Samfélagsmiðlar

Batinn í evrópskri ferðaþjónustu heldur áfram og eyðsla ferðamanna eykst

Fjöldi heimsókna erlendra ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi fór fram úr því sem var á sama tímabili 2019. Almennt hefur ferðaþjónusta í álfunni náð sér á strik - nema þar sem gætir áhrifa árásarstríðs Rússa. Evrópska ferðamálaráðið gerir ráð fyrir að eyðsla ferðamanna mælist umtalsvert meiri á árinu vegna verðbólgu, mikillar eftirspurnar - og stórviðburða á íþróttasviðinu.

Ferðamenn virða fyrir sér Sagrada Familia í Barselóna - MYND: ÓJ

Samkvæmt þeim gögnum sem Evrópska ferðamálaráðið (ETC) vann úr frá ýmsum áfangastöðum í álfunni fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 7,2 prósent og gistinóttum um 6,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Umsvif í ferðaþjónustunni halda því áfram að aukast, á heildina litið voru fleiri á ferðinni á fyrstu mánuðum 2024 en á sama tíma árið 2019 og gistinætur eru aðeins 0,2 prósentum færri.

Þennan bata má að mestu skýra með miklum ferðalögum innan Evrópu, á milli Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Hollands, og mikilli ferðaeftirspurn í Bandaríkjunum, sem eru mikilvægasti markaður Evrópuríkja.

Rólegur vordagur á spænskri strönd – MYND: ÓJ

Í ársfjórðungsskýrslunni European Tourism Trends & Prospects, sem Evrópska ferðamálaráðið birti í vikunni er lýst umsvifum evrópskrar ferðaþjónustu á fyrsta fjórðungi og þeim efnahagslegu og pólitísku þáttum sem móta afkomu og horfur í greininni.

Ferðamenn leita upplýsinga á Plaça Reial í Barselóna – MYND: ÓJ

Miguel Sanz, forseti Evrópska ferðamálaráðsins, fylgir útgáfu í skýrslunnar úr hlaði:

„Fyrstu tölur um afkomu ársins 2024 benda til að horfur séu góðar í evrópskri ferðaþjónustu á þessu ári. Líkur eru á að ferðamenn eyði umtalsvert meira fé á ferðum sínum um Evrópu og nái tölur nýjum hæðum á komandi mánuðum. Það mun styrkja umtalsvert ferðaþjónustuna, sem er hart leikin eftir heimsfaraldur og efnahagslegan óstöðugleika. Enn eru verðhækkanir og heimspólitískur óstöðugleiki helstu hindranir á vegi ferðaþjónustunnar, sem á sama tíma leitast við að sýna meiri samfélagslega ábyrgð og verja umhverfið.“

Þarna vísar forseti Evrópska ferðamálaráðsins til þess að ferðaþjónustan taki alvarlega gagnrýni á troðningstúrisma og of mikinn ágang og að hún leitist við að draga úr losun og vilji starfa í samræmi við kröfur um sjálfbærni. En það kostar sitt.

Almennt er batinn í ferðaþjónustu í Evrópu góður – en hann er misjafn eftir svæðum. Ferðaþjónusta í þeim löndum sem næst eru átökunum í Úkraínu geldur fyrir ógnandi tilburði Rússa. Það er hrun í ferðaþjónustu Lettlands. Aldrei hafa færri erlendir ferðamenn komið þangað frá því fyrir heimsfaraldur. Á fyrsta ársfjórðungi komu 34 prósentum færri ferðamenn en á sama tíma í fyrra. Í Eistlandi var samdrátturinn 15 prósent og svipaður í Litáen.

Í sunnanverðri Evrópu er staðan allt önnur. Það er ferðamannastraumurinn þangað sem skýrir betri heildarstöðu í Evrópu nú en árið 2019. Á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði komum erlendra ferðamanna til Serbíu um 47 prósent, 39 prósent til Búlgaríu, 35 prósent til Tyrklands og Möltu, 17 prósent til Portúgals og 14 prósent til Spánar. Þessi ferðamannalönd bjóða upp á fremur hagstætt verðlag – og oftast notalegt veður. Í hinu svala og dýra norðri fjölgaði reyndar ferðamönnum líka.

Íbúar og ferðamenn í Porto – MYND: ÓJ

Enn treystir evrópskt ferðaþjónusta verulega á ferðamenn frá Bandaríkjunum og Kanada. Nokkur fjölgun er í komum ferðamanna frá Suður-Ameríku, sérstaklega Brasilíu, en hinsvegar gengur hægt að endurheimta farþega frá Kyrrahafslöndum Asíu. Kínverskum ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt en Japanar láta bíða eftir sér vegna veikrar stöðu jensins.

Það er stríð í Evrópu og á Gaza. Auðvitað hefur það áhrif á ferðaþjónustu í Evrópu, einkum straum ferðamanna um austanverða álfuna og komum ferðamanna frá Ísrael hefur snarfækkað. En fyrir mörg evrópsk ferðaþjónustufyrirtæki felast helstu áskoranir í því að allur tilkostnaður í rekstrinum hefur aukist á verðbólgutímum og á sama tíma vantar hæft starfsfólk.

Gögn sýna að ferðalög verða áfram í forgangi hjá stórum hluta fólks á árinu 2024. Á fyrstu mánuðum ársins eyddu evrópskir ferðamenn, og þeir sem komnir voru lengra að, meiru á ferðum sínum nú en á sama tíma í fyrra. Spár gera ráð fyrir að ferðamenn eyði tæplega 743 milljörðum evra í Evrópu á þessu ári, sem er 14,3 prósentum meira en 2023. Verðbólgan skýrir þetta að verulegu leyti en líka tilhneiging fólks til að dvelja lengur og eyða meiru í margskonar upplifun. Það verða Þjóðverjar sem draga vagninn Gert er ráð fyrir að þeir standi fyrir 16 prósentum heildareyðslunnar í Evrópu 2024.

Það verður hvorki setið og vatnslitað né siglt í túristabátum á Signu á meðan á Ólympíuleikum stendur í sumar – MYND: ÓJ

Evrópska ferðamálaráðið gerir ráð að stórviðburðir í íþróttaheiminum eigi eftir að efla ferðaþjónustu í Frakklandi og Þýskalandi. Annars vegar eru það auðvitað Ólympíuleikarnir í París og Evrópumótið í fótbolta karla í 10 borgum Þýskalands. Því er spáð að tekjur af komum ferðamanna aukist um 13 prósent í París og 24 prósent í heildina í Frakklandi á meðan Ólympíuleikarnir fara fram frá 26. júlí til 11. ágúst. Í þýsku borgunum þar sem fótboltaleikirnir fara fram – Berlín, Köln, München, Frankfurt, Hamborg, Dortmund, Leipzig, Gelsenkirchen, Stuttgart og Düsseldorf – er líka vænst umtalsverðra tekna frá miðjum júní og fram í miðjan júlí vegna aukins gestagangs.

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …