Samfélagsmiðlar

Milljón gesta í Hallgrímskirkju

Hallgrímskirkja er sannarlega einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna í Reykjavík. Flesta daga liggur stöðugur straumur fólks upp Skólavörðuholtið og inn í þessa stærstu kirkju landsins og eitt helsta tákn borgarinnar. Túristi ræddi við Sigríði Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju.

Nóvemberdagur á Skólavörðuholti.

Mikil starfsemi er í Hallgrímskirkju árið um kring, auk helgihalds fer þar fram margháttað safnaðarstarf og kirkjan er vinsælt tónlistarhús. Til safnaðarins teljast um sjö þúsund manns en margfalt fleiri skoða og njóta kirkjunnar. Hversu margir ferðamenn áætlið þið að skoði kirkjuna á venjulegum degi og í heild árlega? 

Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju

„Við áætlum að á venjulegu ári heimsæki Hallgrímskirkju um ein milljón manns. Yfir sumartímann er opið fram á kvöld og það er stöðugur straumur fólks í kirkjuna allan daginn, allt upp í fimm þúsund manns á dag. Yfir veturinn er rólegra en þó á bilinu sex hundruð til tvö þúsund manns á dag.“ 

Í miðasölunni – MYND: ÓJ

Þetta er mikill gestafjöldi. Stór hluti kaupir væntanlega miða og fer upp í 73 metra háan turninn til að njóta útsýnis yfir borgina og umhverfi hennar. 

„Á bilinu 250 til 300 þúsund manns fara á ári hverju upp í turn. Það er breytilegt eftir árstíma hver aðsóknin er og getur sveiflast frá um 200 manns upp í tvö þúsund á dag. Árið 2019 endurnýjuðum við lyftuna, sú nýja er tvöfalt fljótari upp og eykur þannig afköstin töluvert. Það breytir heilmiklu að hafa ekki röð í lyftuna langt inn í kirkju.“ 

Ferðafólk í Hallgrímskirkju – MYND: ÓJ

Hallgrímskirkja var lengi í byggingu. Guðjón Samúelsson byrjaði að teikna hana árið 1937 og framkvæmdir hófust 1945, eftir lok síðari heimsstyrjaldar. Söfnuðurinn notaði bæði kjallara og suðurálmu turnsins fyrir helgihald en byggingu og frágangi var ekki lokið fyrr en 1986 þegar kirkjan var vígð. Síðan hafa margskonar endurbætur verið gerðar og stöðugt þarf að sinna kostnaðarsömu viðhaldi. Eru tekjur af ferðafólki mikilvægar til að mæta þeim kostnaði? 

Einn vinsælasti myndatökustaður landsins – MYND: ÓJ

„Tekjur af ferðafólki eru í raun forsenda þess að við getum sinnt viðhaldi á kirkjunni og haldið úti öflugu starfi bæði fyrir söfnuðinn og aðra gesti. Sóknargjöldin hrökkva skammt í þeim efnum.“ 

Valda komur ferðafólks í kirkjuna einhverjum ama, truflunum eða skemmdum? Hvað með kostnað? 

„Það getur stundum verið snúið að vera sóknarkirkja með mörg hlutverk. Um leið og við tökum ferðamönnum og öðrum gestum fagnandi þá þurfum við líka að halda uppi safnaðarstarfi, helgihaldi, kirkjulegum athöfnum og tónleikum. Það getur verið heilmikil vinna að halda ferðamönnum frá við lokaðar athafnir en það hefur þó almennt gengið vel. Fólk sýnir skilning um leið og það fær skýringar. 

Gott er að hvílast á kirkjubekkjum – MYND: ÓJ

Ferðamenn sýna almennt kirkjunni mikla virðingu svo við höfum ekki orðið vör við vísvitandi truflanir eða skemmdarverk. Við þurfum auðvitað að sinna viðhaldi vel og endurnýja reglulega ákveðna hluti sem verða fyrir ágangi og álagi en það er eðlilegt þegar svo margir ganga um.“ 

Að kirkjuheimsókn lokinni – MYND: ÓJ

Hver sýnast ykkur viðbrögð gesta vera, kunna þeir að meta kirkjuna?

„Heilt yfir eru gestir mjög hrifnir af Hallgrímskirkju. Hönnun kirkjunnar heillar marga, þessi fágaði hreini stíll sem sést ekki víða í kirkjum. Við vorum að ljúka við að endurhanna alla lýsingu í kirkjunni, bæði að utan og innan, svo nú nýtur byggingin sín enn betur en áður þegar dimma tekur. Þetta er algjör bylting sem býður upp á endalausa möguleika í lýsingu og litum. Það hefur að vonum vakið mikla athygli og lukku. 

Það er gaman að sjá hversu margir gestir setjast niður og slaka á í kirkjubekkjunum, kveikja á kerti og taka inn andann í kirkjunni.“ 

Ferðamannastraumur á Skólavörðustíg á góðum sumardegi – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Dive.is. Fyrir áttu Kynnisferðir 51% hlut í félaginu á móti Tobias Klose. Dive.is sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun. Félagið leggur mikið uppúr upplifun viðskiptavina enda er það í efsta …

„Ég myndi halda að við værum stærsta flugfélagið fyrir þá sem eru að fljúga frá Íslandi," sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, á kynningarfundi hlutafjárútboðs félagsins, á þriðjudaginn. Máli sínu til stuðnings sýndi hinn nýi forstjóri og fyrrum stjórnarformaður flugfélagsins glæru þar sem sjá mátti hvernig hlutdeild Play á heimamarkaði hefur aukist og farið upp …

Árið 2018 kynnti netverslunin Amazon nýjung á bandarískum smásölumarkaði: Amazon Just Walk Out-Stores. Verslunin var kynnt sem mikil bylting og í rauninni væri lausn Amazon framtíðarlausn fyrir aðrar smásöluverslanir. Maður skannaði símann sinn þegar gengið var inn í Just Walk Out-verslun Amazon, valdi þær vörur sem maður girntist, setti þær í innkaupakörfu og síðan gat …

MYND: ÓJ

Fyrir heimsfaraldur voru flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu litlar, takmörkuðust lengst af við sumarferðir til Mílanó. Á þessu hefur orðið mikil breyting því nú er hægt að fljúga héðan allt árið til Rómar og Mílanó og á sumrin eykst úrvalið enn frekar.  Ítölsku ferðafólki hefur fjölgað verulega í takt við þessar auknu samgöngur og var …

Sala á hreinum rafbílum frá þýska bílaframleiðandanum BMW jókst um 41 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Með söluaukningunni er vægi rafbíla hjá BMW, sem einnig framleiðir Mini, komið upp í 20 prósent hjá þýska framleiðandnum en hlufallið var 15 prósent fyrir ári síðan samkvæmt frétt Bloomberg. Á sama tíma hefur orðið samdráttur í sölu á …

Kínverski bílaframleiðandinn Chery virðist vera að ná samningum um að eignast fyrstu verksmiðju sína í Evrópu, nánar tiltekið í katalónska höfuðstaðnum Barselóna á Spáni. Um er að ræða verksmiðju sem Nissan lokaði árið 2021 og er markmið yfirvalda á Spáni og héraðsstjórnarinnar í Katalóníu að endurheimta þau 1.600 störf sem þá glötuðust. Nú hefur katalónski …

Sjö af þeim níu þotum sem voru í flota Wow air undir það síðasta voru í eigu flugvélaleigunnar Air Lease Corporation (ALC). Ein þeirra var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins þann 28. mars árið 2019 en í takt við samkomulag Wow Air og Isavia var ávallt ein þota félagsins eftir á Keflavíkurflugvelli sem …

Það styttist í að Strætó geti boðið farþegum upp á að greiða með bankakortum á snertilausan hátt í vögnum sínum. „Loksins!“ segja vafalaust margir óreglulegir notendur þjónustunnar, sem hafa pirrað sig á því hversu flókið og fráhrindandi greiðslukerfi Strætó er - að þurfa að hlaða niður Klapp-appinu (smáforriti), kaupa sérstaka passa með fyrirframgreiddum fargjöldum og …