Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, vinna að undirbúningi að orkuskiptum í reksti sínum með innleiðingu rafdrifinna hópbifreiða í sinn flota. Á síðasta ári tók félagið í notkun rafdrifna hópbifreið sem sér um akstur viðskiptavina frá Keflavíkurflugvelli að nálægum bílaleigum.
Þar á meðal að bílaleigunni Enterprise-Rent-A-Car sem Kynnisferðir reka en þar geta viðskiptavinir nú leigt Tesla rafbíla því tíu slíkir voru teknir í notkun fyrr á árinu. Þeir eru sérstaklega ætlaðir í leigu til ferðamanna en til að auðvelda þeim hópi ferðalagið um landið á rafbílum eru í boði sérstakir “Self-drive” pakkar þar sem viðskiptavinir fá tilbúna dagskrá fyrir ferðalagið sitt og þar kemur fram hvað þau geti gert á hverjum degi og hvar hægt sé að hlaða bílinn í ferðalaginu.
Kynnisferðir eiga einnig fyrirtækið Garðaklett ehf. sem sérhæfir sig í rekstri dráttarbíla. Í síðasta mánuði fékk félagið afhentan einn af fyrstu rafdrifnu dráttarbílunum sem komu til landsins og er bíllinn þegar farinn að draga gáma fyrir Eimskip á höfuðborgarsvæðinu. Innflytjendur geta þar með lækkað kolefnissport sitt með þessari nýjung.
Loks hafa Kynnisferðir fest kaup á tveimur rafdrifnum hópbifreiðum sem munu sinna akstri frá BSÍ og til hótela í miðborginni. Samhliða þessu verður sett upp hraðhleðslustöð á BSÍ fyrir vagnana. Ef bílarnir reynast vel er stefnt að fjölgun þeirra að því segir í tilkynningu. En markmið Kynnisferða er að yfir 80 prósent af þeim bílum sem sinna þessari keyrslu verði orðnir rafdrifnir fyrir lok næsta árs.
„Við höfum séð mjög hraða þróun á undanförnum árum í rafdrifnum fólksbílum. Með nýrri tækni í rafhlöðum sjáum við nú einnig hraða þróun í stærri bílum. Drægni stærri bíla fara bráðlega að nálgast það sem við sjáum í fólksbílum og því er þetta loksins að verða raunverulegu kostur, segir Björn Ragnarsson, forstjóri Kynnisferða, í tilkynningu.
Björn bætir því við að innviðir hér á landi eigi enn mjög langt í land og litlir hvatar hafi verið í boði frá stjórnvöldum fyrir þá sem fjárfesta í rafknúnum ökutækjum þó eitthvað sé að rofa til í þeim málum að hans mati.
„Þessir bílar eru rúmlega tvöfalt dýrari en sambærilegir dísilbílar. Rafmagnstæknin á einnig eftir að sjást í öðrum tækjum eins og fjórhjólum og vélsleðum. Við fylgjumst náið með þessari þróun og ætlum við okkur að vera í fararbroddi í orkuskiptum hvort sem kemur að bílum eða ökutækjum í afþreyingu.“