Samfélagsmiðlar

Mikilvægt fyrir frumkvöðla að fá stuðning og ráðgjöf

„Frumkvöðlastarfið er alltaf hark sem krefst bæði þrautseigju og mikillar ástríðu," segir Svava Hrönn Guðmundsdóttir, sinnepsframleiðandi. Þegar hún fluttist heim til Íslands árið 1982 eftir búsetu í Danmörku og Svíþjóð saknaði Svava sinnepsins sem þar var á boðstólum. Hún tók málin fljótlega í sínar hendur og hóf að búa það til sjálf fyrir fjölskylduna. Í dag framleiðir hún sex bragðtegundir af sinnepi og er stjórnarformaður Samtaka smáframleiðenda matvæla.

Sinnepið frá Svövu - í sex gerðum - MYND: Arna Petra

„Ég var svo sem ekki mikil sinnepsmanneskja þar til ég kynntist skánska sinnepinu í Svíþjóð. Við tókum eitthvað af því með okkur þegar að við fluttum heim. Svo var það fyrir ein jólin að ekki var til skánskt sinnep á heimilinu. Sinnepið var alveg ómissandi við að glassera jólaskinkuna, svo bóndinn spurði mig hvort ég gæti ekki bara búið það til,“ útskýrir Svava.

Sjálf hafði hún lært að búa til sinnep í sænsku apóteki, þar sem það var framleitt fyrir jólin á þeim tíma, svo hún fór að prófa að búa það til sjálf. Þetta var fljótlega eftir flutningana heim til Íslands, en það var svo árið 2014 að Svava fór út í sjálfstæðan rekstur. 

„Ég missti vinnuna í hruninu og í kjölfarið fór ég í fjarnám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Þar áttum við meðal annars að gera viðskiptaáætlun fyrir fyrirtæki. Ég gerði eina slíka fyrir sinnepsframleiðslu og svo þróaðist þetta einhvern vegin áfram. Ég fór líka á námskeið hjá Vinnumálastofnun þar sem ég var hvött til að fara í Gulleggið og sótti um styrk hjá atvinnumálum kvenna. Svo fór ég af stað. Fram að þessu hafði þetta bara verið áhugamál en ég ákvað að taka stökkið. Núna er ég orðin eftirlaunaþegi og það er gott að hafa eitthvað að gera.“

Svava Hrönn Guðmundsdóttir með framleiðsluna – MYND: Svava sinnep

Tenging við íslenskt hráefni mikilvæg
Svava framleiðir nú sex bragðtegundir af sinnepi en upprunalega sinnepið, Sterkt sætt, er það sem hún útbjó fyrst og líkist mest sænsku fyrirmyndinni.

„Mig langaði til að tengja þetta meira inn í íslensk hráefni. Vinkona mín var að framleiða bláberjasnafs en það gekk illa hjá henni að fá styrki til þess, því það er gríðarleg samkeppni á þeim markaði. Við útbjuggum pakkningu með bláberjasnafs og sinnepi með aðalbláberjum og blóðbergi og einnig pakkningu af snafsi og sinnepi með kúmeni og ákavíti og sendum inn styrkumsókn, en fengum engan styrk. En ég er enn að framleiða þessar tvær bragðtegundir. Mér hafði líka verið bent á að mikið af rabarbara færi til spillis og út frá því þróaði ég rabarbarasinnepið. Ég fór svo í samstarf við Eimverk eftir að Flóki viskí kom til sögunnar því mig hafði langað til að gera viskísinnep í ætt við það sem þeir eru með í Skotlandi, en vildi ekki gera það nema með íslenskri tengingu.“ 

Lakkríssinnepið komið til að vera
Lakkríssinnep kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir og segir Svava að þarna hafi verið um algjöra tilraunstarfsemi að ræða. Hún tók það með sér á matarmarkaðinn í Hörpu og bauð fólki að smakka og kjósa um hvort hún ætti að halda framleiðslunni áfram.

„Tilgangurinn með þessu var eiginlega að sannreyna að lakkrís og sinnep færi ekki saman, en niðurstaðan varð sú að ég er enn að framleiða þessa vöru. Það sem hefur líka gengið mjög vel er að selja litlar krukkur í tvennupakkningum, 50 grömm í hvorri krukku. Það hentar vel fyrir fólk sem er bara að prófa, þá sem búa einir og líka fyrir ferðamennina og hefur gengið ljómandi vel.“

Íslenskt sinnep á kex – MYND: Arna Petra

Mikilvægur vettvangur fyrir smáframleiðendur
Svava leggur áherslu á mikilvægi þess að frumkvöðlar í matvælaframleiðslu eigi bakland þangað sem þeir geta sótt stuðning og ráðgjöf, en hún hefur verið í stjórn Samtaka smáframleiðenda matvæla frá stofnun þeirra árið 2019 og formaður síðastliðin tvö ár. 

„Samtökin eru núna með á þriðja hundrað meðlimi og Beint frá býli er aðildarfélag.  Samtökin miðla gagnlegum upplýsingum til félagsmanna og gefa þeim sem þurfa að ná til smáframleiðenda möguleika á því. Lykilverkefnið er að vinna að einföldun regluverks og auknu samræmi í eftirliti og nýjasti áfanginn þar er breyting á reglugerð sem gefur matvælaframleiðendum með forpökkuð matvæli undanþágu frá því að sækja um og greiða fyrir starfsleyfi fyrir hvern matarmarkað sem þeir taka þátt í. Fræðsla er sömuleiðis stórt verkefni sem við veitum í gegnum örnámskeið og lengri námskeið um efni sem gagnast félagsmönnum, nú síðast um styrkjaumhverfið. Við stuðlum líka að gerð ýmissa verkfæra sem gagnast félagsmönnum eins og grunnleiðbeiningum um gerð gæðahandbókar og vefforrits til að reikna út næringargildi út frá uppskrift. Svo má ekki gleyma áherslu okkar á að þróa og fjölga söluleiðum fyrir okkar félagsmenn. Því tengdu eigum við í góðu samstarfi við verslanir um land allt sem miðar að því að þær auki úrvalið af vörum smáframleiðenda og vekji sérstaka athygli á þeim í gegnum hin ýmsu samstarfsverkefni.“

Hark sem krefst þrautseigju og ástríðu
Svava hóf sinnepsframleiðsluna hjá Matís, sem hún segir að hafi verið mikið lán og þar fékk hún mikla hjálp og aðstoð. Hún færði sig svo yfir til Eldstæðisins í Kópavogi, þar sem öll framleiðslan fer nú fram.

„Það er mjög þýðingarmikið fyrir frumkvöðla að hafa möguleika á að framleiða hjá Matís eða Eldstæðinu og vera hluti af því samfélagi sem þar myndast . Á Skagaströnd er annað svona samfélag, Vörusmiðjan, þar sem fólk úr nærsveitunum vinnur afurðir úr sveitunum í kring. Í Eldstæðinu erum við með allt mögulegt; súkkulaði, sinnep, sterkar sultur og hvaðeina. Við hjálpum hvert öðru, leitum ráða og veitum ráð. Þegar ég byrjaði voru margir tilbúnir að hjálpa mér og leiðbeina svo ég álít það skyldu mína að gera það sama núna fyrir þau sem eru að stíga sín fyrstu skref. Flestir eru í annarri vinnu og eru að sinna þessu aukalega. Frumkvöðlastarfið er alltaf hark sem krefst bæði þrautseigju og mikillar ástríðu. Hlutirnir ganga ekkert endilega alltaf eins og maður vill og oft getur þetta verið mikil áskorun. En ég held áfram svo lengi sem ég hef gaman af þessu.“  

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …