Samfélagsmiðlar

„Þetta þarf allt að vera í góðum takti“

Þau sem aka norður þjóðveg eitt sjá við gatnamótin niður að Hvammstanga stórt skilti þar sem Selasetur Íslands er kynnt. Það er vel þess virði að leggja á sig þennan stutta krók niður í þorpið - ekki síst að fræðast um selinn, þetta fallega einkennisdýr strandlengjunnar á Vatnsnesi.

Horft út Miðfjörðinn

Flestir æða auðvitað áfram á þessari leið en þeim fjölgar sem aka 6 kílómetra krókinn niður á Hvammstanga, ekki síst leita erlendir túristar þangað eftir upplýsingum um héraðið eða til að fræðast um selina, fá sér að borða, skoða sölubúð kaupfélagsins – og skoða einhverja sýninguna í þorpinu. Sýning Selaseturs Íslands er í gærusal gamla sláturhúss Kaupfélags Vestur-Húnvetninga við höfnina.

Örvar Birkir Eiríksson við Selasetur Íslands – MYND: ÓJ

„Það gekk mjög vel í fyrra. Um 20 þúsund manns komu hingað en að vísu erum við hér líka með upplýsingamiðstöð fyrir ferðafólk. Rúmur helmingur kemur aðeins til að fá upplýsingar um héraðið en kaupir ekki miða á sýninguna. Selasetrið hefur starfað síðustu 16 árin og er orðið nokkuð þekkt, búið að skapa sér nafn. Maður fær mikið af fyrirspurnum utan úr heimi frá háskólanemum sem vilja koma hingað til að stunda rannsóknir eða ljúka hluta af sínu námi hér. Þetta gengur nokkuð vel,” segir Örvar Birkir Eiríksson, sem tók við starfi framkvæmdastjóra Selaseturs Íslands um áramótin.

MYNDIR: ÓJ

Selasetrið var formlega opnað 2006 en þá var það til húsa í Verslun Sigurðar Pálmasonar en fluttist 2011 í gærukjallara kaupfélagsins. Vonir standa til að stækka sýningarrýmið enn frekar. Örvar er bjartsýnn á að það sé hægt að efla Selasetrið, margar hugmyndir séu á lofti. Stofnunin er rekin af hlutafélagi sem margir einstaklingar og fyrirtæki koma að og vinnur náið með vísindasamfélaginu. 

MYNDIR: ÓJ

„Selarannsóknir eru unnar í samstarfi við Hafrannsóknastofnun enda er eitt stærsta selalátur landsins við Hvítserk og svo er mikið af sel hér í kring. Við vinnum líka með Háskólanum á Hólum á sviði ferðamálafræða. Þetta þarf allt að vera í góðum takti. Við viljum að sem flestir geti skoðað selina en viljum ekki að hann fælist. Svo vinnum við líka með Náttúrustofu Norðurlands-vestra. Nokkrir vísindamenn frá þessum þremur stofnunum eru hér á Hvammstanga.”

Hafþór M.Kristinsson, starfsmaður, ræðir sögustaði í héraðinu – MYND: ÓJ

Það var hart gengið gegn selnum hér á árum áður.

„Jú, selurinn átti í vök að verjast og stofninn er enn á válista. Hann var veiddur grimmt og stórt skarð hoggið í stofninn um og upp úr 1980. Nú er selastofninn stöðugur en hefur ekki enn farið upp á við eins og við vonuðumst eftir. Enn má þó sjá á góðum degi hundrað seli við Hvítserk. Selurinn er brögðóttur. Ég er alltaf að reyna að ráða hann í vinnu til að geta sagt ferðafólki að hann sé á sínum stað milli 12.00 og 16.00 alla daga. Selurinn hefur ekki viljað þetta ennþá.”

Sætin úr Iðnó sóma sér vel í bíósalnum – MYND: ÓJ

Hér er fræðileg framsetning á því sem við vitum um selinn en er þetta dýr ekki líka mikilvægt tákn fyrir Ísland – eitthvað sem við viljum kynna ferðafólki?

„Jú, á sama hátt og gert hefur verið með hvalina. Það er auðvitað togstreita þar – að bæði veiða og sýna hvali. Það er hinsvegar bannað að veiða sel nema með sérstökum undanþágum. Hann á þess vegna að geta haft það ansi gott hér við Ísland. Einstaka sinnum sér maður selina hérna við húshornið.”

Sjávarborg lokkar marga niður á Hvammstanga – MYND: ÓJ

Er Hvammstangi óslípaður dementur – frá sjónarhóli ferðaþjónustu?

„Það eru talsverð tækifæri hér. Staðurinn er fallegur – í aðeins nokkurra mínútna akstursfjarlægð frá þjóðvegi eitt. Hér er hægt að versla í kaupfélaginu. Það er klárlega þess virði að kíkja þangað – skoða alvöru kaupfélag. Hér fyrir ofan Selasetrið er flottur veitingastaður, Sjávarborg. Tjaldsvæðið uppi í Hvammi er meðal þeirra bestu á landinu. Prjónastofan Kidka vinnur margskonar vörur úr ull. Svo eru það Gallerí Bardúsa og Verslunarminjasafnið. Hér er margt að skoða og mörg tækifæri til að gera betur.”

Hvammstangi og kaupfélagið – MYNDIR: ÓJ

Héraðið allt um kring er auðvitað söguríkt og áhugavert. Dugar að nefna slóðir frægasta Miðfirðingsins, Grettis Ásmundarsonar, morðin á Natani Ketilssyni og gesti hans á Illugastöðum og síðustu aftökur á Íslandi á Þrístöpum í Vatnsdal. Það verður enginn svikinn af því að fara hringinn á Vatnsnesi.

„Það er margt sögulega merkilegt á Vatnsnesi og mjög fallegt – bæði jarðfræðilegar myndanir og útsýnið. Strandafjöllin njóta sín vel séð frá Vatnsnesi. Útsýnið svíkur engan þó vegurinn sé eins og hann er. Ef tíðin er góð er þó vel hægt að aka hann, miða akstur við aðstæður.”

Það gengur hægt að fá vegabætur á Vatnsnesi.

„Já, það hefur gengið dálítið hægt en nú eru menn byrjaðir að brýna verkfærin og ætla að bæta sjö kílómetra kafla. Það er í áttina.”

Skiltið við þjóðveg eitt – MYND: ÓJ

Það liggja tækifæri í menningartengdri ferðaþjónustu, er það ekki?

„Það má alltaf gera betur. Við viljum fá ferðamanninn til að fara víðar og stoppa lengur, en til að halda lengur í hann þarf að fjölga punktunum á hverjum stað. Það er svo mikil saga alls staðar, hún lifir í héraðinu, með fólkinu, en er kannski ekki sýnileg á yfirborðinu. Þetta er oft merkileg saga sem hefur fengið litla umfjöllun meðal þjóðarinnar. Þá blasir við að ferðamaðurinn á erfitt með að grafa þessa sögu upp. Við þurfum ekki að festa okkur í stóru sögunni. Það eru þessar litlu sögur, sem hægt er að tengja við einhverjar tóftir, þúfu eða stein, sem geta verið alveg jafn áhugaverðar. Þar er klárlega hægt að gera meira og betur.”

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …