Samfélagsmiðlar

Allir út að hjóla

Borgarstjóri Reykjavíkur boðar engar skyndilausnir á miklum og vaxandi umferðarþunga í borginni. Breyta þurfi ferðavenjum fólks. Túristi skilur þetta þannig að þau sem ekki vilja bíða eftir bættum strætósamgöngum verði að hjóla eða ganga leiðar sinnar.

Skútur og hjól

Tímanna tákn: Túristar, skútur og hjól

Léttum á umferðinni var yfirskrift fundar sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í morgun. Tilefnin eru næg. Borgin er að stækka hratt, íbúum hefur fjölgað mikið, og því hafa fylgt töluverðir vaxtarverkir. Ef ekkert róttækt gerist herðist á öllum hnútum.

Venjuleg síðdegisumferð – MYND: ÓJ

Mikið og vaxandi umferðarálag er meðal þess sem fylgt hefur uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu öllu. Á morgnana og síðdegis liggja óralangar raðir einkabíla eftir öllum helstu stofnbrautum. Það tekur oft drjúgan tíma, þekkingu á gatnakerfinu – og stundum dálítinn skammt af ákveðni – að komast leiðar sinnar um þennan bílafrumskóg. Bílaumferðin er mjög mengandi eins og finna má í kyrrlátu veðri.

Einhvern tímann í framtíðinni á þetta allt að batna – þegar Borgarlínan kemur. Þangað til eiga of strjálar eða ekki nógu aðgengilegar strætósamgöngur að létta á þunganum – nema fólk klæði sig vel og fari leiðar sinnar fótgangandi, hjólandi eða á rafskútum. 

Erlendir ferðamenn eru meðal þeirra sem kjósa að fara um borgina hjólandi – MYND: ÓJ

En hvernig verður létt á umferðinni í Reykjavík?

„Það er í raun bara eitt svar við því: Með því að breyta ferðavenjum,“ sagði Dagur B. Eggertsson á fundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Í því sambandi vísaði hann í samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins árið 2019. Stefna átti að fjárfestingum í samgönguinnviðum og efla almenningssamgöngur – til að létta á umferðinni. Nú er verið að uppfæra sáttmálann, t.d. út frá stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum, og vonast borgarstjóri til að þeirri vinnu ljúki fljótlega. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnir sýn Reykjavíkurborgar í umferðarmálum – MYND: Vefútsending

Það liggur á að þróa samgöngulausnir í Reykjavík og nágrenni til að koma í veg fyrir algjöra stíflu – að allt stöðvist á annatímum. Á síðustu 10 árum hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 50 þúsund. Búist er við að mikil fjölgun haldi áfram næstu áratugina. Það er engan veginn hægt að sjá fyrir sér að gamla lausnin – að mæta íbúafjölgun með fleiri einkabílum – geti gengið upp í framtíðinni, eins og borgarstjóri lagði áherslu á í máli sínu.

Dagur benti líka á þá nýju breytu í dæminu að þriðji hver bíll sem fer um Reykjanesbrautina á annatíma er bílaleigubíll. Þeim bílum er mörgum ekið inn í sjálfa höfuðborgina. Það eru nefnilega ekki bara íbúarnir sem valda vaxandi umferðarálagi. Erlendir ferðamenn gera það líka. Vegagerðin gerir ráð fyrir að bílaumferðin á Reykjanesbraut verði tvöfalt meiri en nú árið 2043 – ef ekki verður búið að leysa flutningsmálin með einhverri tegund lestarsamgangna. 

MYND: Vefútsending

Það er erfið staða í samgöngumálum borgarinnar og þolinmæði margra er hreinlega brostin. Auðvitað tekur tíma að fullmóta og koma í verk grundvallar breytingum eins og fólki á að skiljast að felist í Borgarlínunni. En hvenær kemur hún?

