Samfélagsmiðlar

Fyrsta fimm stjörnu hótelið við Eyjafjörð rís á Þengilhöfða

Skortur á gistirými tefur sókn Norðlendinga í ferðamálum. Meðal þess sem þó er í undirbúningi er bygging fimm stjörnu lúxushótels í Grýtubakkahreppi. Þar er þegar farið að reisa húsnæði fyrir væntanlegt starfsfólk. Túristi ræddi við Ester Björnsdóttur, sölu- og markaðsstjóra Höfða Lodge.

Höfði Lodge sunnan Grenivíkur

Það kom vel fram á ráðstefnu sem Markaðsstofa Norðurlands hélt í Hofi á Akureyri í gær að ef vonir ganga eftir um fjölgun ferðafólks fyrir norðan á næstu árum sé ástæða til að hafa áhyggjur af því hvar koma megi ferðafólkinu fyrir. Þetta á þó enn aðallega við um sumargestina. Guðmundur Freyr Hermannsson, sérfræðingur KPMG, sagði þegar hann kynnti úttekt á gistirými á Norðurlandi að framboð hótelherbergja þar í sumar hefði aldrei verið jafn mikið frá 2017. Herbergin voru 1.269 í júlí í samanburði við 1.214 í sama mánuði 2019. Nú er hinsvegar spáð fjölgun ferðafólks á Norðurlandi á næstu árum vegna meira alþjóðaflugs þangað. Hvað gera Norðlendingar þá?

Ester Björnsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Höfða Lodge, kynnir áformin í Hofi – MYND: ÓJ

Margir á Akureyri eru súrir yfir því að fjárfestingafyrirtækið KEA skyldi heykjast á því að standa fyrir byggingu nýs hótels á Akureyri. Nú þegar sókn er hafin að nýju í ferðaþjónustunni eftir heimsfaraldur sitja Akureyringar eftir lítt búnir að mæta aukinni eftirspurn.

Eitt og annað er þó í pípunum. Eigendur Skógarbaðanna handan Akureyrar hyggjast byggja 120 herbergja hótel sunnan við böðin og á sú bygging að falla vel að umhverfinu. Utar með Eyjafirði er annað verkefni komið á góðan rekspöl: Höfði Lodge á Þengilhöfða sunnan Grenivíkur. Aðaleigendur eru Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, sem eiga og reka þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing, en starfsvettvangur þess er á Tröllaskaga. Meðal eigenda eru erlendir fjárfestar.

Fimm stjörnu hótelið Höfði Lodge verður opnað um áramótin 2023-24.

„Mikill tími og vinna hefur farið í hönnun og undirbúning svo að hratt gangi að reisa grindur og einingar þegar þær koma til landsins.“

Segir Ester Björnsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Höfða Lodge, í samtali við Túrista. Höfði Lodge verður 40 herbergja lúxushótel með fjórum svítum.

„Öll herbergin eru hönnuð þannig að úr þeim er útsýn yfir Eyjafjörð. Það verður einstakt. Höfði Lodge mun standa fjarri öllum átroðningi. Gestir geta notið kyrrðar, myrkurs og norðurljósanna.“

Öll herbergin snúa að Eyjafirði – Tölvuunnin mynd: Höfði Lodge

Athygli vekur að byrjað er á því að reisa húsnæði fyrir væntanlegt starfsfólk sem á eftir að þjóna gestum í væntanlegum glæsihúsum.

„Það er ekki mikið húsnæði í boði á Grenivík. Þegar fólk kemur á svæðið verður allt tilbúið. Þarna verður óvenju góður aðbúnaður starfsfólks.“

Þetta er óvenjulegt. Oft lenda ferðaþjónustufyrirtæki í tómum vandræðum með það hvar hýsa á starfsfólk.

Útsýn af Þengilhöfða út Eyjafjörð – MYND: Höfði Lodge

Höfði Lodge mun standa ofarlega á Þengilhöfða og við það verða þyrlupallar. Fyrir neðan er verið að reisa hesthús fyrir reiðskjóta gestanna sem gætu hugsað sér að skreppa í reiðtúr. Einnig er áhugi á að leggja hjólreiðastíga í samvinnu við Grýtubakkahrepp.

Hugmyndin er sú að Höfði Lodge verði glæsihöll ævintýrafólks sem er tilbúið og hefur efni á að gera vel við sig. Eigendurnir vildu þróa þyrlaskíðaævintýrið áfram en tímabil þeirra er aðeins þrír til fjórir mánuðir. Það hefur smollið inn í daufasta ferðamannatímann á Norðurlandi. Gestir Viking Heliskiing hafa gist á Sigló Hótel. Samstarfið við Siglfirðingana hefur verið mjög farsælt, segir Ester. Hugmyndin var að þróa og nýta fleiri afþreyingarmöguleika við Eyjafjörð – auka umsvif í ferðaþjónustu.

Væntanleg setustofa í Höfði Lodge – Tölvuunnin mynd: Höfði Lodge

„Svæðið býður upp á óendanlega möguleika, veiði, skíða- og gönguferðir. Síðan var ákveðið að bæta hestaferðum við. Ótrúlegur fjöldi fólks hefur áhuga á íslenska hestinum, kemur til landsins sérstaklega til að vera í návist hans. Við reiknum með að flestir komi í pakkaferðum. Hægt verði að kaupa pakka eins og nú í þyrluskíðaferðunum: skíði, gisting og matur, eða blandaða ferð: einn daginn á gönguskíðum, annan á rafhjóli, þriðja í hvalaskoðun.“

Inngangur að Höfða Lodge – Tölvugerð mynd: Höfði Lodge

Þau sem ekki þora á skíði með þyrlu upp á fjöll eiga samt kost á að gista á Höfða Lodge?

„Já, það er óhætt að segja það. Nóg af öðru verður í boði.“

Ester Björnsdóttir – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Dive.is. Fyrir áttu Kynnisferðir 51% hlut í félaginu á móti Tobias Klose. Dive.is sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun. Félagið leggur mikið uppúr upplifun viðskiptavina enda er það í efsta …

„Ég myndi halda að við værum stærsta flugfélagið fyrir þá sem eru að fljúga frá Íslandi," sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, á kynningarfundi hlutafjárútboðs félagsins, á þriðjudaginn. Máli sínu til stuðnings sýndi hinn nýi forstjóri og fyrrum stjórnarformaður flugfélagsins glæru þar sem sjá mátti hvernig hlutdeild Play á heimamarkaði hefur aukist og farið upp …

Árið 2018 kynnti netverslunin Amazon nýjung á bandarískum smásölumarkaði: Amazon Just Walk Out-Stores. Verslunin var kynnt sem mikil bylting og í rauninni væri lausn Amazon framtíðarlausn fyrir aðrar smásöluverslanir. Maður skannaði símann sinn þegar gengið var inn í Just Walk Out-verslun Amazon, valdi þær vörur sem maður girntist, setti þær í innkaupakörfu og síðan gat …

MYND: ÓJ

Fyrir heimsfaraldur voru flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu litlar, takmörkuðust lengst af við sumarferðir til Mílanó. Á þessu hefur orðið mikil breyting því nú er hægt að fljúga héðan allt árið til Rómar og Mílanó og á sumrin eykst úrvalið enn frekar.  Ítölsku ferðafólki hefur fjölgað verulega í takt við þessar auknu samgöngur og var …

Sala á hreinum rafbílum frá þýska bílaframleiðandanum BMW jókst um 41 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Með söluaukningunni er vægi rafbíla hjá BMW, sem einnig framleiðir Mini, komið upp í 20 prósent hjá þýska framleiðandnum en hlufallið var 15 prósent fyrir ári síðan samkvæmt frétt Bloomberg. Á sama tíma hefur orðið samdráttur í sölu á …

Kínverski bílaframleiðandinn Chery virðist vera að ná samningum um að eignast fyrstu verksmiðju sína í Evrópu, nánar tiltekið í katalónska höfuðstaðnum Barselóna á Spáni. Um er að ræða verksmiðju sem Nissan lokaði árið 2021 og er markmið yfirvalda á Spáni og héraðsstjórnarinnar í Katalóníu að endurheimta þau 1.600 störf sem þá glötuðust. Nú hefur katalónski …

Sjö af þeim níu þotum sem voru í flota Wow air undir það síðasta voru í eigu flugvélaleigunnar Air Lease Corporation (ALC). Ein þeirra var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins þann 28. mars árið 2019 en í takt við samkomulag Wow Air og Isavia var ávallt ein þota félagsins eftir á Keflavíkurflugvelli sem …

Það styttist í að Strætó geti boðið farþegum upp á að greiða með bankakortum á snertilausan hátt í vögnum sínum. „Loksins!“ segja vafalaust margir óreglulegir notendur þjónustunnar, sem hafa pirrað sig á því hversu flókið og fráhrindandi greiðslukerfi Strætó er - að þurfa að hlaða niður Klapp-appinu (smáforriti), kaupa sérstaka passa með fyrirframgreiddum fargjöldum og …