Samfélagsmiðlar

Höfuðborg án samgöngumiðstöðvar

Líklega er óhætt að fullyrða að engin evrópsk höfuðborg eigi jafn dapurlega samgöngumiðstöð og Reykjavík. Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn segist vilja bæta úr á kjörtímabilinu.

Umferðamiðstöðin BSÍ

Umferðamiðstöðin, eða BSÍ, var glæsilegt mannvirki þegar hún var tekin í notkun árið 1965 og bætti til muna alla aðstöðu fyrir fólksflutningabíla og farþega sem komu til Reykjavíkur eða fóru þaðan. Áður hafði miðstöð farþegaflutninga verið við Kalkofnsveg og þar var jafnan þröng á þingi. Síðan eru liðin 57 ár og enn er BSÍ helsta tengimiðstöð fólksflutninga með bílum til og frá höfuðborginni. Eins og staðan er núna er varla að vænta byltingar á borð við þá sem varð 1965 á 60 ára afmælinu árið 2025. Hvað ætli flugfarþegar sem koma þá frá Keflavík til borgarinnar verði orðnir margir?

BSÍ-húsið sjálft er þreytulegt að utan en rúllur af pappa sem liggja uppi á þakinu benda til að einhverjar úrbætur á því séu framundan. Húsið sjálft, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, þarnast gagngerra endurbóta og hefur gert lengi. Innanhúss er þó sómasamlegt um að litast – en þarna er bara alltof þröngt, aðstaða í biðsal er óboðleg. 

Þegar Túristi leit þarna við nú um verslunarmannahelgina voru tveir ungir, erlendir ferðamenn, í óðaönn að skrúfa sundur reiðhjól sín eftir vonandi góða ferð um landið og pakka þeim niður í kassa fyrir flugferð heim. Þeir bisuðu við þetta í anddyri hússins og á stéttinni fyrir utan. Þreytt fólk sat í öllum lausum stólum innandyra og reyndi að hvíla sig á meðan það beið eftir rútuferð. Fátt við að vera. Flestir væntanlega á leið til Keflavíkur. Fyrir utan þetta musteri hópferðasamgangna í höfuðborg Íslands eru þreytulegar, sprungnar stéttir og ómalbikuð holótt bílaplön. 

Svona er aðstaðan sem við bjóðum gestum okkar. Þetta er andlit Reykjavíkur eins og það birtist mörgu erlendu ferðafólki sem kemur á BSÍ með flugrútunni frá Keflavík. Skilar ferðaþjónustan virkilega ekki nógu miklum tekjum til samfélagsins til að réttlæta meiri myndarskap þegar kemur að móttöku og þjónustu við ferðafólk? 

Nú segja auðvitað einhverjir (pólitíkusar): Jú, nýja samgöngumiðstöðin er á dagskrá. Hún er á leiðinni. Það hefur verið á dagskrá stjórnmálanna í mjög langan tíma að gera úrbætur í samgöngumiðstöðvarmálum í Reykjavík en iðulega hafa blandast inn í þau mál deilur um innanlandsflugið, framtíð Reykjavíkurflugvallar, og líka spekúlasjónir um legu borgarlínu og hvar miðstöðvar við hana eiga að vera. Alltaf næg tilefni til að tefja úrbætur. 

Flettum upp í sáttmála. Í lok nóvember á síðasta ári tók við ríkisstjórn þriggja flokka sem gerðu með sér sáttmála. Þar segir: „Unnið verður að áframhaldandi uppbyggingu og fjármögnun hágæða almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.” Ríkisvaldið hefur viljað byggja upp samgöngumiðstöð í Vatnsmýri, sem þjóna myndi innanlandsflugi og hópferðaflutningum en lítið hefur gerst. Starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins skilaði niðurstöðum 2018 og taldi áhugaverðasta kostinn þann að færa flugafgreiðslu á samgöngumiðstöð á BSÍ-reitnum. 

Hreyfing virtist loks komast á samgöngumiðstöðvarmálin þegar borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í desember 2018 að láta fara fram samkeppni um byggingu 5.000 – 6.500 fermetra samgöngumiðstöðvar á BSÍ-reitnum. Oddviti Sjálfstæðismanna lýsti því raunar að slík miðstöð ætti betur heima við Kringluna. Í október 2019 lagði starfshópur borgarinnar og Strætó bs. fram drög að keppnislýsingu sem unnin var með sérfræðingum verkfræðistofunnar Mannvits. 

Svo kom kórónaveiran – og sjálfsagt eitthvað fleira. 

Enn bíður BSÍ-reiturinn uppbyggingar og úrbóta. Lítið eða ekkert er gert til að hafa aðkomu sómasamlega – af því að alvöru uppbygging er handan við hornið. 

Er þá komið að næsta sáttmála, samstarfssáttmála meirihlutaflokkanna í borgarstjórn nú í sumarbyrjun. Þar segir: „Við viljum undirbúa Samgöngumiðstöð Reykjavíkur á Umferðarmiðstöðvarreit og vinna að því að græn samgöngutenging milli Reykjavíkur og Keflavíkur komist til framkvæmda.” 

Það er sannarlega ekki verið að lofa of miklu. 

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …