Samfélagsmiðlar

Ríkasta eina prósentið er með stærra kolefnisspor en tveir þriðju hlutar mannkyns

Þau ofurríku voru ábyrg fyrir um 16 prósentum af kolefnislosun ársins 2019. Hjálparsamtökin Oxfam segir að það hlutfall dugi til að valda dauða 1,3 milljóna manna vegna hita. Skýrsla samtakanna er birt í aðdraganda COP28 í Dúbæ.

Fundarstaður COP28 í Dúbæ

Skýrsla samtakanna er birt í aðdraganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum,. og hefur vakið töluverða athygli. Vafalaust eiga einhverjir eftir að draga í efa þá aðferðafræði sem beitt beitt er og þá ekki síður þær ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðum.

COP28 hefst 30.nóvember og stendur til 12. desember.

Megin niðurstöður skýrslu Oxfam eru sláandi – og umhugsunarverðar: 

  • 77 milljónir ofurríkra, tekjuhæsta eina prósentið, voru ábyrgir fyrir 16 prósentum af allri neyslutengdri kolefnislosun árið 2019, sem er meira en svarar til allrar losunar frá bílum í heiminum. Ríkustu 10 prósentin voru ábyrg fyrir 50 prósentum af losuninni.
  • Það tæki um 1.500 ár fyrir einhvern þeirra sem telst til hinna 99 prósentanna að losa jafn mikið og einn milljarðamæringur í eins-prósents-hópnum gerir á einu ári. 
  • Frá 1990 hefur ríkasta eina prósentið losað tvisvar sinnum meira af kolefni en fátækari helmingur jarðarbúa. 
  • Kolefnislosun ríkasta eina prósentsins stefnir í að verða 22 sinnum meiri en samrýmanleg er markmiðum um að hitastig hækki ekki meira en um 1,5 gráður fyrir 2030, eins og kveður á um í Parísarsamkomulaginu. Öfugt við þetta, þá stefnir í að losun fátækari helmings jarðarbúa verði hlutfallslega aðeins fimmtungur af þeirri losun sem una má við til að tryggja að hlýnun fari ekki fram úr 1,5 gráðu viðmiðinu.  
  • Árleg kolefnislosun ríkasta eina prósentsins gerir að engu umhverfislegan ávinning af vistvænni orkuöflun með nærri einni milljón vindmylla. 
  • Fórnarlömb flóða eru sjö sinnum fleiri í löndum þar sem ójafnrétti er mest heldur en þar sem tyekjur eru jafnari. 

Einhver gæti freistast til að gera lítið úr þessum niðurstöðum í ljósi þess hver birtir þær. Orðspor Oxfam er auðvitað laskað eftir hneykslismál síðari ára, þar sem flett var ofan af kynferðisbrotum starfsmanna samtakanna gagnvart skjólstæðingum í neyð á Haití og víðar. Margir stjórnendur og ábyrgðaraðilar voru látnir fjúka og unnið var að ýmsum endurbótum til að reisa við nafn þessara víðfeðmu hjálparsamtaka.

Ljót saga um misbeitingu valds, kynferðisofbeldi, yfirhylmingu og spillingu hindraði hinsvegar ekki marga virta fjölmiðla að birta niðurstöður þessarar skýrslu Oxfam um kolefnislosun og ábyrgð ríka fólksins á henni. Nægir þar að nefna The Guardian, Le Monde, Washington Post og CNBC. Þessir fjölmiðlar og aðrir hafa birt og lagt út af þessum niðurstöðum og þær eru vissulega umhugsunarverðar í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar COP28 í Dúbæ. Þar er nóg af milljarðamæringum sem skilja eftir sig risastórt vistspor. Það á eftir að koma í ljós hvort olíufurstar og aðrir ofurríkir taki skilaboðin til sín.

Forseti COP28, Ahmed Al Jaber, tækni- og iðnaðarráðherra í Sameinuðu arabísku furstadæmunum – MYND: COP28 UAE

Í skýrslunni er byggt á rannsóknum sænsku umhverfismálastofnunarinnar SEI (Stockholm Environment Institute). Sérfræðingar SEI hafa áætlað neyslutengda losun ólíkra tekjuhópa fólks í heiminum og leiðir sú athugun í ljós gríðarlegan mun á vistspori þeirra ofurríku – og allra hinna. Lífsstíll hinna ofurríku felur í sér ferðalög í einkaþotum og þyrlum – en líka fjárfestingar í starfsemi sem ábyrg er fyrir stærstum hluta þeirrar kolefnislosunar sem stuðlar að loftslagsbreytingum. 