Borgarstjóri segir að Borgarlínan sé ekki bara hugmynd á blaði og bendir á framkvæmdir við Arnarnesveg og Breiðholtsbrautina, verið sé að hanna Sæbrautarstokk og Borgarlínulotu 1. Þá hafi verið kynntar breytingar á legu umferðaræða við Bíustaðaveg og Reykjanesbraut. Unnið sé að því að samræma þær hugmyndir framtíðarsýninni um Borgarlínuna. Þá standi yfir frumhönnun á því að færa Miklubraut í stokk – og bera þann möguleika saman við að það að færa hana í göng. Einnig sé unnið að umhverfismati og aðalskipulagsbreytingum varðandi Sundabraut. Tveir kostir eru í stöðunni: göng eða brú. 

„Við erum stödd þar í dag að mat á umhverfisáhrifum Borgarlínu og breyting aðalskipulags vegna hennar er á leiðinni, sem eru gríðarlega mikilvæg og góð tíðindi. En Borgarlínan er meira en samgöngumál, hún er líka skipulagsmál. Hún gerir okkur kleift að byggja þéttar og meira – þar sem við annars þyldum minni byggð. Þannig að þetta er líka risastórt skipulagsmál og húsnæðismál,“ sagði borgarstjóri og bætti við að um leið væri Borgarlínan risastórt loftslagsmál vegna þess að 70 prósent af losun í Reykjavík væri vegna vegasamgangna. Forsenda fyrir því að Ísland næði markmiðum sínum í loftslagsmálum væri að koma Borgarlínunni á laggir.

„Það er ekki hægt að halda því fram að Ísland hafi trúverðuga sýn eða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ef ekki væri fyrir samgöngusáttmálann. Og raunar má spyrja hvort hann sé nógu róttækur,“ sagði borgarstjóri.

Líklega yppta einhverjir öxlum og spyrja: Væri ekki ráð að efla strætisvagnasamgöngur STRAX?

Hvað sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, um strætó?

MYND: Vefútsending

„Nú erum við komin að þeim tímapunkti að við förum að kynna deiliskipulag fyrstu lotu Borgarlínu innan tíðar. Það sem við tölum miklu minna um, en er í heildarsamhenginu ekki síður mikilvægt, er hið nýja leiðanet strætó. Áherslan á strætó og strætósamgöngur í borgum um allan heim hefur verið að aukast mjög mikið í umræðunni undanfarin ár. Við erum með áætlun sem hefur verið kynnt um nýtt leiðanet, sem felur í sér þá þjónustuaukningu sem þarf til þess að gera almenningssamgöngur að frábærum valkosti og auka þjónustuna við fólk víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Nú er staðan sú að við erum að bjóða um 19 prósentum íbúa upp á þjónustu í leiðakerfi á a.m.k. 10 mínútna fresti á annatíma – en förum yfir í 66 prósent íbúa með nýju leiðakerfi. Þetta er ekkert annað en bylting! Þess vegna er þetta eitt af grundvallaratriðunum í endurskoðuninni sem við vinnum að núna – að ná ekki bara utan um framkvæmdapakkann heldur líka rekstrarhlutann í samvinnu sveitarfélaganna og ríkisins til framtíðar.“

Stoppistöð á Miklubraut mynduð af göngubrú utan annatíma – MYND: ÓJ

Borgarstjóri svaraði með sínum hætti gagnrýni um að öll séu þessi plön inni í framtíðinni á meðan knýjandi þörf væri á aðgerðum nú þegar.

„Við erum ekki að bíða eftir þessu – í þeim skilningi að við séum ekki að bæta ýmsa hluti. Við höfum bætt mjög í tíðnina á undanförnum árum og höfum snúið fækkun farþega í farþegauakningu á síðustu 10 árum – býsna bratt. Núna erum við að bæta aðgengi víða á biðstöðvum um alla borg.“

Svo nefndi borgarstjóri aukna notkun reiðhjóla og fjölgun fótgangdi fólks – og ýmsar aðgerðir sem unnið hefur verið að til að gera fólki auðveldara að komast þannig um borgina.

Þau sem biðu eftir því að borgarstjóri kynnti skyndilausn á umferðavanda borgarinnar ættu að geyma bílinn heima við hús eftir helgi og hjóla þess í stað eða ganga í vinnuna og skólann. 

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …