Samfélagsmiðlar

Gullnir hringir túrismans

Meðal stærstu viðfangsefna ferðaþjónustu hvar sem er í heiminum er að koma í veg fyrir troðningstúrisma, gera álagið ekki óbærilegt á afmörkuðum stöðum. Í troðningi verða allir súrir og svekktir: íbúarnir, þjónustuaðilar - og auðvitað sjálfir ferðamennirnir.

Ferðafólk við Strokk

Ferðafólk bíður í ofvæni eftir að Strokkur gjósi

Í hinni eilífu Róm birtist ágætt dæmi um harla misheppnaða ferðamálastefnu. Íbúarnir og ferðamennirnir sitja uppi með afleiðingar rótgróinnar spillingar, sem birtist í hugmyndaskorti, getuleysi eða bara leti. Róm kemst upp með þetta af því að þetta er jú sjálf Róm, óendanlega sögurík, fögur og heillandi. En það segir sína sögu að á sama tíma og Róm fær 9-10 milljónir gesta á venjulegu ári mega þau í París og London vænta þess að fá 19-20 milljónir gesta. 

Röð við Pantheon í Róm
Ferðafólk bíður í langri röð eftir að komast inn í Pantheon í Róm – MYND: ÓJ

Munurinn liggur ekki í því að Róm sé ekki jafn heillandi og hinar heimsborgirnar tvær heldur í illa skipulagðri ferðamálastefnu. Það eru ekki margir ferðamenn í Róm miðað við París og London en vandinn er sá að þeir dreifast miklu síður. Maður fær á tilfinninguna að ferðamenn séu margfalt fleiri í Róm en hinum borgunum tveimur. Það virðist ekki reynt almennilega að dreifa fólki um borgina, vekja athygli á áhugaverðum stöðum og byggingum utan sögulegu miðjunnar í bugðunni á Tíber að Palatínhæð og innan Páfagarðs. 

Mannþröng við Trevi í Róm
Mannþröng við Trevi-brunninn í Róm – MYND: ÓJ

Meðal dvalartími ferðamanns í Róm er aðeins 2-3 dagar en í París og London 6-7 dagar. Það segir sína sögu. Nokkrir staðir eru bókstaflega troðnir. Nánast eina fólkið sem ferðamaðurinn sér eru aðrir ferðamenn  – og svo þjónarnir sem reyna að lokka þá til sætis. Íbúum í miðborginni fækkar ár frá ári. Nú eru þeir aðeins um 80 þúsund. Þetta hefur áhrif á gestinn sem röltir um borgina. Með undirbúningi og útsjónarsemi er hægt að forðast mesta troðninginn, mæta snemma á frægustu staðina – eða bara fara annað.

Vatíkanið
Í Páfagarði – MYND: ÓJ

Túristi skrifaði um októberferð sína til höfuðborgar Ítalíu og hugsaði sem svo að Róm gæti verið Íslandi víti til varnaðar í ferðamálastefnu. Eru ekki svolítil líkindi með Gullna hringnum okkar: Þingvellir – Geysir – Gullfoss, eða ferð með suðurströndinni þar sem finna má flugvélarflak og háskalega öldu á svörtum sandi eða ís á lóni, til gullnu hringferðanna innan borgarmiðju Rómar, þar sem þúsundir og aftur þúsundir fikra sig á tveimur eða þremur dögum á milli Pantheon, Colosseum,Trevi-brunnsins, Péturskirkjunnar, Sixtínsku kapellunnar og Forum Romanum?

Ferðamenn í Róm – MYND: ÓJ

Það er hægt að stýra umferð ferðafólks töluvert mikið. Áðurnefndir staðir í Róm hafa dregið að sér ferðafólk um langan aldur og munu gera áfram. Það hlýtur hinsvegar að vera hægt að vekja athygli á stöðum sem tengjast nútímasögu, list og arkitektúr samtímans, draga ferðafólkið lengra út í hverfin – í deiglu líðandi stundar. Það er ekki gert.

Svipað mætti segja um okkur hér uppi á Íslandi. Það vilja allir ferðamenn fara Gullna hringinn. Hvers vegna að eyða púðri í að draga þá í Dalina, norður á Strandir eða út á Vatnsnes – hvað þá lengra norður í land eða austur á firði? Þráinn Lárusson, hótelhaldari og veitingamaður á Héraði, ólst upp á Akureyri og í ungdæmi hans var Mývatnssveit vinsælasti ferðamannastaður landsins. Nú hlær Þráinn og hristir hausinn þegar hann segir Túrista frá því að Mývatnssveitin komist ekki einu sinni á Topp-10 listann! 

„Það hefur verið farið hroðalega með opinbert fé í markaðssetningu. Suðurlandið er eins og feiti unginn í hreiðrinu sem étur frá okkur hinum. Auðvitað er ég í augum þeirra fyrir sunnan þessi leiðinlegi fúli gaur með landsbyggðarvæl, en ég segi óhikað: Það á að hætta að markaðssetja Ísland eins og við gerum það í dag. Þetta er búið. „Ísland” í dag er svæðið frá Reykjavík að Jökulsárlóni. Vegna gífurlegrar markaðssetningar er þetta orðið „Ísland.” Það sést á erlendri umfjöllun um Íslandsferðir, bestu gistingu og besta matinn: Allt er það fyrir sunnan.” 

Þráinn á Hótel Hallormsstað – MYND: ÓJ

Sólin skín á svölum Hótels Hallormsstaðar þennan dag þegar Túristi ræðir við Þráin um stöðu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni. Það er dálítið óraunverulegt að sitja þarna með honum og tala um að landsbyggðin sé afskipt. Allt í kringum okkur er þéttur skógurinn, sólskin og hiti í lofti, meginlandsstemmning frekar en einhver útkjálkabragur. Túristi hafði ekki komið við í Stuðlagili, þar sem vafalaust var margt fólk að skoða sig um og senda myndir á Instagram eða aðra samfélagsmiðla.

„Stuðlagramm!” hugsaði Túristi. 

Þráinn Lárusson hefur þann kost að vera óhræddur að segja sína meiningu. Hann hefur alveg efni á að segja sína skoðun, hún byggist á langri reynslu. Þráinn hefur eiginlega gefist upp á því að ferðaþjónustan úti á landi sé aukahlutverki þegar kemur að úthlutun markaðsfjár hins opinbera og stóru fyrirtækjanna í bransanum. 

Herðubreið
Herðubreið séð af þjóðveginum – MYND: ÓJ

„Ég hef í mörg ár talað fyrir því að landinu verði skipt í tvennt: Norður- og Suður-Ísland, North of Iceland og South of Iceland. Þá ætti Norður-Ísland að fá sinn skerf af markaðsfénu – en ég er ekki að segja að það eigi að skipta fénu jafnt, ekki endilega. Nú er staðan hinsvegar sú að hundruðum milljóna af markaðsfé opinberra aðila og einkafyrirtækja eins og Icelandair er varið í að selja Suðurland á sama tíma og við fáum sem svarar kostnaði af nokkrum heilsíðuauglýsingum. Þetta eru í grunninn mjög ólík markaðssvæði. Við erum að sækjast eftir öðrum kúnnum en þau á suðvesturhorninu, þar er t.d. sóst eftir Bandaríkjamönnum sem eiga stutta viðdvöl á Íslandi á leið til annarra Evrópulanda. Við viljum fá annars konar túrista. Við þurfum að öðlast þann þroska að skipta þessu niður og dreifa ferðafólki betur um landið.” 

Arnheiður Jóhannsdóttir
Arnheiður Jóhannsdóttir – MYND: ÓJ

Mikilvægi meiri dreifingar ferðafólks um landið var eitt meginþemað í umfjöllun Túrista á árinu 2022. Það tóku ýmsir undir með Þráni á Héraði eða töluðu á svipuðum nótum. Mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu voru reyndar komin upp að vegg eftir heimsfaraldur.

„Það hefur þau áhrif að ekki er ráðið jafn margt starfsfólk og þyrfti. Menn treysta sér ekki að ráða marga nema að sjá fram á öruggar tekjur, sem þýðir að starfsemi er ekki á fullum afköstum.”

Þetta sagði Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í sumar.

Baráttusystir hennar í að eflia ferðaþjónustu á landsbyggðinni er Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. Báðar hafa þær þurft að eiga við veruleika þar sem Suðurland er þéttsetið af ferðafólki á meðan miklu rólegra var fyrir vestan, norðan og austan. Jóna Árný sagði við Túrista í haust að það hafi verið erfitt að fylgjast með því hversu mikið bilið breikkaði:

Jóna Árný Þórðardóttir
Jóna Árný Þórðardóttir – MYND: ÓJ

„Ákveðin svæði voru ofboðslega heit á meðan önnur voru botnfrosin. Við erum að kalla eftir samstarfi um að reyna að jafna þetta. Ég tel að það sé í allra þágu að ferðaþjónusta á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum vaxi og dafni – að meira jafnvægi náist. Það styrkir Ísland í heildina.” 

Hótel Rangá er staðsett í meginstraumi erlendra ferðamanna um landið – við „Gullströndina,“ eins og Þráinn Lárusson kallar suðurströnd Íslands með tilvísun í uppgripin þar. Eigandi Hótel Rangár er Friðrik Pálsson, þrautreyndur rekstrarmaður sem að loknum löngum ferli í sölu fiskafurða snéri sér að hótelrekstri. Og það hefur gengið vel hjá honum. Árin fram að heimsfaraldri voru sannkallaðir uppgripstímar. En Friðrik áttar sig á því að kominn er tími á breytingar í ferðaþjónustunni:

Friðrik Pálsson
Friðrik Pálsson ræðir við starfsmann um verkefni dagsins á Hótel Rangá – MYND: ÓJ

„Það er alvarlegasti vandi ferðaþjónustunnar í dag hversu lítið ferðamenn dreifast út á land. Stundum verður mér á að líta á Ísland sem eitt fyrirtæki. Væri íslensk ferðaþjónusta eitt fyrirtæki þá væri enginn vafi í mínum huga að hún myndi leggja í verulegar fjárfestingar úti á landi og þá um leið markaðssetningu til þess að tryggja að sú fjárfesting skilaði sér. Það koma mjög margir sem vilja geta farið hringinn en þegar staðan er sú að ekkert hótel finnst fyrir vestan, norðan eða austan þá endar það með því að fólkið annað hvort hættir við að koma til Íslands eða heldur sig bara á suðvesturhorninu og á Snæfellsnesi. Það er út af fyrir sig ágætt fyrir okkur hér sunnanlands til skemmri tíma litið en til lengri tíma litið þá er ég ekki í vafa um að það myndi skila ferðaþjónustunni í heild mjög miklu.” 

MYND: Hitamælir SAF, 21.desember 2022

Friðrik nefndi skortinn á sómasamlegum hótelum á landsbyggðinni. Það er auðvitað sárgrætilegt að á Akureyri og Ísafirði séu ekki hótel í hæstu gæðaflokkum og raunar skortur á gistirými þegar traffíkin er mest um sumartímann. Þetta kom margoft fram í viðtölum sem Túristi átti í sumar við fólk í ferðaþjónustunni. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair á Akureyri, var ómyrkur í máli: 

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson á Oddeyri í sumar – MYND: ÓJ

„Ég segi að það sé bráðaðgerð að byggja eitt 200 herbergja þriggja stjörnu hótel og eitt 100 herbergja fjögurra stjörnu hótel. Þetta þarf að gerast ekki seinna en í gær! Menn þora ekki að hugsa stórt, þora ekki að hugsa lengra, þora ekki að skera sig úr. Janteloven er mjög gildandi hér. Þeir sem þora að úttala sig um stóran hugmyndir eru litnir hornauga. Það eimir því miður eftir hér af einhverjum þorpsbrag. Menn þurfa að þora og verða að hafa trú á möguleikunum. Ég held að þetta komi þegar menn sjá að flug okkar gangi. Við hjá Niceair þurfum að hafa úthald næstu 12 til 18 mánuðina til að menn sjái að þetta sé í lagi.”

Akureyri og Pollurinn
Horft yfir Pollinn við Akureyri – MYND: ÓJ

Það er alveg ljóst í huga Þorvaldar Lúðvíks og margra kollega hans í ferðamálageiranum á landsbyggðinni að það sé forsenda stórsóknar í uppbyggingar þar að fá meira beint flug til Akureyrar og Egilsstaða. Tilkoma Niceair skipti þar miklu máli þó enn sem komið er byggist afkoman frekar á því að auðvelda Norðlendingum ferðalífið heldur en að flytja erlenda ferðamenn norður. Þeim fer þó fjölgandi í flugvélum Niceair – og á eftir að fjölga enn eftir því sem áfangastöðum og ferðum fjölgar. 

Margar ferðaskrifstofur og flugfélög í helstu viðskiptalöndum okkar eru átta sig á möguleikunum sem felast í því að bjóða ferðafólki að sneiða framhjá troðnustu ferðamannaslóðunum á Suðvestur- og Suðurlandi og fara beinustu leið inn á heillandi en um leið fáfarnari slóðir á Norður- og Austurlandi, aka Norðurstrandarleiðina og Demantshringinn, fara í hvalaskoðunarferðir, njóta heitra baðstaða og þræða strjálbýla firði.

Einn þeirra sem vinnur úti á akrinum í ferðaþjónstunni, bjástrar við að reka fyrirtæki árið um kring í þjónustu við ferðafólk, er Anton Freyr Birgisson hjá Geo Travel. Túristi birti viðtal við hann á Þorláksmessu:

„Vetrarferðaþjónusta á Norðurlandi án beins flugs er ekki möguleg. Það eru falleg teikn á lofti varðandi beina flugið. Niðurstaða okkar er í rauninni þessi: Það er ekki raunhæft að fjárfesta og halda áfram í ferðaþjónustu á Norðurlandi að vetrarlagi nema búið sé að koma á beinu flugi.

Anton Freyr Birgisson
Anton Freyr Birgisson – MYND: ÓJ

Við ætlum okkur að gera hlutina vel. Það sem skiptir okkur máli núna er að styrkja beina flugið og fá stjórnvöld til að skilja að við erum ekki að leika okkur heldur að byggja upp framtíðar atvinnuveg sem getur borið uppi þessi samfélög.”

Þetta gerist ekki að sjálfu sér. Það verður að kveikja áhugann og sannfæra mann og annan um að þetta sé framkvæmanlegt. Aðstæður séu fyrir hendi ef fólk fær flug. Jóna Árný Þórðardóttir kom að því að vekja áhuga þýska Condor-flugfélagsins á því að fljúga beint til Akureyrar og Egilsstaða næsta sumar. Það tókst. Condor tilkynnti að á næsta ári myndi félagið fljúga frá maí til loka október annars vegar á milli Frankfurt og Akureyrar og hinsvegar þýsku borgarinnar og Egilsstaða. Farþegar félagsins geta þá ef þeir kjósa flogið til annars þessara bæja á Íslandi en haldið heim frá hinum. 

Egilsstaðaflugvöllur
Tómlegur Egilsstaðaflugvöllur í sumar – MYND: ÓJ

„Við á Austurlandi ákváðum að setja fókusinn á Þýskalandsmarkað. Ástæðan var einfaldlega sú að það er markaður sem við þekkjum vel. Þýskir ferðamenn dvelja almennt lengur en aðrir og eru sjálfstæðir á sínum ferðalögum, skoða hlutina vel fyrirfram, skipuleggja ferðir sínar vel. Við teljum okkur hafa margt af því sem þýski markaðurinn sækist eftir. Þýski ferðamaðurinn vill vera frjáls í að fara á milli staða, njóta náttúrunnar, heimsækja samfélög og kynnast fólki. Við getum boðið upp á þetta.”

Eins og vænta mátti vakti þetta athygli annarra og nýlega bárust fréttir af því að svissneska flugféagið Edelweiss hæfi áætlunarflug milli Zürich og Akureyrar á sjö vikna tímabili, frá 7. júlí til 18. ágúst, en félagið stefnir að því að lengja tímabilið árið 2024 í fjóra mánuði ef viðtökur verða góðar.

Díana Jóhannsdóttir
Díana Jóhannsdóttir á rigningardegi á Ísafirði – MYND: ÓJ

Þetta var um vonina sem vaknað hefur á Norður- og Austurlandi um að bjartari tímar séu framundan í ferðaþjónustu þar með beinu flugi til útlanda. En hvað með Vestfirði, þann landshluta sem fæstir ferðamenn heimsækja. Díana Jóhannsdóttir á Vestfjarðastofu orðaði stöðuna svona: 

„Við erum minnst heimsótti landshlutinn. Þar eru ákveðnir flöskuhálsar: Við takmörkum aðgengið með innviðunum. Fullbókað er í gistingum yfir sumarið. Erfitt er orðið að fá gistingu þá. Við þurfum fjárfestingu til að halda áfram og nýta betur það sem fyrir er árið um kring. Annars byggjum við ekki á fjöldatúrisma. Það hentar okkur ekki. En sannarlega viljum við sjá meiri straum ferðafólks hingað.”

Díana ræddi við Túrista þá byltingu sem fælist í að fá Dýrafjarðagöngin, en fleiri úrbætur eru á leiðinni: 

„Eftir fjögur ár verðum við í mjög góðum málum, þegar lokið verður úrbótum á Dynjandisheiði. Þar hafa verið miklar framkvæmdir sem valdið hafa erfiðleikum í ferðaþjónustunni. Svo er það vegurinn um Teigsskóg.”

Vestfirðir eru það landsvæði á Íslandi sem mest á inni hvað varðar ferðaþjónustu. Svo geta menn velt fyrir sér hvort það eigi endilega að efla ferðaþjónustu um allt land. 

Páll Ásgeir Ásgeirsson
Páll Ásgeir Ásgeirsson – MYND: ÓJ

„Af hverju eigum við að dreifa ferðafólki?” spurði Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögumaður og rithöfundur, í viðtali við Túrista, sem svaraði Páli Ásgeiri því að segja að dreifingin yrði til þess að minnka álag á ofsetnum stöðum og efla atvinnulíf annars staðar með ferðaþjónustu. Þessu svaraði Páll Ásgeir þannig:

 „Þegar við segjumst vilja dreifa ferðafólki erum við alltaf að hugsa um hagrænu hliðina, að færa búhnykkinn af ferðamönnum heim í hérað. En frá sjónarhóli náttúruverndar ættum við kannski að fókusera á færri staði, byggja þá vel upp, halda vel utan um umferðina sem þar er, og vernda þannig náttúruna, gera ferðaþjónustunni þannig lífið léttara. Fólk lítur ólíkum augum á það hvað er þéttsetinn ferðamannastaður. Það fer eftir því hvaðan þú kemur. Fólk kemur til landsins vitandi um að vinsælustu staðirnir eru þéttsetnir. Mörgum útlendingum finnst ekki margt fólk við Geysi. Okkur finnst margt á Markúsartorginu í Feneyjum eða við Eiffelturninn í París en við förum á þessa staði.”

Þannig lokum við hringnum. Við byrjuðum á þéttsetnum ferðamannastöðum í Róm og endum á þessari pælingu Páls Ásgeirs um hvort það sé ekki bara í góðu lagi að einstakir staðir séu þéttsetnir, að stærstur fjöldinn haldi sig á gullnum hringleiðunum – til að gefa okkur hinum frið utan þeirra. 

Leiðin í Forvöð – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …