Samfélagsmiðlar

„Menn þora ekki að hugsa stórt”

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, fagnar boðaðri komu Condor til Akureyrar og segist búast við fleirum í kjölfarið. Hann segir þörf á bráðaaðgerðum til að tvö ný hótel rísi í bænum.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

Þorvaldur Lúðvík fyrir framan Gránufélagshúsin á Oddeyri.

Við setjumst yfir kaffibolla í Gránufélagshúsunum á Oddeyri, þar sem Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson og starfsfólk Niceair hefur komið sér fyrir um sinn. Frumkvöðullinn er með söguna á hreinu. Gránufélagið var stofnað 1870 eða tæpum 44 árum áður en Eimskipafélag Íslands kom til sögunnar. Þessi félagsskapur eyfirskra og þingeyskra bænda sýndi, þó hann yrði ekki langlífur, að það var von um að Íslendingar sjálfir gætu gert sig gilda í verslunar- og viðskiptamálum. Niceair á það sammerkt með Gránufélaginu að þar er um að ræða tilraun Norðlendinga til að vera sinnar eigin gæfu smiðir – nú í flugsamgöngum frá Akureyri, í vöggu samfellds flugrekstrar á Íslandi. 

Góður markaður á norðanverðu landinu

Margt varð Gránufélaginu mótdrægt en sú saga verður ekki rakin hér. Við erum í nútímanum, á öld túristans. Þorvaldur Lúðvík og aðrir aðstandendur Niceair vilja draga ferðafólk til Norðurlands og um leið veita heimafólki tækifæri á beinu flugi til áfangastaða í Evrópu. 

„Hugsun Gránufélagsmanna var að koma vörum beint á markað erlendis og flytja vörur til baka heim. Varan getur líka verið túrismi.” 

Þorvaldur Lúðvík hefur lengi verið þeirrar skoðunar og ekkert legið á henni, að stjórnvöld og ráðandi hagsmunaaðilar í flugi og ferðaþjónustu á Íslandi miði uppbyggingu alltof mikið við Keflavíkurflugvöll. 

„Það er stórgalin hugmynd að ætla sér að halda áfram að markaðssetja og stappa inn til Keflavíkur á meðan ekki eru gerðar einhverjar ráðstafanir í baklandinu – á Akureyri og Egilsstöðum.” 

Bjartsýnn að Bretland opnist aftur

Eigin rannsóknir þeirra norðanmanna og áfangastaðagreining leiddu í ljós að á norðanverðu landinu væri markaður fyrir flug um 20 véla á viku, með heimamenn og erlent ferðafólk. Upphafleg áætlun Niceair var um fimm flug á viku og helst miðað við vetrarumferð frá Bretlandi eins og Super Break gerði á sínum tíma. Staðan er sú að flogið er þrisvar sinnum, tvisvar til Kaupmannahafnar og einu sinni til Tenerife. Það var áfall fyrir Niceair þegar ekki fékkst leyfi breskra flugmálayfirvalda til að fljúga frá Akureyri til Stansted en er Þorvaldur Lúðvík bjartsýnn á þau mál leysist á næstunni? 

„Já, ég er það. Málið snýst um réttindi flugs innan tvíhliða samnings Íslands og Bretlands en því flugi má ekki sinna flugfélag sem er með heimilisfesti í öðru landi.” 

Nicair er nefnilega ekki flugfélag heldur söluaðili, ferðaskrifstofa. Nicair leigir flugrekstrarleyfið af Hi Fly Malta, dótturfélagi portúgalska félagsins Hi Fly. Samtöl við bresk flugmálayfirvöld hófust í mars og leyfi til flugs var gefið í maí en af einhverjum ástæðum var það dregið til baka 10 mínútum eftir flugtak á krýningarafmæli drottningar, sem var almennur frídagur í Bretlandi. Þorvaldur Lúðvík segir að engar skriflegar beiðnir um útskýringar eða upplýsingar hafi komið fram áður en gripið var til þessara ráðstafana. Hann segir að nú sé Niceair komið vel áleiðis með að finna leið til að mæta kröfum breskra yfirvalda varðandi flugrekstrarleyfið en félagið verður enn um sinn söluaðili. Þorvaldur Lúðvík segir að það hefði þurft þrjár eða fjórar flugvélar og margar flugstundir til að bera uppi þann fastakostnað sem fylgir flugrekstrarleyfi. Fyrirkomulagið hentar vel, segir hann, og ekki víst að það breytist. „Þetta er mjög áreiðanlegur og góður samstarfsaðili í tæknimálum.” Niceair uppfyllir samningskröfur um tiltekinn flugtíma með því að sinna að hluta flugi fyrir aðra. 

Verið að skoða fleiri áfangastaði

Vandræðin með Bretlandsflugið fékk aðstandendur Niceair til að hugsa líka um aðra staði. „Það liggur auðvitað fyrir að Þýskaland er mjög góður markaður á sumrin, eins og fyrirætlanir Condor gefa til kynna. Ég held jafnvel að margir eigi eftir koma í kjölfarið. Mér líst mjög vel á að fá Condor hingað. Því fleiri sem koma því þekktari verður áfangastaðurinn. Við fögnum allri viðbót. Margir voru að bíða eftir að einhverjir heimamenn riðu á vaðið. Ef það gengur upp er mjög hvetjandi fyrir erlenda aðila að koma á eftir. Þetta er akkúrat það sem við erum að sjá. Áfangastaðurinn fær meiri athygli, dreifingu á samfélagsmiðlum, meiri auglýsingu á erlendum ferðamörkuðum, verður þekktari og dregur fleiri að. Og svo getur það hentað mörgum fyrir norðan að fara með næturflugi Condor frá Akureyri og lenda í Frankfurt um fimmleytið og fara þar í tengiflug.” Hógvær áætlun Condor um eitt flug á viku til Akureyrar frá Frankfurt næsta sumar breyti engu um þær áætlanir Niceair að hefja þá Þýskalandsflug, segir framkvæmdastjórinn.

Þorvaldur Lúðvík segir að rannsókn þeirra bendi til að markaður sé fyrir fjórar til fimm vélar á viku frá Þýskalandi. Því sé líklegt að önnur félög komi á eftir Condor. „Við förum þá þangað sem við teljum að markaðurinn vilji að við sækjum.” Hann vill ekki gefa mikið upp um það til hvaða staða helst sé litið í Þýskalandi og í öðrum Evrópulöndum, nefnir þó Dublin á Írlandi, en það taki aðeins tæpa tvo tíma að fljúga þangað frá Akureyri. Dublin sé áhugaverður áfangastaður og flugvöllurinn helsti tengivöllur Ryanair.

Bæta verður Akureyrarflugvöll

Nicair er á byrjunarreit, flýgur í sumar til Kaupmannahafnar og Tenerife og að uppistöðu eru um borð ferðaþyrstir og glaðir Norðlendingar, sem fagna því eðlilega að þurfa ekki að leggja það á sig og kosta töluverðu til að fara suður á Keflavíkurflugvöll svo komast megi úr landi.

„Sætanýting til Kaupmannahafnar er það góð að við erum að velta því fyrir okkur að bæta við vél þangað.”

Aðstæður til flugs fyrir stærri flugvélar í Eyjafirði gera kröfur til þess að flugmenn æfi sig, fái þjálfun við að mæta aðstæðum þar, segir Þorvaldur Lúðvík. En svo eru það aðstæður á jörðu niðri. Óánægja hefur verið fyrir norðan með litla flugstöð og lítið flughlað. 

„Það verður að hraða framkvæmdum. Malbika verður flughlaðið hið allra snarasta. Ef tvær vélar koma á völlinn lokast hann. Flughlaðið verður að þola fleiri og stærri þotur. Við höfum verið að skoða það að nota stærri þotur en flughlaðið dugar ekki. Mér skilst að það vanti lítið upp á klára verkið. Eins og stundum áður þá strandar á fjárveitingavaldinu.”

Verið er að stækka sjálfa flugstöðina, búið er að steypa grunninn, en fyrirsjáanlegt er að þessi stækkun dugi ekki, eins og bent var á, segir framkvæmdastjóri. Nú er málum bjargað með bráðabirgðahúsnæði við flugstöðina og þröng er á þingi þegar verið er að afgreiða utanlandsflugið. 

Bráðvantar ný hótel í bæinn

Margt þarf að gera til að Akureyri geti staðið undir stóraukinni umferð ferðafólks. Ekki síst að hefja stórsókn í hóteluppbyggingu en í bænum blasir stöðnun við. „Ég segi að það sé bráðaðgerð að byggja eitt 200 herbergja þriggja stjörnu hótel og eitt 100 herbergja fjögurra stjörnu hótel. Þetta þarf að gerast ekki seinna en í gær!” segir Þorvaldur Lúðvík.

„Menn þora ekki að hugsa stórt, þora ekki að hugsa lengra, þora ekki að skera sig úr. Janteloven er mjög gildandi hér. Þeir sem þora að úttala sig um stóran hugmyndir eru litnir hornauga. Það eimir því miður eftir hér af einhverjum þorpsbrag. Menn þurfa að þora og verða að hafa trú á möguleikunum. Ég held að þetta komi þegar menn sjá að flug okkar gangi. Við hjá Niceair þurfum að hafa úthald næstu 12 til 18 mánuðina til að menn sjái að þetta sé í lagi. Núna erum við á góðu róli varðandi sætanýtingu og rekstrartölur en erum að keyra þetta á fáu fólki, á mikilli vinnu mjög fárra.”

Norðlendingar vilja ekki til Keflavíkur

En þrátt fyrir náttúrulega tortryggni Akureyringa í garð þeirra sem vilja gera sig gildandi og stíga út úr fjöldanum með nýjar hugmyndir þá segist heimamaðurinn Þorvaldur Lúðvík, eða Lúlli eins og Akureyringar kalla hann, glaður að finna hversu mikinn stuðning Niceair hafi fengið.  

„Íbúar á svæðinu ætla ekki að fara til Keflavíkur nema að þeir séu dregnir þangað á eyrunum!”

Þorvaldur Lúðvík segir Akureyringa almennt varfærna. Bankahrunið hafi farið illa með íbúa á suðvesturhorninu en skuldsetningarmöguleikinn hafi ekki verið til staðar í jafn miklum mæli fyrir norðan. Bankarnir hafi klárað útlánamöguleika sína fyrir sunnan áður en komið var norður. Þetta hafi t.a.m. haft áhrif á uppbyggingarmöguleika hótela á Norðurlandi. Kvótinn til lána í hótelbygginga hafi klárast fyrir sunnan. 

„Við erum á öðru hagsvæði. Hér er sveiflan á öðrum stað en fyrir sunnan. Þess vegna á að horfa á stóru myndina, horfa á landið allt sem heild.” 

Sjálfur er Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson brenndur af hruninu sem bankamaður í uppsveiflunni. Hefur sú reynsla ekki áhrif á hann núna? „Ég er varkárari. Ég þurfti að mæta eftirköstum hressilega. Það hafði áhrif á mína persónu. En ég sé ekki eftir neinu og gerði ekkert rangt.” En ekki valdi hann lognværasta bransann til að vera í – flugbransann.

„Nei, og sagði við konuna mína að ég þakkaði fyrir að vera með þessa reynslu á bakinu og hafa marga fjöruna sopið – einmitt til að vera í þessum flugbransa. Ég þakka bara fyrir að vera orðinn þetta gamall og þokkalega hraustur.” 

Erum bara í því að sinna landsbyggðinni

„Flugrekstur af þessari stærð hefur alla burði til að ganga vel. Icelandair hefur heykst á því að sinna landsbyggðinni. Niceair er bara í því að sinna landsbyggðinni. Út á það gengur okkar módel. Allur fókus Icelandair gengur út á að byggja upp tengiflug yfir Atlantshafið á Keflavíkurflugvelli, sem er nota bene einn stærsti ríkisstyrkur sögunnar,” segir Þorvaldur Lúðvík. 

Spjalli okkar í Gránufélagshúsum er að ljúka. Við erum búnir með kaffið. Fyrir utan streyma farþegar af þremur lystiskipum í land og ganga upp Strandgötuna. Brátt verður traffíkin á flugvellinum meiri, ekki síst fyrir tilverknað flugfélagsins sem kennir sig með sínum hætti við Norðurland – norðanvert Ísland. „Við höfum fengið fljúgandi start. Bretlandsmálið hefði getað orðið katastrófa en varð bara að holu í veginum. Við spenntum beltin og héldum áfram.” 

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …