Samfélagsmiðlar

Ríkasta eina prósentið er með stærra kolefnisspor en tveir þriðju hlutar mannkyns

Þau ofurríku voru ábyrg fyrir um 16 prósentum af kolefnislosun ársins 2019. Hjálparsamtökin Oxfam segir að það hlutfall dugi til að valda dauða 1,3 milljóna manna vegna hita. Skýrsla samtakanna er birt í aðdraganda COP28 í Dúbæ.

Fundarstaður COP28 í Dúbæ

Skýrsla samtakanna er birt í aðdraganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, í Dúbæ í Sameinuðu arabísku furstadæmunum,. og hefur vakið töluverða athygli. Vafalaust eiga einhverjir eftir að draga í efa þá aðferðafræði sem beitt beitt er og þá ekki síður þær ályktanir sem dregnar eru af niðurstöðum.

COP28 hefst 30.nóvember og stendur til 12. desember.

Megin niðurstöður skýrslu Oxfam eru sláandi – og umhugsunarverðar: 

  • 77 milljónir ofurríkra, tekjuhæsta eina prósentið, voru ábyrgir fyrir 16 prósentum af allri neyslutengdri kolefnislosun árið 2019, sem er meira en svarar til allrar losunar frá bílum í heiminum. Ríkustu 10 prósentin voru ábyrg fyrir 50 prósentum af losuninni.
  • Það tæki um 1.500 ár fyrir einhvern þeirra sem telst til hinna 99 prósentanna að losa jafn mikið og einn milljarðamæringur í eins-prósents-hópnum gerir á einu ári. 
  • Frá 1990 hefur ríkasta eina prósentið losað tvisvar sinnum meira af kolefni en fátækari helmingur jarðarbúa. 
  • Kolefnislosun ríkasta eina prósentsins stefnir í að verða 22 sinnum meiri en samrýmanleg er markmiðum um að hitastig hækki ekki meira en um 1,5 gráður fyrir 2030, eins og kveður á um í Parísarsamkomulaginu. Öfugt við þetta, þá stefnir í að losun fátækari helmings jarðarbúa verði hlutfallslega aðeins fimmtungur af þeirri losun sem una má við til að tryggja að hlýnun fari ekki fram úr 1,5 gráðu viðmiðinu.  
  • Árleg kolefnislosun ríkasta eina prósentsins gerir að engu umhverfislegan ávinning af vistvænni orkuöflun með nærri einni milljón vindmylla. 
  • Fórnarlömb flóða eru sjö sinnum fleiri í löndum þar sem ójafnrétti er mest heldur en þar sem tyekjur eru jafnari. 

Einhver gæti freistast til að gera lítið úr þessum niðurstöðum í ljósi þess hver birtir þær. Orðspor Oxfam er auðvitað laskað eftir hneykslismál síðari ára, þar sem flett var ofan af kynferðisbrotum starfsmanna samtakanna gagnvart skjólstæðingum í neyð á Haití og víðar. Margir stjórnendur og ábyrgðaraðilar voru látnir fjúka og unnið var að ýmsum endurbótum til að reisa við nafn þessara víðfeðmu hjálparsamtaka.

Ljót saga um misbeitingu valds, kynferðisofbeldi, yfirhylmingu og spillingu hindraði hinsvegar ekki marga virta fjölmiðla að birta niðurstöður þessarar skýrslu Oxfam um kolefnislosun og ábyrgð ríka fólksins á henni. Nægir þar að nefna The Guardian, Le Monde, Washington Post og CNBC. Þessir fjölmiðlar og aðrir hafa birt og lagt út af þessum niðurstöðum og þær eru vissulega umhugsunarverðar í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar COP28 í Dúbæ. Þar er nóg af milljarðamæringum sem skilja eftir sig risastórt vistspor. Það á eftir að koma í ljós hvort olíufurstar og aðrir ofurríkir taki skilaboðin til sín.

Forseti COP28, Ahmed Al Jaber, tækni- og iðnaðarráðherra í Sameinuðu arabísku furstadæmunum – MYND: COP28 UAE

Í skýrslunni er byggt á rannsóknum sænsku umhverfismálastofnunarinnar SEI (Stockholm Environment Institute). Sérfræðingar SEI hafa áætlað neyslutengda losun ólíkra tekjuhópa fólks í heiminum og leiðir sú athugun í ljós gríðarlegan mun á vistspori þeirra ofurríku – og allra hinna. Lífsstíll hinna ofurríku felur í sér ferðalög í einkaþotum og þyrlum – en líka fjárfestingar í starfsemi sem ábyrg er fyrir stærstum hluta þeirrar kolefnislosunar sem stuðlar að loftslagsbreytingum. 

Ráðstefnugestir á COP28 eru hvattir til að nota „almenningssamgöngur“ – MYND: COP28 UAE

Rannsókn SEI sýnir líka hversu misjafnlega loftslagsbreytingar leika ólíka hópa fólks. Þau sem búa við fátækt, konur sérstaklega, frumbyggjar, og samfélög sem nánast engri losun skila, verða verst úti og hafa fæst ráð til að bregðast við ytri ógnum – eða að ná sér aftur á strik eftir umhverfisáföll.  

Með hlýnandi andrúmslofti blasir við að dauðsföllum mun fjölga mjög vegna ofurhitans – sérstaklega í fátækari löndum heims. Í skýrslunni kemur fram að óhófleg losun ríka eina prósentsins muni hafa í för með sér að 1,3 milljónir manna látist af völdum hita á þessum áratug, eða sem svarar íbúafjöldanum í Dublin. 

Nú er spurningin hvort ráðandi öflum í heiminum tekst á elleftu stundu að gera jörðina lífvænlegri fyrir 99 prósent jarðarbúa – og þá vonandi að einhverju leyti á kostnað eina prósentsins ofurríka.

Kona og barn sem tilheyra 99 prósentum jarðarbúa gróðursetja – MYND: COP28 UAE

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …