Samfélagsmiðlar

„Ég er eiginlega orðlaus!“ Næsti íslenski nóbelsverðlaunahafinn?

„Nú er svo komið að aðeins einn miðill hefur afgerandi áhrif á sölu bóka fyrir jól og það er sjónvarpsþátturinn Kiljan undir stjórn Egils Helgasonar. Á tveimur mínútum getur skáldsaga annaðhvort dáið með öllu eða fengið nýtt líf," segir Snæbjörn Arngrímsson í frásögn af viðbrögðum við lofsamlegum dómum um DJ Bamba.

Ingibjörg Iða Auðunardóttir, gagnrýnandi í Kiljunni - MYND: Kiljan/RÚV

Íslenskur bókamarkaður hefur nokkra sérstöðu á heimsvísu þar sem um það bil 80 prósent af allri bóksölu fer fram á þrjátíu dögum; frá 24. nóvember til 24 desember. Þetta hefur sína kosti og sína galla. Mikil bókastemmning getur skapast fyrir jólin þar sem þorri almennings verður var við bókaiðnaðinn; bókaauglýsingar eru áberandi, rithöfundar keppast við að vekja athygli á bókum sínum á samfélagsmiðlum, vinnustaðir og bókasöfn skipuleggja upplestra úr nýjum bókum. Þessi óvenjulegu læti í kringum bóksöluna vekja meira að segja athygli út fyrir landssteinana. Bandaríkjamenn hafa til dæmis uppgötvað orðið „jólabókaflóð“ og nota það sjálfir svo óspart að sjónvarpsstöðin CNN hafði samband við formann íslenskra bókaútgefanda í vikunni til að fá nánari skýringar á þessu fyrirbæri.

Þessi stutti sölutími bóka gerir það að verkum að margar bækur týnast gersamlega í flóðinu, fara á bólakaf og koma aldrei upp á yfirborðið, höfundinum til sárrar gremju. Íslenskir útgefendur verða því að vera á tánum og nota milljónir í auglýsingar til að vekja athygli á bókum sínum og halda á lofti þeim verkum sem þeir telja sig geta selt bókaþjóðinni.

Mun minna fer fyrir bókmenntagagnrýni hin síðari ár, dagblöðum fækkar og plássið sem fjölmiðlar gefa bókadómum verður nokkuð minna. Eins hefur þeim ritdómurum sem hafa veruleg áhrif og þyngd fækkað. Nú er svo komið að aðeins einn miðill hefur afgerandi áhrif á sölu bóka fyrir jól og það er sjónvarpsþátturinn Kiljan undir stjórn Egils Helgasonar. Á tveimur mínútum getur skáldsaga annaðhvort dáið með öllu eða fengið nýtt líf. Á þessum stutta tíma sem Kilju-gagnrýnendurnir hafa til að koma boðskap sínum á framfæri er eins gott fyrir þá að vera afgerandi í framsetningu sinni og helst koma með staðhæfingar sem vekja áhorfendur upp frá blundi sínum í sjónvarpssófanum.

Auður Ava Ólafsdóttir – MYND: Benedikt bókaútgáfa

Í Kiljuþættinum á miðvikudaginn var bók Auðar Övu Ólafsdóttur, DJ Bambi,  tekin fyrir. Gengi bókarinnar hefur verið mjög gott enda Auður Ava vinsæll höfundur. Sala nýju skáldsögunnar hefur þó verið nokkuð minni en á síðustu bókum höfundar. Til dæmis var bókin öllum að óvörum ekki inni á síðasta heildarbóksölulista FÍBÚT sem er sá víðtækasti af öllum sölulistum sem birtast. Veltu áhugamenn um bókamarkaðinn  fyrir sér hvað gæti orsakað þetta hik í sölu bókarinnar. Sumir nefndu að titilinn DJ Bambi væri of óvenjulegur, aðrir töldu að óvenju skammt liði á milli útgáfu bóka Auðar í þetta sinn (eitt ár í stað tveggja) og þriðji hópurinn taldi að kannski truflaði viðfangsefni sögunnar bókakaupendur. Annar ritdómarinn í Kiljunni  Ingibjörg Iða Auðunardóttir, orðaði þessar efasemdir svo: „ …en maður er samt með varnagla þegar Auður Ava fer að skrifa bók um transkonu.“

En hrifningin fór ekki á milli mála. „Ég er eiginlega orðlaus,“ sagði gagnrýnandinn Ingibjörg Iða og menningarblaðamaðurinn Kolbrún Bergþórsdóttir bætti um betur. „Þetta er algjörlega frábær skáldsaga … meistaraverk.“ Og það var ekki nóg að kalla bókina meistaraverk heldur spilaði  Kolbrún Bergþórsdóttir út sínu hæsta trompi í ár og benti á að Auður Ava Ólafsdóttir ætti að verða næsti Nóbels-verðlaunahöfundur Íslendinga.

Áhrifin létu ekki á sér standa. Strax daginn eftir útsendingu Kiljunnar var nánast gert áhlaup á bókabúðir landsins. Bókaunnendur streymdu að bóksölustöðum til að kaupa DJ Bamba-bók Auðar Övu Ólafsdóttur og áttu starfsmenn bókabúða fullt í fangi með að bæta á stæður bókarinnar á búðarborðunum. „Ég hef sjaldan lent í öðru eins,“ sagði starfsmaður Eymundsson með jólasveinahúfu á kollinum sem var að fylla á bókastæðurnar þegar blaðamann FF7 bar að garði. „Það eru bara allir að kaupa bókina hennar Auðar Övu. Fólk kemur  inn í búðina og án þess að líta til hægri eða vinstri, stormar það að bókaborðinu til að finna þessa bók, DJ Bamba, og svo beint að búðarkassanum til að borga uppsett verð. Það er ekkert hik. Það er bara DJ Bambi sem fólk vill næla sér í.“

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …