Samfélagsmiðlar

Eigum að verðleggja okkur hátt

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór,” segir Friðrik Pálsson á Hótel Rangá. Hann hvetur til þess að Íslendingar verðleggi sig hátt - en þá verði auðvitað gæði og þjónusta að fylgja.

Frá Reynisfjöru

„Hvers vegna viljið þið vera í ferðaþjónustu? Er það vegna þess að ykkur þykir gaman að taka á móti fólki eða finnst ykkur þið vera skuldbundin á einhvern hátt að taka á móti fólki sem langar að koma hingað? Teljið þið að sveitarfélögin verði sterkari? Þið eruð væntanlega að vonast til að geta haft af þessu góðar tekjur – allavega vona ég það.” Þetta sagði Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, þegar hann ávarpaði Austfirðinga á málþingi á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum um fjárfestingar í ferðaþjónustu í vikunni.

Friðrik Pálsson í ræðustól á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum – MYND: Austurbrú

Hann sagðist óvart hafa lent í ferðaþjónustu en hefði haft mikla ánægju af því, hann hefði gaman af fólki. „Svo er ég loksins farinn að græða svolitla peninga af þessu. En það tók langan tíma. Varð tvívegis næstum því gjaldþrota.” sagði Friðrik og fór yfir megindrætti 20 ára sögu uppbyggingar ferðaþjónustu á Suðurlandi – og sigurgöngu fyrirtækisins á bökkum Eystri-Rangár. Í upphafi þurfti nánast að sækja alla afþreyingu til Reykjavíkur, sem var bæði tímafrekt og erfitt.

Málþingsgestir fyrir austan hlýða á Friðrik lýsa velgengni Hótel Rangár og sunnlenskrar ferðaþjónustu – MYND: ÓJ

„Svo spruttu upp fyrirtæki í kringum okkur og þau hafa meira að segja gengið svo langt að reyna að hafa opið fram á kvöld. – Þetta breyttist býsna hratt og er orðið þannig núna að gríðarlega miklir afþreyingarmöguleikar eru í kringum hótelið. Við megum aldrei gleyma því, þó við séum að reka hótel, að við erum að selja gestum okkar ánægjulega dvöl. Það eru vonandi notaleg herbergi, frábær matur, persónuleg þjónusta, en spennandi afþreying er það sem allt snýst um. Við tókum snemma upp á því að borga hverju öðru commission. Það þekktist ekki en hefur skilað mjög góðum árangri. Við fylgjumst þá vel með því, hvert fyrir sig, að vel sé gert við alla.”

Tvísöngur, hljóðskúlptúrinn í Seyðisfirði, undir norðurljósadýrð – MYND: Icelandi Explorer / Austurbrú

Friðrik lýsti því að þegar hann kynnti Hótel Rangá fyrir félögum í samtökunum Small Luxury Hotels þá hafi fólk varla trúað því hversu margir afþreyingarmöguleikar væru nærri hótelinu. „Það er auðvitað styrkleiki Íslands. Margir útlendingar sem hingað koma tala um hversu stutt þurfi að fara til að upplifa eitt og annað.” Og ein helsta upplifunin er einfaldlega sú að horfa á norðurljósin. „Ekkert selur eins mikið og norðurljósin. – Ég get lofað ykkur því að ef þið keyrið á norðurljósin sem fyrst á það eftir að skila ykkur gríðarlega miklu,” sagði Friðrik við Austfirðinga. „Um 90 prósent af vetrarferðamönnum okkar koma út af norðurljósunum. Þetta á við um öll lönd á norðurslóðum. Þið megið alls ekki gera lítið úr því hvað norðurljósin myndu gera fyrir ykkur.”

Friðrik sagði þó að norðurljósin ein dygðu ekki. Stundum væri stjörnubjartur himinn en engin norðurljós sjáanlegt. Þá gætu erlendir gestir orðið fyrir vonbrigðum. Þau á Hótel Rangá brugðust við þessu með því að setja upp stjörnuskoðunarhús í samstarfi við Sævar Helga Bragason. Það sló í gegn.

Friðrik í stjörnuskoðunarhúsinu við Hótel Rangá – MYND: ÓJ

Eitt af því sem Friðrik Pálsson nefndi var það sem kallað er local ingredients í veitingaþjónustu, áhersla á að bjóða upp á mat úr héraði. „Okkar niðurstaða er sú eftir miklar stúdíur að útlendingum er alveg sama. Ef það er íslenskt þá er það lókal.”

Ferðafólk vill kynnast því sem besta sem landið sem það heimsækir hefur að bjóða í mat og drykk – alveg eins og það vill skoða þekktustu og fegurstu staðina og njóta þess skemmtilegasta sem í boði er í afþreyingu. En svo er það nýr þáttur sem fær stöðugt meira vægi: umhverfis- og loftslagsmálin, sem Friðrik Pálsson sagði að til þessa hefðu verið meira í orði en á borði:

„Ég held að við eigum ekki að gera lítið úr því hvað græna byltingin er að gera fyrir túrismann.”

Ferðamanni liðsinnt á Hótel Öldu á Seyðisfirði – MYND: ÓJ

Vorkvöld við Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði. Rútan komin með gestahóp – MYND: ÓJ

Á málþinginu á Hótel Valaskjálf sat fólk sem lætur sig dreyma um að ferðaþjónusta verði arðsöm heilsárs atvinnugrein. Friðrik sagði hinsvegar að til væru staðir úti í heimi sem stunduðu arðbæra ferðaþjónustu hluta af árinu en þeim tækist það af því að verðið væri hátt. Hann nefndi staði sem gera út á skíði og vetraríþróttir. Þar væri allt opið yfir skíðavertíðina en lágmarks þjónusta væri í boði á sumrin. Þetta væri hægt ef verðið væri nógu hátt.

„Ég ætla að leyfa mér að segja við ykkur: Okkur ber skylda til að verðleggja okkur hátt. Það er ekki sama að selja dýrt og selja á háu verði. Ég hef alltaf skilið það þannig frá því að ég var krakki að ef eitthvað er dýrt þá er það vegna þess að gæði eða þjónusta fylgi því ekki. Hitt er hátt verð. Ég seldi fisk í 30 ár og ég man aldrei eftir því að við værum að selja hann of háu verði. – Við eigum ekki að gera það heldur í þessu: Við eigum að selja Ísland og allt sem við gerum á eins háu verði og við höfum tök á – en gæðin og þjónustan verða að fylgja. Það segir sig sjálft. Annars er það dýrt og það viljum við ekki.”

Íslenskur fiskur er lostæti rétt eldaður, eins og steinbíturinn á Nielsen á Egilsstöðum – MYND: ÓJ

Friðrik Pálsson lauk ávarpi sínu á að ræða stóru spurninguna, sem stjórnmálamenn virðast ekki velta mikið fyrir sér: Hversu marga ferðamenn eigum við að fá til Íslands?

„Það er í rauninni dálítið galið að við skulum líta á ferðaþjónustu sem stóra, nýja atvinnugrein, og höfum ekki skoðun á því hvað við viljum að hún verði stór. Við látum þetta bara gerast, auglýsum og hömumst við að fá fólk til landsins en veltum því ekkert fyrir okkur hvað væri passlega mikið.”

Við Þorvaldseyri. Frægð Eyjafjallajökuls lifir og færir okkur enn ferðafólk – MYND: ÓJ

Friðrik tók dæmi af velgengni íslensks sjávarútvegs eftir að kvótakerfinu var komið á. Síðan hefðu byggst hér upp fyrirtæki í sjávarútvegi sem væru á heimsvísu.

„Ég held að við þurfum á einhverju stigi máls að ákveða hversu marga ferðamenn við viljum fá.”

Friðrik segir að eina leiðin til að koma í veg fyrir að ferðamönnum fjölgi of mikið sé að nota verðstýringu – hafa verðið nógu hátt. Það væri áhugavert að heyra hvað aðrir í ferðaþjónustunni segja um það.

Margur Íslendingurinn sýpur vafalaust hveljur nú þegar yfir verðlaginu á ferðamannastöðum landsins. Ef verðið hækkar enn þá forða Íslendingar sér annað – kannski bara til Tenerife – nú eða bara í gönguferðir um eigið land með bakpoka og tjald – og nesti að heiman. 

Grófur malarvegurinn yfir Öxi er vinsæl leið meðal erlendra ferðamanna, sem þykir vegurinn spennandi – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …