„Eins og staðan er í rafmagnsmálum við Keflavíkurflugvöll þá er ekki hægt að setja upp fleiri hleðslustöðvar. Það segir sig auðvitað sjálft að ef við ætlum að leigja ferðamönnum rafbíla þá verður að vera hægt að hlaða þá í Keflavík. Ferðamenn þurfa líka að geta hlaðið bílana á gististöðum. Við getum ekki sett allt álagið á örfáar bensínstöðvar þar sem búið er að setja upp rafhleðslustöðvar,” sagði Steingrímur í viðtali við Túrista.
Stór hluti ferðafólks sem kemur til landsins leigir sér bíl. Steingrímur lýsir í viðtalinu aðstöðuleysi bílaleiganna við flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem í gangi eru miklar framkvæmdir.
„Aðstaðan er nánast engin. Það má segja að við séum á stöðugum flótta, vitum ekki hvaða útisvæði við höfum frá ári til árs. Miklar framkvæmdir eru í gangi og við þurfum að færa okkur til vegna þeirra. Vonandi skila einhverju þær viðræður sem við erum núna í við Isavia um betri aðstöðu. Aðstaða þeirra bílaleiga sem eru með starfsstöðvar inni í flugstöðinni er mjög döpur, gæti verið miklu betri með tiltölulega litlum breytingum, sem Isavia hefur til þessa ekki viljað hlusta á að þurfi að verða. Það eru breytingar sem myndu draga verulega úr umferðarálagi á svæðinu. Svo höfum við fengið þau svör að ekki sé hægt að setja upp fleiri hleðslustöðvar af því að það vanti rafmagn!”
Það er gríðarlegt umferðarálag við flugstöðina. Auk bílaleigubílanna, þá kemur mjög stór hluti farþega á einkabílum. Þurfa bílaleigurnar ekki að vera fjær flugstöðinni?
„Jú, það er að gerast. Bílaleigurnar eru margar farnar á lóðir fjær. Það er kannski ekkert verra. Þá einföldum við umferðarmálin í kringum flugstöðina. Viðskiptavinir verði bara fluttir með vögnum frá flugstöðinni til bílaleiganna. Við þurfum alla vega að fá svör frá Isavia um það hvernig þau vilja hafa hlutina til framtíðar.”