Ráðstefnugestir á COP28 eru hvattir til að nota „almenningssamgöngur“ – MYND: COP28 UAE

Rannsókn SEI sýnir líka hversu misjafnlega loftslagsbreytingar leika ólíka hópa fólks. Þau sem búa við fátækt, konur sérstaklega, frumbyggjar, og samfélög sem nánast engri losun skila, verða verst úti og hafa fæst ráð til að bregðast við ytri ógnum – eða að ná sér aftur á strik eftir umhverfisáföll.  

Með hlýnandi andrúmslofti blasir við að dauðsföllum mun fjölga mjög vegna ofurhitans – sérstaklega í fátækari löndum heims. Í skýrslunni kemur fram að óhófleg losun ríka eina prósentsins muni hafa í för með sér að 1,3 milljónir manna látist af völdum hita á þessum áratug, eða sem svarar íbúafjöldanum í Dublin. 

Nú er spurningin hvort ráðandi öflum í heiminum tekst á elleftu stundu að gera jörðina lífvænlegri fyrir 99 prósent jarðarbúa – og þá vonandi að einhverju leyti á kostnað eina prósentsins ofurríka.

Kona og barn sem tilheyra 99 prósentum jarðarbúa gróðursetja – MYND: COP28 UAE

Nýtt efni

Stærsti bílaframleiðandi heims lætur ekki haggast þó hann hafi mætt nokkru andstreymi að undanförnu. Hluthafafundur Toyota endurnýjaði traust sitt á 10 manna stjórn fyrirtækisins í dag, þar á meðal á formanninum, Akio Toyoda, sem verið hefur í forystusveit fjölskyldufyrirtækisins frá aldamótum. Hann vék úr starfi forstjóra fyrir rúmu ári og varð stjórnarformaður. Nú hefur þessi …

Hér á landi hefur fjöldi erlendra vegabréfa við vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli verið helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni. Á hinum Norðurlöndunum er ekki hægt að stunda svona talningu á flugvöllum enda margir sem koma landleiðina. Gistinætur útlendinga eru því aðalmælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustunni hjá frændum okkar og samtals voru þær 15,3 milljónir …

Búist er við að 38 prósenta hækkun tolla á innflutta rafbíla frá Kína hægi á sókn framleiðenda þar inn á Evrópumarkað. Hins vegar verður það aðeins tímabundið. Kínverskir framleiðendur hafa þegar náð sterkri stöðu í tæknimálum og getu til að framleiða á hagkvæman hátt - þeir ráða yfir allri aðfangakeðju framleiðslu sinnar. Að auki munu …

Fyrstu helgina í júní stefndi í verkfall flugmanna Norwegian í Noregi en samningar tókust á elleftu stundu. Flugfélagið hafði áður samið við danska og spænska flugmenn en þeir norsku kröfðust hlutfallslega meiri hækkunar og vísuðu til þess að laun þeirra stæðust ekki samanburð við starfsbræður sína í Evrópu vegna þess hve veik norska krónan er. …

„Það umfangsmikið verkefni að opna nýja álmu við flugstöð. Byggingin þarf að uppfylla fjölmargar kröfur yfirvalda , m.a. um innréttingar, eldvarnir, umhverfiskröfur og vinnuaðstæður. Það þarf líka að setja upp flókinn tækjabúnað, sem þarnast sérhæfðrar þekkingar og margra stunda þjálfun ef hann á að skila sínu hlutverki. Það gildir um nýjan öryggisbúnað flugvallarins," segir í …

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Hyundai veðjar á fjórða stærsta bílamarkað heims, Indland. Stærstu markaðirnir eru Kína, Bandaríkin og Japan - en Indlandsmarkaður vex hratt og mikil sala er í litlum og sparneytnum gerðum bíla. Á síðasta ári keypti dótturfélag Hyundai á Indlandi verksmiðjur General Motors í Maharashtra í vestanverðu landinu með það fyrir augum að auka framleiðslu …

Icelandair sagði 82 starfsmönnum upp fyrir síðustu mánaðamót en þær uppsagnir náðu ekki til áhafna flugfélagsins. Nú er hins vegar komið að þeim hópi því fyrir helgi fengu 57 flugmenn uppsagnarbréf og eins voru 26 flugstjórar færðir í stöðu flugmanna. Við þá breytingu lækka laun viðkomandi um fimmtung samkvæmt því sem FF7 kemst næst.  Flugmönnum …