Samfélagsmiðlar

Grikkland að hætti Egils

Áhugi fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar á Grikklandi er flestum kunnur. Hann deilir hér með lesendum uppáhaldsstöðunum sínum og gefur þeim sem vilja kynnast landinu að eigin raun góð ráð.

„Ég hef aðallega haldið mig á Krít og eyjunum sem nefnast Kyklades. Krít er paradís, ekki bara vegna veðursældar og náttúrufars, heldur eru Krítverjar sérlega skemmtilegt og glettið fólk. Það er gott fyrir þá sem eru að byrja að kynnast Grikklandi að fara til Krítar. Þá mæli ég með borginni Hania sem er vestast á eyjunni, það er gamall, notalegur og sérlega fallegur bær. Frá Hania er auðvelt að komast á góðar strendur, upp í fjöll og út í náttúruna. Krítverjar eru mjög tengdir landi sínu og margir íbúar Hania eiga ólífutré eða aldingarða úti í sveit – oft í þorpunum þaðan sem þeir eru upprunnir.“

Skyldustopp á Santorini

„Kyklades eða Hringeyjarnar eru margar og fjölbreyttar. Þær eru fremur gróðursnauðar og vindafar tryggir að þær eru heldur svalar á sumrin. Bæir eru fullir af hvítkölkuðum húsum í gömlum stíl, hvítir og bláir litir eru allsráðandi. Mykonos er staður sem er fullur af fjöri, verslunum og næturlífi, en á Santorini standa bæirnir efst uppi á klettabrún og horfa yfir á stóran eldgíg. Santorini er eitt helsta náttúruundur í heimi og laðar til sín milljónir ferðamanna á ári. Þetta eru staðir sem maður verður að sjá, en ég ráðlegg engum að dvelja lengi á Santorini eða Mykonos, erillinn er of mikill og verðlagið of hátt.“

Góður matur og stórar baðstrendur

Uppáhaldseyjar Egils eru ólíkar Santorini og Mykonos. „Naxos er stór eyja, á henni er ágætur vatnsbúskapur og hún er því grónari en margar eyjarnar í kring – minnir nokkuð á Krít. Á eyjunni er mikill landbúnaður og fiskveiðar, þannig að ferðamennskan verður ekki yfirþyrmandi. Þarna er að finna stórar sandstrendur sem eru einhverjar þær bestu í Grikklandi, og aðalbærinn á eyjunni, sem er á stærð við Akureyri, er fullur af góðum veitingastöðum. Óvíða í Grikklandi borðar maður betur en á Naxos.“

„Amorgos er afskekkt eyja og hrjóstrug. Á henni er einstakt, nánast dulúðugt, andrúmsloft. Aðalbærinn á eyjunni er lengst innanlands, uppi á fjalli, og er oft sveipaður þoku, jafnvel á sumrin. Þarna er einstaklega fallegt klaustur sem er byggt utan í klettavegg og hefur verið í næstum þúsund ár. Folegandros er lítil eyja og ekki sérlega fjölsótt. Bærinn þar er einn sá fallegasti á Hringeyjunum, húsin eru hvítkölkuð og einstaklega vel varðveitt. Engir bílar geta ekið inn í bæinn – sem er mikill kostur. Þetta er frábær staður til að vera í næði – í burtu frá ys og þys veraldarinnar. Það er eins og tíminn líði öðruvísi á svona stað – þarna er enn að finna bændur sem nota asna við störf sín.“

Höfuðborgin vex í áliti

„Til Aþenu hef ég komið mörgum sinnum og smátt og smátt hef ég farið að kunna vel við mig þar. Þótt hún standi á gömlum merg er Aþena að miklu leyti nokkuð ung borg. Samgöngur í henni bötnuðu mikið eftir Ólympíuleikana 2004. Fyrir utan Akropolis, hið glæsilega nýja Akropolis-safn og aðrar fornminjar eru býsna skemmtileg hverfi í borginni – Plaka og Monastiraki sem eru næst Akropolis, Kolonaki sem er mikið verslunar og kaffihúsahverfi og Psirri sem er hverfi þar sem ungt fólk heldur mikið til – það er eins og að koma í fuglabjarg að fara þangað á kvöldin.“

Ekki nauðsynlegt að bóka gistingu fyrirfram

„Það er auðvelt að finna flug til Krítar frá Norðurlöndunum, Bretlandi eða Þýskalandi. Til eyjanna er auðveldast að komast með því að fljúga annað hvort til Aþenu og taka flug eða ferju þaðan, en einnig er hægt að finna flug frá sumum evrópskum borgum, til dæmis Berlín, beint til Santorini eða Mykonos. Það er tilvalið að skoða eins og þrjár eyjur í einni ferð – maður þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að bóka hótel eða herbergi.“

 

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu í Aþenu, Santorini, Krít og Mykonos
TENGDAR GREINAR: Grikkir reyna íslensku aðferðina

 

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …