Samfélagsmiðlar

Mikilvægt fyrir frumkvöðla að fá stuðning og ráðgjöf

„Frumkvöðlastarfið er alltaf hark sem krefst bæði þrautseigju og mikillar ástríðu," segir Svava Hrönn Guðmundsdóttir, sinnepsframleiðandi. Þegar hún fluttist heim til Íslands árið 1982 eftir búsetu í Danmörku og Svíþjóð saknaði Svava sinnepsins sem þar var á boðstólum. Hún tók málin fljótlega í sínar hendur og hóf að búa það til sjálf fyrir fjölskylduna. Í dag framleiðir hún sex bragðtegundir af sinnepi og er stjórnarformaður Samtaka smáframleiðenda matvæla.

Sinnepið frá Svövu - í sex gerðum - MYND: Arna Petra

„Ég var svo sem ekki mikil sinnepsmanneskja þar til ég kynntist skánska sinnepinu í Svíþjóð. Við tókum eitthvað af því með okkur þegar að við fluttum heim. Svo var það fyrir ein jólin að ekki var til skánskt sinnep á heimilinu. Sinnepið var alveg ómissandi við að glassera jólaskinkuna, svo bóndinn spurði mig hvort ég gæti ekki bara búið það til,“ útskýrir Svava.

Sjálf hafði hún lært að búa til sinnep í sænsku apóteki, þar sem það var framleitt fyrir jólin á þeim tíma, svo hún fór að prófa að búa það til sjálf. Þetta var fljótlega eftir flutningana heim til Íslands, en það var svo árið 2014 að Svava fór út í sjálfstæðan rekstur. 

„Ég missti vinnuna í hruninu og í kjölfarið fór ég í fjarnám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Þar áttum við meðal annars að gera viðskiptaáætlun fyrir fyrirtæki. Ég gerði eina slíka fyrir sinnepsframleiðslu og svo þróaðist þetta einhvern vegin áfram. Ég fór líka á námskeið hjá Vinnumálastofnun þar sem ég var hvött til að fara í Gulleggið og sótti um styrk hjá atvinnumálum kvenna. Svo fór ég af stað. Fram að þessu hafði þetta bara verið áhugamál en ég ákvað að taka stökkið. Núna er ég orðin eftirlaunaþegi og það er gott að hafa eitthvað að gera.“

Svava Hrönn Guðmundsdóttir með framleiðsluna – MYND: Svava sinnep

Tenging við íslenskt hráefni mikilvæg
Svava framleiðir nú sex bragðtegundir af sinnepi en upprunalega sinnepið, Sterkt sætt, er það sem hún útbjó fyrst og líkist mest sænsku fyrirmyndinni.

„Mig langaði til að tengja þetta meira inn í íslensk hráefni. Vinkona mín var að framleiða bláberjasnafs en það gekk illa hjá henni að fá styrki til þess, því það er gríðarleg samkeppni á þeim markaði. Við útbjuggum pakkningu með bláberjasnafs og sinnepi með aðalbláberjum og blóðbergi og einnig pakkningu af snafsi og sinnepi með kúmeni og ákavíti og sendum inn styrkumsókn, en fengum engan styrk. En ég er enn að framleiða þessar tvær bragðtegundir. Mér hafði líka verið bent á að mikið af rabarbara færi til spillis og út frá því þróaði ég rabarbarasinnepið. Ég fór svo í samstarf við Eimverk eftir að Flóki viskí kom til sögunnar því mig hafði langað til að gera viskísinnep í ætt við það sem þeir eru með í Skotlandi, en vildi ekki gera það nema með íslenskri tengingu.“ 

Lakkríssinnepið komið til að vera
Lakkríssinnep kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir og segir Svava að þarna hafi verið um algjöra tilraunstarfsemi að ræða. Hún tók það með sér á matarmarkaðinn í Hörpu og bauð fólki að smakka og kjósa um hvort hún ætti að halda framleiðslunni áfram.

„Tilgangurinn með þessu var eiginlega að sannreyna að lakkrís og sinnep færi ekki saman, en niðurstaðan varð sú að ég er enn að framleiða þessa vöru. Það sem hefur líka gengið mjög vel er að selja litlar krukkur í tvennupakkningum, 50 grömm í hvorri krukku. Það hentar vel fyrir fólk sem er bara að prófa, þá sem búa einir og líka fyrir ferðamennina og hefur gengið ljómandi vel.“

Íslenskt sinnep á kex – MYND: Arna Petra

Mikilvægur vettvangur fyrir smáframleiðendur
Svava leggur áherslu á mikilvægi þess að frumkvöðlar í matvælaframleiðslu eigi bakland þangað sem þeir geta sótt stuðning og ráðgjöf, en hún hefur verið í stjórn Samtaka smáframleiðenda matvæla frá stofnun þeirra árið 2019 og formaður síðastliðin tvö ár. 

„Samtökin eru núna með á þriðja hundrað meðlimi og Beint frá býli er aðildarfélag.  Samtökin miðla gagnlegum upplýsingum til félagsmanna og gefa þeim sem þurfa að ná til smáframleiðenda möguleika á því. Lykilverkefnið er að vinna að einföldun regluverks og auknu samræmi í eftirliti og nýjasti áfanginn þar er breyting á reglugerð sem gefur matvælaframleiðendum með forpökkuð matvæli undanþágu frá því að sækja um og greiða fyrir starfsleyfi fyrir hvern matarmarkað sem þeir taka þátt í. Fræðsla er sömuleiðis stórt verkefni sem við veitum í gegnum örnámskeið og lengri námskeið um efni sem gagnast félagsmönnum, nú síðast um styrkjaumhverfið. Við stuðlum líka að gerð ýmissa verkfæra sem gagnast félagsmönnum eins og grunnleiðbeiningum um gerð gæðahandbókar og vefforrits til að reikna út næringargildi út frá uppskrift. Svo má ekki gleyma áherslu okkar á að þróa og fjölga söluleiðum fyrir okkar félagsmenn. Því tengdu eigum við í góðu samstarfi við verslanir um land allt sem miðar að því að þær auki úrvalið af vörum smáframleiðenda og vekji sérstaka athygli á þeim í gegnum hin ýmsu samstarfsverkefni.“

Hark sem krefst þrautseigju og ástríðu
Svava hóf sinnepsframleiðsluna hjá Matís, sem hún segir að hafi verið mikið lán og þar fékk hún mikla hjálp og aðstoð. Hún færði sig svo yfir til Eldstæðisins í Kópavogi, þar sem öll framleiðslan fer nú fram.

„Það er mjög þýðingarmikið fyrir frumkvöðla að hafa möguleika á að framleiða hjá Matís eða Eldstæðinu og vera hluti af því samfélagi sem þar myndast . Á Skagaströnd er annað svona samfélag, Vörusmiðjan, þar sem fólk úr nærsveitunum vinnur afurðir úr sveitunum í kring. Í Eldstæðinu erum við með allt mögulegt; súkkulaði, sinnep, sterkar sultur og hvaðeina. Við hjálpum hvert öðru, leitum ráða og veitum ráð. Þegar ég byrjaði voru margir tilbúnir að hjálpa mér og leiðbeina svo ég álít það skyldu mína að gera það sama núna fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref. Flestir eru í annarri vinnu og eru að sinna þessu aukalega. Frumkvöðlastarfið er alltaf hark sem krefst bæði þrautseigju og mikillar ástríðu. Hlutirnir ganga ekkert endilega alltaf eins og maður vill og oft getur þetta verið mikil áskorun. En ég held áfram svo lengi sem ég hef gaman af þessu.“  

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …