Samfélagsmiðlar

Fimm flott fríhafnarviskí

Sérfræðingar Viskíhornsins hafa lagt mat sitt á vískíið sem fáanlegt er í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli og þessi fimm fá bestu meðmælin.

Það er óhætt að fullyrða að stór hluti íslenskra farþegar á Keflavíkurflugvelli kaupinn tollinn sinn við komuna til landsins. Og að sögn Jakobs Jónssonar, viskífræðings og ritstjóra Viskíhornsins, þá er úrvalið af vískí í Fríhöfninni betra nú en nokkru sinni fyrr. Og þessi fimm hér að neðan eru þau sem Vískíhornið mælir sérstaklega með þegar horft er til verðs og gæða.

Flóki – Ísland

„Byrjum á að kitla þjóðerniskenndina örlítið og skoða fyrsta, íslenska viskíið, Flóka. Nýverið kom út fyrsti einmöltungurinn (e. single malt) en hingað til hafa eingöngu verið til ungmölt (e. young malt), en ungmalt er ,,viskí” sem hefur ekki náð þriggja ára þroska í eikartunnum, heldur einungis nokkurra mánaða, Í viskíbransanum þarf áfengið almennt að hafa náð þriggja ára þroskun hið minnsta, og það eingöngu í eikartunnum til að mega vera kallað viskí.
Hafandi það í huga að Flóki er barnungur þá er það framúrskarandi vel heppnað. Fram kemur mjög mikil vanilla og hefur Flóki drukkið í sig geysimikið magn af eikinni á þessum tiltölulega stutta tíma. Viskí er oftast þroskað í endurunnum tunnum (búrbon er undantekning) og þess má geta að Eimverk, framleiðandi Flóka, svo að segja bjó til sínar eigin endurunnu tunnur en einmöltungurinn er þroskaður í tunnum sem áður innihéldu ungmaltið frá Eimverki.
Þarna hefur gríðarlega vel tekist til enda afar vel vandað til verks í Garðabænum.
Auk vanillunnar kemur fram negull, kanill, anís, greipaldin, örlítil karamella og áberandi keimur af íslensku byggi og fjallajurtum.“

Nikka – Japan

„Annað viskí sem má mæla með er frá hinni japönsku verksmiðju Nikka, sem er annar tveggja viskírisa þaðan, en hinn, og sá ögn betur þekkti er Suntory.
Nikka Coffey Grain (algengur misskilningur er að þetta komi kaffidrykknum eitthvað við, en glöggir sjá að ,,Coffey” er ekki ritað á sama hátt. Viskíið er eimað í síeimara sem er nefndur eftir þeim írska herramanni sem fann upp þá tækni, Aeneas Coffey).

Þetta viskí er ekki maltviskí, það er ekki unnið úr byggi heldur mestmegnis úr korni/maís og úr síeimara eins og áður er nefnt en ekki potteimara eins og einmöltungar eru eimaðir í. Síeimarinn framleiðir vanalega léttara viskí, sumir segja grófara réttilega, en í þessu tilviki stendur kornviskíið einmöltungum síst að baki. Það er enginn aldur tilgreindur en þetta er á bilinu 8-12 ára og er afskaplega létt, frískandi, mikill ávöxtur og minnir örlítið á búrbonviskí, sem er einmitt einnig framleitt úr korni. Það er ekki eins sætt og búrbon, það er mildara, heilmikill vanillukeimur og krydd sem minnir á kanil.
Nikka Coffey Grain er í fríhöfninni á 7990 krónur, sem er nokkuð gott verð en þess ber að geta að það fæst eingöngu í 70 sentilítra flöskum, en ekki 1000cl. eins og vaninn er í fríhöfnum.“

Ardbeg Uigeadail – Skotland

„Fyrir reykháfana er Ardbeg Uigeadail fáanlegt í flugstöð Leifs Eiríksonar á frekar sanngjörnu verði eða 8990 íslenskar krónur, en aftur er það eingöngu í 70 cl. flöskum.
Ardbeg Uigeadail (Uigeadail þýðir ,,drunga- og dularfullt” á galísku) er af náttúrulegum styrkleika eða 54.2% og að hluta til þroskað í sérrítunnum sem gefur aukna dýpt og sætu sem dansar vel í takt við reykinn sem einkennir Ardbeg. Stórbrotið viskí sem allir unnendur reyktra viskía ættu að kynna sér.“

Aultmore – Skotland

„Fyrir þá sem eru hallir undir léttari og ferskari viskí á borð við Glenfiddich, þá er Aultmore vissulega eitthvað sem er þess virði að kynna sér.
Það hefur ekki verið mikið um einmöltunga frá þeim á markaði undanfarin ár enda fer megnið af framleiðslunni í Dewar’s blöndunginn en hann er eitt mest selda blandaða viskí heimsins í dag sem og undanfarin ár. Nýverið kom út 12 ára einmöltungur og sá hefur aldeilis slegið í gegn, enda framúrskarandi viskí. Létt, ferskt, mikil vanilla, kryddað, með undursamlegan keim af rjómakaffi og karamellu.
Fæst í fríhöfnum á afar hófsömu verði eða 7699 krónur fyrir lítrann.“

Glenfarclas 18 – Skotland

„Glenfarclas er viskí sem ætti að falla vel í kramið hjá þeim sem eru fyrir þyngri viskí úr sérrítunnum.
Glenfarclas er frá Speyhéraði og er að miklu leyti þroskað í gömlum sérrítunnum sem gefa aukna dýpt. Mikill keimur af rúsínum, karamellu, vel þroskuðum plómum og hnetum auk mikillar vanillu úr eikinni eftir öll þessi 18 ár.
Pottþétt fyrir þá sem eru fyrir viskí á borð við Macallan og fæst í Fríhöfninni á einungis 9990 krónur líterinn sem er gjafverð fyrir viskí af þessu kalíberi.“

Túristi mælir með heimsókn yfir á Vískihornið fyrir áhugafólk um góða drykki.

Nýtt efni

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …

Gott símasamband í höfuðborg Bretlands byggði lengi á hinum 177 metra háa BT Tower sem kenndur var við eigandann, British Telecom. Turninn varð hæsta mannvirkið í London þegar hann var reistur af símafyrirtækinu árið 1964. Það var ekki fyrr en 16 árum síðar að annað mannvirki í London fór upp fyrir þetta símamastur sem einnig …

Velta í ferðaþjónustu í nóvember og desember í fyrra var nærri óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Ef veltan hefði verið í takt við verðbólgu og fjölgun gistinátta ferðamanna þá hefði hún verið um 13 milljörðum kr. hærri. Af undirgreinum ferðaþjónustunnar þá var veitingareksturinn sá eini sem hélt í …

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital Credit varð langstærsti hluthafinn í Icelandair í júní 2021 og á nú 17,2 prósenta hlut. Sjóðurinn hefur fjárfest fyrir 10,4 milljarða króna í flugfélaginu en fengi rétt 7,5 milljarða fyrir hlutinn í dag. Mismunurinn nemur nærri 3 milljörðum króna en gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 18 prósent frá því …

Tölur sem Kóperníkus, lofthjúpsvöktunaþjónusta Evrópusambandsins, og ítölsku umhverfisverndarsamtökin Legambiente kynntu nýlega sýna að í Mílanó mælist svifryk og önnur loftmengun áfram hvað mest í allri Evrópu. Nú er loks rætt um það af yfirvöldum í Mílanó og nærliggjandi borgum og bæjum á Langabarðalandi að grípa einhverra aðgerða - eins og að takmarka notkun á mest …

Þátttaka hins opinbera í rafbílakaupum landsmanna er nú með breyttu sniði. Í stað skattaafsláttar upp á 1,3 milljónir króna, sem dreginn var frá söluverði nýrra rafbíla, þá verða kaupendur bílanna að greiða fullt verð í umboðinu og sækja svo um 900 þúsund króna styrk hjá Orkustofnun í framhaldinu. Þessi breyting var gerð um síðustu áramóti …

Sá sem kaupir ódýrasta fargjaldið hjá Icelandair, Economy Light, þarf að borga aukalega fyrir innritaðan farangur. Áður var töskugjaldið 5.280 krónur en nú þarf að borga allt að 6.600 krónur undir farangurinn aðra leið. Hækkunin nemur 25 prósentum og svo mikil eru hún líka ef innrita á skíði. Flutningur á þeim kostar núna allt að …