlega mikið.”

Við Þorvaldseyri. Frægð Eyjafjallajökuls lifir og færir okkur enn ferðafólk – MYND: ÓJ

Friðrik tók dæmi af velgengni íslensks sjávarútvegs eftir að kvótakerfinu var komið á. Síðan hefðu byggst hér upp fyrirtæki í sjávarútvegi sem væru á heimsvísu.

„Ég held að við þurfum á einhverju stigi máls að ákveða hversu marga ferðamenn við viljum fá.”

Friðrik segir að eina leiðin til að koma í veg fyrir að ferðamönnum fjölgi of mikið sé að nota verðstýringu – hafa verðið nógu hátt. Það væri áhugavert að heyra hvað aðrir í ferðaþjónustunni segja um það.

Margur Íslendingurinn sýpur vafalaust hveljur nú þegar yfir verðlaginu á ferðamannastöðum landsins. Ef verðið hækkar enn þá forða Íslendingar sér annað – kannski bara til Tenerife – nú eða bara í gönguferðir um eigið land með bakpoka og tjald – og nesti að heiman. 

Grófur malarvegurinn yfir Öxi er vinsæl leið meðal erlendra ferðamanna, sem þykir vegurinn spennandi – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …