Samfélagsmiðlar

„Við ætlum okkur að gera hlutina vel“

„Það sem skiptir okkur máli núna er að styrkja beina flugið og fá stjórnvöld til að skilja að við erum ekki að leika okkur heldur að byggja upp framtíðar atvinnuveg sem geti borið uppi þessi samfélög," segir Anton Freyr Birgisson, eigandi Geo Travel í Mývatnssveit. Hann telur Norðurland geta orðið einn besta vetraráfangastað heims.

Hundasleði í Mývatnssveit - Geo Travel

Hundasleði með ferðafólk í Mývatnssveit

Túristi var á ferð í Mývatnssveit um miðjan júlí. Þoka grúfði yfir og það var fremur svalt í lofti. Rúta full af Spánverjum renndi upp að hótelinu í Reynihlíð. Fólkið þusti inn fyrir í hlýjuna. Brátt birtist viðmælandi Túrista og við komum okkur fyrir á góðum stað með kaffisopa.

Anton Freyr Birgisson er eigandi Geo Travel í Mývatnssveit, sem er ferðaskrifstofa sem leggur áherslu á sjálfbærni og náttúrutúlkun í þeirri þjónustu og ævintýraferðum sem hún býður viðskiptamönnum sínum í fyrir norðan. 

Anton Freyr Birgisson – MYND: ÓJ

Við ræddum slaka þjónustu Vegagerðarinnar á þessu svæði. Anton Freyr sagði að hún taki alls ekki mið af hagsmunum ferðaþjónustunnar.

Svo liðu dagar, vikur og mánuðir. Nú hefur ferðamálaráðherra sagst ætla að ræða málið við innviðaráðherra, t.d. um hvort halda megi Dettifossvegi opnum yfir veturinn. Það hefur lítið frést af aðgerðum. Dettifossvegur er enn ófær.

Túristi hefur samband við Anton Frey aftur nokkrum dögum fyrir jól.

Ruddur vegur í Mývatnssveit – Mynd: Geo Travel

Ertu vongóður um að eitthvað breytist í vetrarþjónustunni?

„Ég veit það ekki. Við erum búin að nóg af því að láta lofa okkur einhverju. Við skulum bara bíða og sjá hvað verður gert. Enn hef ég ekki séð neinar breytingar.

Dettifossvegur er ruddur á haustin og svo næst að vori. Við höfum margsinnis sagt að það sem við þurfum er að tekið sé tillit til okkar aðstæðna.

Vélsleðamaður dáist að norðurljósum – Mynd: Geo Travel

Nú erum við að selja í ferðir á árinu 2024. Við erum löngu búin að selja allt og skipuleggja á árinu 2023. Það ár eru löngu liðið í söluferlinu. Nú sitjum við sveitt að undirbúa veturinn 2024 og getum ekki svarað því hvort hægt sé að fara með rútu að Dettifossi, smárútu eða fjallajeppa, hvort fært verði að Dimmuborgum eða Hverarönd, hvaða tækjaflota við eigum að nota.

Sól hnígur á fjöllum. Ferðamenn dást að sjónarspilinu – Mynd: Geo Travel

Það verður að liggja fyrir einhver ákvörðum um hvernig staðið verður að hlutunum – eitthvað lengra en næstu þrjá til sex mánuði. Ferðaþjónustan er þannig atvinnugrein að hún er skipulögð tvö eða þrjú ár fram í tímann.

Við lítum hjákátlega út gagnvart erlendum samstarfsaðilum okkar þegar við stöndum hreinlega á gati þegar spurt er hvernig þetta verði á næsta ári.”

Ferðafólk gengur á Hverfjall – Mynd: Geo Travel

Hvaða möguleikar felast í vetrarþjónustu við ferðafólk í Mývatnssveit. Hvernig sérðu fyrir þér að hún geti þróast á Norðurlandi?

„Ég hef víða þvælst um og velt fyrir mér vetrarþjónustu hjá keppinautum okkar í Skandinavíu, Finnlandi og Kanada. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að Norðurland verði einn besti vetraráfangastaður á norðurhveli jarðar á næstu árum.

Við höfum allt sem allir hinir hafa til samans:

Hér eru litlar fjarlægðir milli viðkomustaða og óendanlegt úrval af afþreyingarmöguleikum. Okkar stóru samkeppnisaðilar, Finnar og Svíar, bjóða mikið af ferðum í vetrarkyrrð á vélsleðum, hundasleðum og skíðum. Aðrir bjóða upp á lúxushótel, spa og sjóböð. Hér á Norðurlandi höfum við þetta samspil vetrar, fallegrar náttúru, mikla afþreyingarmöguleika, eldfjöll, baðstaði og heitar náttúrulaugar, hvalaskoðun, menningu og góðan mat.

Norðurljós á himni speglast á ísilögðu Mývatni – Mynd: Geo Travel

Það er í rauninni bara eitt sem þetta allt hangir á. Það er beint flug!

Vetrarferðaþjónusta á Norðurlandi án beins flugs er ekki möguleg. Það eru falleg teikn á lofti varðandi beina flugið.

Niðurstaða okkar er í rauninni þessi: Það er ekki raunhæft að fjárfesta og halda áfram í ferðaþjónustu á Norðurlandi að vetrarlagi nema búið sé að koma á beinu flugi.

Erlendi gesturinn gæti komið til okkar í vikudvöl í vetrarparadís, hvort sem það er í Mývatnssveit, á Húsavík, Akureyri, Siglufirði, í Skagafirði. Allir þessir áfangastaðir ættu að geta sett upp frábæra þjónustu. Allt veltur þetta á því að koma fólkinu til okkar.

Ferðafólki fylgt í vélsleðaferð – Mynd: Geo Travel

Við ætlum okkur að gera hlutina vel. Það sem skiptir okkur máli núna er að styrkja beina flugið og fá stjórnvöld til að skilja að við erum ekki að leika okkur heldur að byggja upp framtíðar atvinnuveg sem getur borið uppi þessi samfélög.”

Anton Freyr er innblásinn, hefur mikla trú á þeim möguleikum sem Norðurland býr yfir. Hann telur að Norðurland eigi sömu möguleika og Lappland í Finnlandi, þar sem öflug ferðaþjónusta er rekin árið um kring.

Árið 2019 voru 3,1 milljón gistinátta skráðar í Lapplandi. Í Mývatnssveit eru hótelin lokuð á veturna. Flugfarþegar sem komu til Lapplands þetta ár fyrir heimsfaraldur voru 1,4 milljónir. Aðeins Niceair heldur uppi áætlunarflugi til útlanda frá Akureyri í vetur.

Anton Freyr og hans félagar skilja auðvitað ekkert í þessu andvaraleysi yfirvalda hér uppi á Íslandi.

Á jólasveinaslóðum í Dimmuborgum – Mynd: Geo Travel

Það verður fremur rólegt hjá ferðaþjónustufólki í Mývatnssveit um jólin en það var nóg að gera á aðventunni.

„Við erum kannski pínu klikkuð en við höfum opið og höfum verið með vélsleðaferðir alla daga frá 12. október – frá því hausthretið gekk yfir. Við færðum okkur upp á Þeistareyki þegar gerði hláku í nóvember. Þá bjóðum við margskonar sérferðir fyrir einstaklinga og hópa. Það gekk þokkalega vel í nóvember en svo róaðist allt í desember. Fólk sem kemur til okkar er flest að aka hringveginn.

Auðvitað hafa veður sett strik í reikning einhverra en á móti kemur að við erum sveigjanleg, bjóðum ferðir tvisvar á dag, og það skiptir okkur ekki miklu máli þó ferðum seinki í dag eða tvo. Það er ekkert vandamál fyrir okkur. Við förum í sleðaferð þegar gesturinn kemur. Þá er farið í jeppaferð upp að Lofthelli eða inn á hálendið eða bara rennt með fólk frá Akureyri í Mývatnssveit. Við fjárfestum í nokkrum Tesla-bílum í haust og notum þá í einkaferðir eftir malbikinu með leiðsögn, förum í Dimmuborgir og að Hverarönd. Svo fáum við kúnna sem fara í viku til 10 daga einkaferðir í jeppa með leiðsögumanni. Við sýnum þeim allt sem Norðurland hefur að bjóða – og það er margt.”

Anton Freyr – MYND: ÓJ

Búist þið við gestum um hátíðirnar?

„Við tökum því fremur rólega um hátíðirnar. Öll hótel eru lokuð, aðeins fáeinir gististaðir opnir. Einhverjir ferðamenn koma og við sinnum þeim með sleðaferðum. Annars njótum við þess að vera í faðmi fjölskyldunnar um jólin. Þegar komið er fram í janúar hefst ein okkar stærsta vertíð og stendur fram í mars.

Hótelkeðjurnar tóku þá ákvörðun að loka stærstan hluta vetrarins í Mývatnssveit. Það er þeirra ákvörðun en blóðugt fyrir okkur sem störfum að ferðaþjónustu árið um kring. Við bindum vonir við að hótelin lengi á næstu árum tímann sem opið er. Á meðan öll hótelin eru lokuð er frekar lítið að gera hjá mér.”

Nýtt efni

Í fyrra batnaði lausafjárstaða Play um nærri helming frá lokum fyrsta ársfjórðungs og fram í lok júní þegar annar fjórðungurinn var að baki. Hækkunin nam 17 milljónum dollara. Nú í ár hækkaði sjóðsstaðan um 34 milljónir dollara á milli ársfjórðunga en þar af mátti rekja 32 milljónir dollara til hlutafjáraukningarinnar í apríl. Reksturinn sjálfur skilaði …

„Við ætlum að hætta ákalli um að fólk heimsæki okkur en leggja í staðinn áherslu á hvað Barselóna hefur að bjóða,“ sagði Mateu Hernández, ferðamálastjóri Barselóna, á fréttamannafundi í vikunni. Þar voru kynnt áform um róttæka breytingu á því hvernig borgin verður kynnt umheiminum. Slagorðinu Heimsækið Barselóna (Visit Barcelona), sem notað hefur verið síðustu 15 árin, …

Skemmdarvargar gerðu samræmdar árásir á hraðlestakerfi Frakklands í nótt með eldum sem kveiktir voru á nokkrum helstu leiðum í átt að París, þar sem Ólympíuleikarnir verða settir í dag.  Íþróttamálaráðherra Frakklands, Amélie Oudéa-Castéra, fordæmdi spellvirkin sem eiga eftir að valda truflunum á lestarferðum fólks næstu daga á meðan verið er að hreinsa brautarteina og laga …

Play flutti 442 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi, apríl til júní, sem er viðbót um 13 prósent frá sama tíma í fyrra. Framboð félagsins jókst álíka mikið eða um 12 prósent enda var sætanýtingin betri í ár. Sú bæting skrifast að hluta til á lægra farmiðaverð því einingatekjur félagsins lækkuðu um 4 prósent og meðalfargjaldið …

Ný ríkisstjórn í Bretlandi kynnti í síðustu viku áætlun sína um að tryggja ákveðið lágmarksverð fyrir sjálfbært þotueldsneyti (SAF) til að hvetja framleiðendur til dáða - auka vinnsluna og byggja upp nauðsynlega innviði til dreifingar. Ekki veitir af hvatningu því innleiðingu SAF miðar mjög hægt. Vissulega menga nýjar þotur miklu minna en þær eldri en …

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …