Samfélagsmiðlar

Hvar og hvenær á að gefa þjórfé?

Á að gefa leigubílstjóranum í London þjórfé og hversu mikið á pikkalóinn í París skilið? Hér er yfirlit yfir þær hefðir sem skapast hafa í löndunum í kringum okkur þegar kemur að þjórfé. Þær er gott að þekkja og minnka þannig líkurnar á vandræðalegum augnablikum í næsta ferðalagi.

Bandaríkin

Ferðamenn í ríki Obama ættu ávallt að vera með nokkra litla seðla í veskinu því alls staðar er reiknað með þjórfé. Á kaffihúsum og börum þykir tíu til fimmtán prósent af upphæðinni viðeigandi framlag á meðan veitingahúsagestir borga aðeins meira eða allt að fimmtung. Leigubílstjórar fá sína tíund og fyrir hverja tösku sem þeir setja í skottið bætist einn dollari við.

Á hótelum er ekki óeðlilegt að gefa þernunum einn til fimm dollara á dag og töskuberinn fær það sama fyrir sitt framlag. Þeir sem gista í lúxus margfalda þessar upphæðir.

Gist ódýrt en með stæl í New York

Bretland

Á flestum veitingastöðum er þjónustugjald hluti af reikningnum. Það er samt vissara að ganga úr skugga um að svo sé áður en farið er frá borðinu svo þjónninn sé ekki skilinn eftir með sárt ennið. Á hótelum er tíu til tólf prósentum sjálfkrafa bætt við reikninginn og því óþarfi að gefa aukalega. Í leigubílum er til siðs að námunda upp að næsta pundi en óþarfi að gefa meira en það.

Ódýrustu hótelin í London

Frakkland

Lög í landinu kveða á um að ekki megi rukka sérstaklega fyrir afgreiðsluna og er hún því innifalinn í verðinu. Frakkar skilja hins vegar eftir smá upphæð ef þeir fara ánægðir frá borði. Í hádeginu námundar fólk upp að heilli evru en á kvöldin gefa mettir matargestir fimm til tíu prósent. Þetta er hins vegar ekki nauðsynlegt. Á kaffihúsum, börum og í leigubílum er námundað upp að hálfri eða heilli evru þegar gert er upp. Pikkalóinn á hins vegar þrjár til fimm evrur skilið fyrir að halda á töskunum þínum en annars er óþarfi að gefa starfsfólki á hótelinu eitthvað aukalega.

Mýrin hefur margt að bjóða

Ítalía

Þeir sem eru ánægðir með það sem þeir hafa fengið bæta tíund við reikninginn en annars námundar fólk bara upp að næstu evru. Á kaffihúsum skilur fólk svo eftir nokkra smápeninga. Þeir sem sjá um að þrífa herbergin á hótelinu eiga líka skilið að fá eina eða tvær evrur fyrir sinn snúð.

Kaffið er betra í Róm en Mílanó

Mið-Evrópa

Ekki er ætlast til að túristar í til dæmis Hollandi eða Þýskalandi borgi aukalega fyrir þjónustuna en ef þeir vilja þá er ágætt að miða við tíund. Ef reikningurinn hljóðar upp á 12 evrur er hægt að borga fimmtán en biðja um að fá eina evru tilbaka.

Norðurlönd

Gullna reglan hjá frændþjóðum okkar er sú að fastagestir gefa þjórfé eða drikkepenge eins og danskurinn kallar það. Oftast er um að ræða nokkrar krónur sem settar eru í glas við afgreiðsluborðið. Fyrir ferðamenn þýðir þetta einfaldlega að ekki er reiknað með að þeir láti klink af hendi rakna að lokinni máltíð, leigubílaferð eða á hótelinu. Laun þjónustufólks í þessum löndum eru ekki miðuð við að þjórfé hífi þau uppí mannsæmandi kjör. Svíar eru reyndar aðeins suðrænni í háttum en nágrannaþjóðirnar og sýna ánægju sína í verki að lokinni velheppnaðri kvöldmáltíð og gefa litla upphæð. Leigubílstjórar þar í landi fá líka nokkrar krónur fyrir viðvikið.

Vegvísir: Kaupmannahöfn og GautaborgNýir danskir veitingastaðir í ódýrari kantinum

Pólland

Í Póllandi er hefð fyrir því að greiða þjónustufólki sérstaklega. Upphæðin nemur þá tíu til fimmtán prósentum sem til dæmis er greitt með skiptimyntinni sem þjónninn kemur með þegar reikningurinn er gerður upp.

Skíðaferð til útlanda á gamla genginu

Spánn

Þrátt fyrir að afgreiðslugjaldið sé hluti af verðinu þá er ekki úr vegi að rétta þjóninum reiðufé sem nemur allt að tíund af reikningsupphæðinni og tryggja þannig að peningurinn renni í vasa hans en ekki veitingamannsins. Starfsfólkið á tapasbörunum reiknar ekki með þjórfé en það er ekki úr vegi að skilja örfáar evrur eftir ef maður er ánægður með matinn. Það er nóg að námunda upp að næstu evru þegar gert er upp við leigubílstjórann.

Vegvísir: Barcelona

Tékkland

Það er engin kvöð um þjórfé í Tékklandi en algengt að náumundað sé upp í næstu krónu (koruna) eða einum tíunda bætt við upphæðina á kreditkortanótunni. Það er hins vegar ekki til siðs að skilja klink eftir á borðinu. 

Ungverjaland

Innfæddir og ferðamenn gefa í flestum tilvikum tíu prósent eða námunda upp að næstu forint. Líkt og í Tékklandi þá gerir maður upp við þjónninn og skilur ekki eftir pening á borðinu.

 Heimildir: Tripadvisor, Times online, Tgt.

Share |

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …