Samfélagsmiðlar

Fyrsta fimm stjörnu hótelið við Eyjafjörð rís á Þengilhöfða

Skortur á gistirými tefur sókn Norðlendinga í ferðamálum. Meðal þess sem þó er í undirbúningi er bygging fimm stjörnu lúxushótels í Grýtubakkahreppi. Þar er þegar farið að reisa húsnæði fyrir væntanlegt starfsfólk. Túristi ræddi við Ester Björnsdóttur, sölu- og markaðsstjóra Höfða Lodge.

Höfði Lodge sunnan Grenivíkur

Það kom vel fram á ráðstefnu sem Markaðsstofa Norðurlands hélt í Hofi á Akureyri í gær að ef vonir ganga eftir um fjölgun ferðafólks fyrir norðan á næstu árum sé ástæða til að hafa áhyggjur af því hvar koma megi ferðafólkinu fyrir. Þetta á þó enn aðallega við um sumargestina. Guðmundur Freyr Hermannsson, sérfræðingur KPMG, sagði þegar hann kynnti úttekt á gistirými á Norðurlandi að framboð hótelherbergja þar í sumar hefði aldrei verið jafn mikið frá 2017. Herbergin voru 1.269 í júlí í samanburði við 1.214 í sama mánuði 2019. Nú er hinsvegar spáð fjölgun ferðafólks á Norðurlandi á næstu árum vegna meira alþjóðaflugs þangað. Hvað gera Norðlendingar þá?

Ester Björnsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Höfða Lodge, kynnir áformin í Hofi – MYND: ÓJ

Margir á Akureyri eru súrir yfir því að fjárfestingafyrirtækið KEA skyldi heykjast á því að standa fyrir byggingu nýs hótels á Akureyri. Nú þegar sókn er hafin að nýju í ferðaþjónustunni eftir heimsfaraldur sitja Akureyringar eftir lítt búnir að mæta aukinni eftirspurn.

Eitt og annað er þó í pípunum. Eigendur Skógarbaðanna handan Akureyrar hyggjast byggja 120 herbergja hótel sunnan við böðin og á sú bygging að falla vel að umhverfinu. Utar með Eyjafirði er annað verkefni komið á góðan rekspöl: Höfði Lodge á Þengilhöfða sunnan Grenivíkur. Aðaleigendur eru Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, sem eiga og reka þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing, en starfsvettvangur þess er á Tröllaskaga. Meðal eigenda eru erlendir fjárfestar.

Fimm stjörnu hótelið Höfði Lodge verður opnað um áramótin 2023-24.

„Mikill tími og vinna hefur farið í hönnun og undirbúning svo að hratt gangi að reisa grindur og einingar þegar þær koma til landsins.“

Segir Ester Björnsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Höfða Lodge, í samtali við Túrista. Höfði Lodge verður 40 herbergja lúxushótel með fjórum svítum.

„Öll herbergin eru hönnuð þannig að úr þeim er útsýn yfir Eyjafjörð. Það verður einstakt. Höfði Lodge mun standa fjarri öllum átroðningi. Gestir geta notið kyrrðar, myrkurs og norðurljósanna.“

Öll herbergin snúa að Eyjafirði – Tölvuunnin mynd: Höfði Lodge

Athygli vekur að byrjað er á því að reisa húsnæði fyrir væntanlegt starfsfólk sem á eftir að þjóna gestum í væntanlegum glæsihúsum.

„Það er ekki mikið húsnæði í boði á Grenivík. Þegar fólk kemur á svæðið verður allt tilbúið. Þarna verður óvenju góður aðbúnaður starfsfólks.“

Þetta er óvenjulegt. Oft lenda ferðaþjónustufyrirtæki í tómum vandræðum með það hvar hýsa á starfsfólk.

Útsýn af Þengilhöfða út Eyjafjörð – MYND: Höfði Lodge

Höfði Lodge mun standa ofarlega á Þengilhöfða og við það verða þyrlupallar. Fyrir neðan er verið að reisa hesthús fyrir reiðskjóta gestanna sem gætu hugsað sér að skreppa í reiðtúr. Einnig er áhugi á að leggja hjólreiðastíga í samvinnu við Grýtubakkahrepp.

Hugmyndin er sú að Höfði Lodge verði glæsihöll ævintýrafólks sem er tilbúið og hefur efni á að gera vel við sig. Eigendurnir vildu þróa þyrlaskíðaævintýrið áfram en tímabil þeirra er aðeins þrír til fjórir mánuðir. Það hefur smollið inn í daufasta ferðamannatímann á Norðurlandi. Gestir Viking Heliskiing hafa gist á Sigló Hótel. Samstarfið við Siglfirðingana hefur verið mjög farsælt, segir Ester. Hugmyndin var að þróa og nýta fleiri afþreyingarmöguleika við Eyjafjörð – auka umsvif í ferðaþjónustu.

Væntanleg setustofa í Höfði Lodge – Tölvuunnin mynd: Höfði Lodge

„Svæðið býður upp á óendanlega möguleika, veiði, skíða- og gönguferðir. Síðan var ákveðið að bæta hestaferðum við. Ótrúlegur fjöldi fólks hefur áhuga á íslenska hestinum, kemur til landsins sérstaklega til að vera í návist hans. Við reiknum með að flestir komi í pakkaferðum. Hægt verði að kaupa pakka eins og nú í þyrluskíðaferðunum: skíði, gisting og matur, eða blandaða ferð: einn daginn á gönguskíðum, annan á rafhjóli, þriðja í hvalaskoðun.“

Inngangur að Höfða Lodge – Tölvugerð mynd: Höfði Lodge

Þau sem ekki þora á skíði með þyrlu upp á fjöll eiga samt kost á að gista á Höfða Lodge?

„Já, það er óhætt að segja það. Nóg af öðru verður í boði.“

Ester Björnsdóttir – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …