Gríðarleg vinna er framundan hjá ferðaþjónustufyrirtækjum fyrir norðan og austan og stjórnkerfinu í kringum þau til að undirbúa þá vaxandi umferð sem fyrirsjáanleg er með áætlunarflugi þýska flugfélagsins Condor frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða næsta vor.
Meðal þeirra sem hafa nóg að gera á næstunni er María Sand Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri ferðamála á Austurbrú, sem Túristi hitti í starfsstöðinni á Egilsstöðum. Þarna er fámennur hópur við störf og öruggt er að það mun reyna á hópinn.
„Við bjóðum strax upp á fundi með öllum ferðaskrifstofum sem selja ferðir hingað. Þetta eru skrifstofur sem Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, hitti í vor þegar verið var að vinna að framgangi þessa máls. Fundir hefjast strax í dag, með spurningum og svörum, og við reynum að tengja fólk saman. Við erum að útbúa sérstakan upplýsingagrunn fyrir þýska markaðinn, texta á þýsku, myndir og myndbönd sem hægt er að nota. Það verður mjög mikið að gera á næstunni við að aðstoða þýsku ferðaskrifstofurnar, svara söluverum þeirra og sýna svæðið. Þá þarf að taka á móti blaðamönnum sem hingað koma. Svo þurfum við að ræða við bílaleigurnar og rútufyrirtækin og huga að Egilsstaðaflugvelli, en sem betur fer er hann stór, rúmgóður og praktískur. Hægt er að hólfa flugstöðina niður og fyrir framan eru næg bílastæði.”
Egilsstaðaflugvöllur var tómlegur í gær en flug Condor-félagsins þangað næsta sumar gæti þýtt að verulegar breytingar séu framundan. En koma þýska flugfélagsins austur gæti líka skapað tækifæri á tengingum við ferðir Norrænu. Ferðafólk gæti t.d. flogið til Egilsstaða og siglt síðan til baka frá Seyðisfirði.
„Við þurfum að þarfagreina hvað það er sem vantar. Við þurfum líka að halda fundi með okkar fólki hér á svæðinu,” segir María. „Margir hafa verið að spá í að hefja eitthvað nýtt. Þessi tíðindi með Condor gætu hjálpað fólki við að stíga skrefið. Og ef við getum hjálpað, þá erum við til staðar. Við erum í því að tengja allan daginn og setja hlutina í markvissan farveg. Við þurfum að hafa allt á hreinu okkar megin til að auðvelda þessa vinnu.”