Verð á mat og drykk í Danmörku er orðið það hátt að ríkisstjórn landsins ætlar að láta kortleggja samkeppnina á markaðnum. Lækkun skatta til að ná verðlaginu niður er meðal úrræða sem grípa má til að sögn Mette Frederiksen forsætisráðherra Dana.
„Við munum leggja fram fjárlög innan skamms og þar verður að finna aðgerðir sem við ætlum að beita okkur fyrir,“ segir forsætisráðherrann í viðtali við Politiken. Matvælaverð í Danmörku er það næsthæsta innan ESB, hæst er það í Lúxemborg.
„Það hljóta að vera einhverjir sem græða meira þegar ástandið er svona og þeir aðilar verða að fara yfir það með okkur hvort það sé réttlætanlegt á tímum sem þessum, þar sem venjulegar fjölskyldur telja það orðið of dýrt að versla í matinn,“ segir Frederiksen forsætisráðherra.
Samtök danskra matvælaframleiðenda segjast hafa skilning á áhyggjum forsætisráðherrans en framkvæmdastjóri samtakanna, Jakob Lave, bendir á að það séu margir þættir sem hafi áhrif á matvælaverð. Spenna í heimsmálum leiki þar hlutverk og eins skortur á hráefnum, viðskiptastríð og gengi gjaldmiðla.
Það er ekki bara í Danmörku sem ráðamenn eru uggandi yfir háu matvælaverði því fjármálaráðherra Svíþjóðar hefur ítrekað síðustu tvö ár gagnrýnt verðlag í sænskum matvörubúðum og kallað forstjóra matvörukeðjanna á sinn fund.
Cecilie Myrseth, viðskiptaráðherra Noregs, hyggst einnig setjast niður með fulltrúum matvöruverslana vegna hækkandi verðlags þar í landi.
©NTB