Samfélagsmiðlar

„Hefur skort hleðsluinnviði og fyrirsjáanleika“

„Loksins þegar allur almenningur ætti að geta eignast rafbíl þá koma nýir skattar í veg fyrir það. Þetta eru röng skilaboð," segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju. Hann gagnrýnir að á Íslandi hafi skort samhæfða stefnu stjórnvalda um hvernig standa eigi að rafbílavæðingunni. Það vanti allan fyrirsjáanleika.

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju

Það markverðasta sem er að gerast í samgöngum nútímans eru umskiptin frá jarðefnaeldsneyti í vistvæna orkugjafa. Evrópuþjóðirnar hafa sett sér metnaðarfull markmið um rafbílavæðingu. Sprengihreyfillinn á að hverfa um miðjan næsta áratug. Þessi umbreyting bílaflotans er mikilvægur liður í því að ná kolefnishlutleysi árið 2050 og þar með draga úr loftslagsbreytingum. En hvernig miðar okkur Íslendingum í rafbílavæðingunni? Jón Trausti Ólafsson er framkvæmdastjóri Öskju:

„Að mörgu leyti vel en þó hefur vantað skýra langtímastefnu stjórnvalda um það hvernig við ætlum að standa að verki. Á nánast hverju ári hafa verið gerðar breytingar á ýmsu sem áhrif hefur á þessa þróun, á virðisaukaskatti og vörugjöldum. Nú um næstu áramót á aftur að gera breytingar. Enn er óvissa um það hvernig málum verður háttað á næstu árum. 

Mercedes-bílar í sölusal Öskju – MYND: ÓJ

Nýlega sótti ég ráðstefnu í Noregi þar sem fyrrverandi samgönguráðherra landsins, Ketil Solvik-Olsen, lýsti norsku leiðinni, sem er mjög ólík þeirri íslensku. Norðmenn tryggðu fyrirsjáanleika með því að setja langtímastefnu um að fara í rafbílavæðingu og byggja upp hleðsluinnviði í landinu í samræmi við þá stefnu. Þetta hafa þeir gert og eru komnir langt fram úr okkur og öllum öðrum þjóðum Evrópu. Noregur er fyrirmynd allra í heiminum varðandi rafbílavæðngu. Hér hefur því miður vantað verulega upp á samhæfingu íslenskra stjórnvalda varðandi það hvernig eigi að gera þetta. Hér hafa menn slegið úr og í á undanförnum árum.“

Mercedes EQS SUV – MYND: ÓJ

Yfirgnæfandi hluti seldra bíla í Noregi eru hreinir rafbílar. Sölutölur frá í maímánuði síðastliðnum sýna hversu langt Norðmenn eru komnir. Af heildarfjölda seldra bíla voru 80,7 prósent hreinir rafbílar en 5,3 prósent voru tengiltvinnbílar og svo 5,4 prósent knúnir öðrum vistvænum orkugjöfum. Þetta þýðir að vistvænir bílar hafa náð rúmlega 91 prósents markaðshlutdeild í Noregi. En við erum töluvert langt að baki frændum okkar.

„Við erum töluvert langt á eftir. Hlutfall rafbíla af heildarfjölda seldra bíla á Íslandi er 33,5 prósent. Rafbílar eru 55 prósent af heildarsölu til einstaklinga. Mjög stór hluti markaðarins eru bílaleigurnar og þar erum við langt á eftir en þar er hlutfall rafbíla 7,91 prósent. Ástæðurnar eru margar. Að einhverju leyti hefur vantað bíla, en ekki síst hefur skort hleðsluinnviði og fyrirsjáanleika í umhverfinu: að ljóst sé hvernig eigi að fjámagna kaup á þessum bílum. Við erum frekar að dragast aftur úr. Þetta hefur gerst í fleiri löndum, t.d. í Danmörku, þar sem farið var af stað en síðan bakkað og ekki staðið með verkefninu til langs tíma. Ísland er því miður að falla í þennan flokk.“

MYNDIR: ASKJA

Evrópusambandið er með heildarstefnu og þrýstir á aðildarríkin að standa sig. Norðmenn eru fyrir utan eins og við og eru bestir í bekknum. Hefðum við getað verið núna í sömu sporum og Norðmenn?

„Við gætum staðið í sömu sporum og Norðmenn og hefðum jafnvel átt að vera komnir lengra en þeir. Sérstaklega þykir mér slæmt að nú þegar eru að koma á markað rafbílar sem höfðað gætu til fólks sem er ekki með mestu fjárráðin þá á að skattleggja rafbílana! Loksins þegar allur almenningur ætti að geta eignast rafbíl þá koma nýir skattar í veg fyrir það. Þetta eru röng skilaboð. Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að hætta að selja bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030. Við hefðum átt að getað náð því markmiði miklu fyrr – og í miklu stærri skrefum. Þetta er fjárfesting fyrir þjóðina en á móti losnar hún við mikla mengun. Einmitt mengun frá samgöngum er það sem skiptir hvað mestu máli í mældum útblæstri, ekki síst á flutninga- og vörubílum. Nú er stigið lítið skref með mjög takmörkuðum 400 milljóna króna stuðningi við kaup á vistvænum þungaflutningabílum. Það er gott mál en bara lítið skref. Það vantar heildarsýnina. Hvernig ætla menn að standa að uppbyggingu innviða til að hægt sé að hlaða þessa stóru bíla?“

Fundur starfsmanna í Öskju – MYND: ASKJA

Vantar hreinlega að stjórnvöld fari í skipulagða vinnu til að móta heildarstefnu. Ertu sjálfur með lausnina?

„Ég held að menn ættu bara að fylgja fordæmi Norðmanna – móta framtíðarsýn og halda sig við hana. Standa við það sem er ákveðið. Segja að svona ætlum við að gera þetta á næstu fimm árum. Ef ekki er hægt að treysta því að stefnan sé óbreytt um næstu áramót – heldur eigi að fara í einhverja allt aðra átt – þá er ekki hægt að ætlast til þess að fyrirtækin í landinu séu að taka einhverja áhættu, bílaumboðin panti mikinn fjölda nýrra bíla í óvissu um hvað taki við.“

Enn eru það aðallega hinir betur stæðu sem ráða við að kaupa nýjan rafbíl. Gæti þetta þó ekki verið að breytast með fjölda nýrra bíla sem ekki síst Kínverjar eru að koma með á markað?

„Við sjáum núna að hagkvæmum rafbílum er að fjölga. Þeir eru þó enn töluvert dýrari en sambærilegir jarðefnaeldsneytisbílar. Þangað til að það breytist þarf að styðja við rafbílakaupin. Rekstrarkostnaður rafbílanna er miklu minni. Það getur kostað meðalfjölskyldu 45 til 60 þúsund krónur á mánuði að kaupa bensín á bílinn. Þá peninga mætti nota til að fjarmagna kaup á rafbíl. Á sama tíma þarf ríkið að fá sitt. Við skiljum alveg að setja verður einhver notkunargjöld á bíla til að standa straum af kostnaði við þjóðvegina. Það hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Tillögur um slík gjöld hafa lengi legið fyrir í fjármálaráðuneytinu en ekkert gerist. Það er enn verið að tala um að gera þetta.“

Á verkstæðinu – MYND: ASKJA

Það vantar líka mjög mikið upp á að rafbílinn geti verið áreiðanlegur kostur fyrir ferðafólk í landinu. 

„Drægni bílanna er alltaf að aukast. Hinsvegar hafa fæstir þeirra ferðamanna sem koma til Íslands vanist því að aka rafbíl í sínu heimalandi. Hlutdeild þeirra er víðast það lítil – þó hún sé að vaxa. Ferðamenn eru smeykir við að prófa rafbíl hér. Svo eru það hleðsluinnviðirnir. Ég hef ekið rafbíl um allt land og lent í margskonar vandræðum við að komast á milli hleðslustöðva, vera með rétta kortið, rétta appið – þurfa ekki að bíða of lengi. Þannig að ég skil mjög vel að þessi ferðamáti henti ekki enn sem komið er erlendum ferðamönnum á Íslandi. Þess vegna þarf virkilega að gefa í varðandi samhæfða uppbyggingu hleðsluinnviða á Íslandi – að stjórnvöld beiti sér fyrir því að þetta verði almennilega byggt upp til að fólk geti farið um landið.“

Mercedes EQB – MYND: ÓJ

Bílaframleiðendur hafa sjálfir stigið inn og sett upp hleðslustöðvar. Tesla reið á vaðið. Mercedes-Benz hefur boðað uppsetningu þeirra í Evrópu. Eigum við eftir að sjá meira af slíku?

„Bílaframleiðendur hafa almennt þá sýn að færa sig yfir í rafmagnið. Þetta er að gerast mjög hratt á öllum þeim mörkuðum þar sem aðgengi er að rafmagni. Í beinu framhaldi verður farið í framleiðslu vetnisbíla, fyrst flutningabíla og bíla sem þurfa að aka langar leiðir. Dæmi eru líka um að framleiðendur taki sig saman, eins og með Ionity-hleðslukerfið, sem er mjög gott. Vörubílaframleiðendur hafa líka sameinast um að byggja upp hleðslustöðvar. Það verða margir að leggja sitt af mörkum. Þó að Ísland sé að vissu leyti rafbílaland, meðal þeirra sem fimm landa sem lengst eru komin, þá er markaðurinn hér mjög lítill. Framleiðendur sjá enn ekki tækifæri í því að byggja upp hleðsluinnviði hér.“

Minnsti smábíllinn sem maður sá stundum á götum erlendra borga bar nafnið Smart og var afkvæmi samstarfs Daimler Benz og Swatch-úraframleiðandans. Nú eru Smart-bílar á leið til Íslands. 

„Askja hefur þegar hafið sölu á Smart. Margir þekkja merkið en nú birtist það á nýrri gerð bíla. Smart er í eigu Mercedes-Benz, sem hannar bílana, og Zhejlang Geely, eins stærsta rafbílaframleiðanda Kína, sem framleiðir bílana. Þetta er eingöngu rafknúnir bílar. Við fáum fjórhjóladrifna bíla, mjög rúmgóða með góðri veghæð. Þessir bílar eiga eftir að henta Íslandi frábærlega. Fyrstu bílarnir verða afhentir í júní. Ísland er meðal sex evrópskra markaðssvæða sem fá fyrstu bílana.“

Smart – MYND: ASKJA

Það hafa verið vandræði hjá bílaumboðunum að útvega nægilega marga rafbíla og anna þannig eftirspurn. Er það að lagast?

„Þetta hefur lagast mikið. Vandræðin eru ekki að baki og mun að einhverju leyti gæta út næsta ár. Það er þó orðið mun auðveldara en það var að fá bíla. Lækkandi olíuverð hefur dregið úr kostnaði við flutninga. Hráefniskostnaður sem rauk upp hefur lækkað. Framleiðsluhindranir hafa sem sagt lækkað á síðustu mánuðum og það hefur lagað stöðuna.“

Jón Trausti í sölusal Öskju – MYND: ÓJ

Askja selur bíla frá ólíkum framleiðendum: Mercedes-Benz, Kia í Suður-Kóreu og Honda í Japan. Svo er Smart frá Kína að bætast við. Þessir framleiðendur hafa haft ólíkar hugmyndir um framtíðina, t.d. hafði Honda lengi vantrú á framtíð rafbílanna á sama tíma og Kia var meðal þeirra sem var í forystu. Fer þetta allt vel saman?

„Þetta fer mjög vel saman. Það er fínt fyrir okkur að vera með ólíka framleiðendur. Stundum fer eitt merki upp en annað niður. Allir hafa þessir framleiðendur nú sett stefnuna á notkun rafmagns í bíla sína. Það tók Honda aðeins lengri tíma. Honda er hinsvegar gríðarlega flottur og sterkur framleiðandi og smíðar fleiri bíla en Mercedes-Benz og Kia til samans. Nú eru að koma nýir rafbílar frá Honda m.a. framleiddir í Kína fyrir Evrópumarkað. Fyrsti bílinn kemur þegar líður á haustið, flottur lítill jepplingur. Ég held að Honda eigi bjarta framtíð í rafbílaframleiðslunni.“

Kia EV9-GT Line Static – MYND: ASKJA

Þú nefnir jepplinginn. Það er eiginlega draumabíll Íslendingsins. Hér vilja margir eiga jeppling, eða jeppa. Það hefur vantað svoleiðis rafbíla.

„Íslendingar eiga hlutfallslega fleiri jeppa og jepplinga en flestar aðrar þjóðir. Lang stærsti markaðskimi okkar er sala á slíkum bílum. Það hefur dálítið vantað rafknúna jepplinga en nú eru þeir að koma. Smart er t.d. jepplingur, fjórhjóladrifinn bíll með 18 cm veghæð. Þá er Kia að koma með flottan jeppa, EV9 – og svo kynnum við í kvöld nýjan jeppa frá Mercedes-Benz, EQE, 100 prósent rafdrifinn með hátt í 600 km drægni. Við verðum því komin með rafdrifna jeppa og jepplinga frá öllum okkar framleiðendum á þessu ári.“

Mercedes-EQE SUV – MYND: MERCEDES-BENZ

Það vantar þá bara hleðslustöðvar við veiðihúsin!

„Við viljum sjá fleiri rafhleðslustöðvar á landinu – ekki síst við veiðihúsin.“

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …