Samfélagsmiðlar

Batinn í evrópskri ferðaþjónustu heldur áfram og eyðsla ferðamanna eykst

Fjöldi heimsókna erlendra ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi fór fram úr því sem var á sama tímabili 2019. Almennt hefur ferðaþjónusta í álfunni náð sér á strik - nema þar sem gætir áhrifa árásarstríðs Rússa. Evrópska ferðamálaráðið gerir ráð fyrir að eyðsla ferðamanna mælist umtalsvert meiri á árinu vegna verðbólgu, mikillar eftirspurnar - og stórviðburða á íþróttasviðinu.

Ferðamenn virða fyrir sér Sagrada Familia í Barselóna - MYND: ÓJ

Samkvæmt þeim gögnum sem Evrópska ferðamálaráðið (ETC) vann úr frá ýmsum áfangastöðum í álfunni fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 7,2 prósent og gistinóttum um 6,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi. Umsvif í ferðaþjónustunni halda því áfram að aukast, á heildina litið voru fleiri á ferðinni á fyrstu mánuðum 2024 en á sama tíma árið 2019 og gistinætur eru aðeins 0,2 prósentum færri.

Þennan bata má að mestu skýra með miklum ferðalögum innan Evrópu, á milli Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Hollands, og mikilli ferðaeftirspurn í Bandaríkjunum, sem eru mikilvægasti markaður Evrópuríkja.

Rólegur vordagur á spænskri strönd – MYND: ÓJ

Í ársfjórðungsskýrslunni European Tourism Trends & Prospects, sem Evrópska ferðamálaráðið birti í vikunni er lýst umsvifum evrópskrar ferðaþjónustu á fyrsta fjórðungi og þeim efnahagslegu og pólitísku þáttum sem móta afkomu og horfur í greininni.

Ferðamenn leita upplýsinga á Plaça Reial í Barselóna – MYND: ÓJ

Miguel Sanz, forseti Evrópska ferðamálaráðsins, fylgir útgáfu í skýrslunnar úr hlaði:

„Fyrstu tölur um afkomu ársins 2024 benda til að horfur séu góðar í evrópskri ferðaþjónustu á þessu ári. Líkur eru á að ferðamenn eyði umtalsvert meira fé á ferðum sínum um Evrópu og nái tölur nýjum hæðum á komandi mánuðum. Það mun styrkja umtalsvert ferðaþjónustuna, sem er hart leikin eftir heimsfaraldur og efnahagslegan óstöðugleika. Enn eru verðhækkanir og heimspólitískur óstöðugleiki helstu hindranir á vegi ferðaþjónustunnar, sem á sama tíma leitast við að sýna meiri samfélagslega ábyrgð og verja umhverfið.“

Þarna vísar forseti Evrópska ferðamálaráðsins til þess að ferðaþjónustan taki alvarlega gagnrýni á troðningstúrisma og of mikinn ágang og að hún leitist við að draga úr losun og vilji starfa í samræmi við kröfur um sjálfbærni. En það kostar sitt.

Almennt er batinn í ferðaþjónustu í Evrópu góður – en hann er misjafn eftir svæðum. Ferðaþjónusta í þeim löndum sem næst eru átökunum í Úkraínu geldur fyrir ógnandi tilburði Rússa. Það er hrun í ferðaþjónustu Lettlands. Aldrei hafa færri erlendir ferðamenn komið þangað frá því fyrir heimsfaraldur. Á fyrsta ársfjórðungi komu 34 prósentum færri ferðamenn en á sama tíma í fyrra. Í Eistlandi var samdrátturinn 15 prósent og svipaður í Litáen.

Í sunnanverðri Evrópu er staðan allt önnur. Það er ferðamannastraumurinn þangað sem skýrir betri heildarstöðu í Evrópu nú en árið 2019. Á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði komum erlendra ferðamanna til Serbíu um 47 prósent, 39 prósent til Búlgaríu, 35 prósent til Tyrklands og Möltu, 17 prósent til Portúgals og 14 prósent til Spánar. Þessi ferðamannalönd bjóða upp á fremur hagstætt verðlag – og oftast notalegt veður. Í hinu svala og dýra norðri fjölgaði reyndar ferðamönnum líka.

Íbúar og ferðamenn í Porto – MYND: ÓJ

Enn treystir evrópskt ferðaþjónusta verulega á ferðamenn frá Bandaríkjunum og Kanada. Nokkur fjölgun er í komum ferðamanna frá Suður-Ameríku, sérstaklega Brasilíu, en hinsvegar gengur hægt að endurheimta farþega frá Kyrrahafslöndum Asíu. Kínverskum ferðamönnum fjölgar jafnt og þétt en Japanar láta bíða eftir sér vegna veikrar stöðu jensins.

Það er stríð í Evrópu og á Gaza. Auðvitað hefur það áhrif á ferðaþjónustu í Evrópu, einkum straum ferðamanna um austanverða álfuna og komum ferðamanna frá Ísrael hefur snarfækkað. En fyrir mörg evrópsk ferðaþjónustufyrirtæki felast helstu áskoranir í því að allur tilkostnaður í rekstrinum hefur aukist á verðbólgutímum og á sama tíma vantar hæft starfsfólk.

Gögn sýna að ferðalög verða áfram í forgangi hjá stórum hluta fólks á árinu 2024. Á fyrstu mánuðum ársins eyddu evrópskir ferðamenn, og þeir sem komnir voru lengra að, meiru á ferðum sínum nú en á sama tíma í fyrra. Spár gera ráð fyrir að ferðamenn eyði tæplega 743 milljörðum evra í Evrópu á þessu ári, sem er 14,3 prósentum meira en 2023. Verðbólgan skýrir þetta að verulegu leyti en líka tilhneiging fólks til að dvelja lengur og eyða meiru í margskonar upplifun. Það verða Þjóðverjar sem draga vagninn Gert er ráð fyrir að þeir standi fyrir 16 prósentum heildareyðslunnar í Evrópu 2024.

Það verður hvorki setið og vatnslitað né siglt í túristabátum á Signu á meðan á Ólympíuleikum stendur í sumar – MYND: ÓJ

Evrópska ferðamálaráðið gerir ráð að stórviðburðir í íþróttaheiminum eigi eftir að efla ferðaþjónustu í Frakklandi og Þýskalandi. Annars vegar eru það auðvitað Ólympíuleikarnir í París og Evrópumótið í fótbolta karla í 10 borgum Þýskalands. Því er spáð að tekjur af komum ferðamanna aukist um 13 prósent í París og 24 prósent í heildina í Frakklandi á meðan Ólympíuleikarnir fara fram frá 26. júlí til 11. ágúst. Í þýsku borgunum þar sem fótboltaleikirnir fara fram – Berlín, Köln, München, Frankfurt, Hamborg, Dortmund, Leipzig, Gelsenkirchen, Stuttgart og Düsseldorf – er líka vænst umtalsverðra tekna frá miðjum júní og fram í miðjan júlí vegna aukins gestagangs.

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …